A A A
  • 1986 - varð kjarnorkuslysið í Tsjernóbyl
09.02.2015 - 06:54 | Fréttablaðið

Aldrei fór ég suður með breyttu sniði

Mugison.
Mugison.
« 1 af 2 »
Fyrirkomulagi hátíðarinnar hefur verið breytt. Fyrstu hljómsveitirnar tilkynntar.

"Við erum búnir að vera í smá naflaskoðun því það hefur svo margt breyst á þessum tíma. Þetta er tólfta hátíðin," segir Örn Elías Guðmundsson, betur þekktur sem Mugison, einn af aðstandendum tónlistarhátíðarinnar Aldrei fór ég suður sem fram fer 3.-4. apríl.

 

Fyrirkomulag hátíðarinnar mun breytast í ár miðað við undanfarin ár en aðstandendur hátíðarinnar hafa meðal annars nýtt sér álit tónlistarmanna og gesta sem kynni hafa haft af hátíðinni til þess að betrumbæta hana að öllu leyti. "Að menn séu að koma vestur yfir heila helgi til þess að spila í korter, tuttugu mínútur er ekki alveg málið. Við ætlum að leyfa hljómsveitunum að fá rýmri tíma en þá munu mögulega færri listamenn koma fram," segir Mugison.

 

Það hefur tíðkast að hljómsveitir spili ókeypis á hátíðinni en nú vilja aðstandendur hátíðarinnar reyna að koma til móts við listamennina. "Við ætlum að borga einhvers konar málamiðlunarpeninga, svo menn komi nú ekki út í mínus yfir helgina. Í ár verður öllum borgað eitthvað á einhvern hátt. Þetta var öðruvísi þegar við vorum að gera þetta í góðu flippi um páska en nú hefur þetta stækkað svo mikið og breyst."

 

Lokað hefur verið fyrir umsóknir til þess að koma fram á hátíðinni en Mugison segir að listinn sé afar langur og líti vel út. "Við erum komnir með of mikið af umsóknum, þannig að umsóknarfresturinn er liðinn. Það er kominn mikill valkvíði í okkur. Við erum svo ótrúlega rík að frábærum listamönnum."

 

Dagskráin verður að öllum líkindum styttri á sjálfum tónleikastaðnum svo að fleiri á Ísafirði og nærsveitum fái tækifæri til að bjóða upp á tónlist og aðra

skemmtun á kvöldin. "Við hættum líklega í kringum miðnætti í ár. Við viljum leyfa vertum og öðrum að njóta fólksins. Aldrei fór ég suður hefur alltaf verið stórt samfélagsverkefni hjá okkur fyrir vestan en mun snerta samfélagið mun meira í ár en nokkru sinni áður."

 

Þá á að reyna að hafa meiri dagskrá yfir daginn og láta bæinn lifna enn meira við að deginum til. "Við höfum verið að hvetja verta og stuðbolta til að reyna að gera meira til dæmis yfir daginn. Sjálf erum við í Aldrei fór ég suður-teyminu að undirbúa stóran fund á laugardeginum þar sem við fáum poppara með örfyrirlestra og ræðum ýmis mál tengt tónlistarheiminum. Svo viljum við láta bæinn lifna enn þá meira við og hafa til dæmis þynnkutónleika sem gætu verið afbragðs lækningarleið fyrir fólk sem glímir við þynnkur," segir Mugison og hlær.

 

Fréttablaðið mánudagurinn 9. febrúar 2015

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30