A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
12.10.2017 - 18:52 | Björn Ingi Bjarnason,Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið,Jakob Ágúst Hjálmarsson

Allt þetta fólk - kynning

Á morgun kemur út hjá Vestfirska forlaginu bókin Allt þetta fólk - Þormóðsslysið 18. febrúar 1943, þar sem 31 manneskja fórst, flest frá Bíldudal. Það slys sló alla þjóðina óhug og harmi og umfjöllun um það fyllti öll blöð langan tíma á eftir og olli ofan á allt stjórnmáldeilum.

Landsmenn fundu til ríkrar samúðar og á opinberum vettvangi voru minningarstundir. Í Dómkirkjunni var minningarstund yfir kistum fimm skipverja sem þá höfðu fundist.

Höfundur bókarinnar sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson fylgir bókinni úr hlaði og les úr henni í Bíldudalskirkju laugardag 14. október kl 13.30, í Ísafjarðarkirkju  sunnudag 15. október eftir messu og Dómkirkjunni kl. 16 á  miðvikudaginn 18. október.

 

Umfjöllunarefni

Þormóðsslysið 18. febrúar 1943 er mesta blóðtaka sem nokkurt íslenskt byggðarlag hefur orðið fyrir. Þá fórust 31 maður, þar af  9 konur og eitt barn. Í hópnum voru 6 hjón og pör, blómi samfélagsins á Bíldudal.

Líf heillar byggðar og flestra fjölskyldna þar gjörbreyttist og bar merki þess uppfrá því. Einstaklingar lifðu í skugga slyssins og báru á sál sinni sár sem aldrei greru um heilt.

Saga þessa fólks og örlaga þeirra birtist hér í heild sinni svo sem heimildir leyfa sem og minningar höfundar og hugleiðingar.

Sr. Jakob Ágúst Hjálmarsson hefur lifað með þessum minningum og að hvatningu úr hópi þeirra 56 barna sem fólkið lét eftir sig og mörgu barnabarna sem af þeim eru komin hefur hann ritað þessa bók.

Í bókinni er fjallað um byggðarlagið sem fyrir áfallinu varð og farnað þess, æviágrip fólksins sem fórst, kringumstæður ferðalagsins, skipið Þormóð og siglingu þess, rannsókn skipstapans og deilurnar sem urðu í kjölfarið. Þá eru birt minningarorð um  hin látnu sem birtust í blöðunum á sínum tíma.

Bókin geymir og fjölbreytt myndefni sem sýnir þau sem í hlut áttu og það sem varðar örlagaför þeirra.

Hvernig hefur Þormóður getað farist með öllu þessu fólki? Þessi spurning lýsir vel viðbrögðunum við ótíðindunum sem og óhugnaði  þeirra og er um leið grunnspurning bókarinnar.


« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31