A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
28.07.2016 - 11:27 | Vestfirska forlagið,Safnahúsið á Ísafirði

Afhentu heiðursborgarabréf Hjartar Hjálmarssonar

Grétar Snær Hjartarson og Emil Ragnar Hjartarson afhenda Guðfinnu Hreiðarsdóttur skjalaverði, heiðursborgaraskjal föður síns, Hjartar Hjálmarssonar.
Grétar Snær Hjartarson og Emil Ragnar Hjartarson afhenda Guðfinnu Hreiðarsdóttur skjalaverði, heiðursborgaraskjal föður síns, Hjartar Hjálmarssonar.
« 1 af 5 »

Bræðurnir Emil Ragnar og Grétar Snær Hjartarsynir heimsóttu Skjalasafnið í vikunni og afhentu því heiðursborgarabréf föður síns, Hjartar Hjálmarssonar, fyrrum skólastjóra á Flateyri.

Hjörtur var fæddur 28. júní 1905 á Þorljótsstöðum í Vesturdal í Skagafirði. Foreldrar hans voru Hjálmar Þorláksson og kona hans, Kristín Þorsteinsdóttir. Þau skildu þegar Hjörtur var ungur að aldri og fluti hann með móður sinni og eldri systur, Steinunni og manni hennar, Þórarni Árnasyni, vestur að Miðhúsum í Reykhólasveit.

Hjörtur lauk gagnfræðaprófi frá Flensborgarskólanum í Hafnarfirði 1922. Eftir það var hann kennari í Reykhólasveit en fór svo í kennaranám og lauk því 1926. Þá varð hann aftur kennari í Reykhólasveit en árið 1931 flutti Hjörtur til Flateyrar og gerðist kennari við Barnaskólann, fyrst sem almennur kennari en síðan skólastjóri frá 1959. Gegndi hann því starfi til ársins 1970 er sonur hans, Emil Ragnar, tók við af honum.

Hjörtur kvæntist 15. desember 1934 Rögnu Sveinsdóttur, dóttur Sveins Gunnlaugssonar sem var skólastjóri á Flateyri á undan Hirti. Þeir tengdafeðgar byggðu sér hús saman og þar fæddust synir þeirra Hjartar og Rögnu, Emil og Grétar Snær. Ragna andaðist 1980. Hjörtur gegndi margvíslegum trúnaðarstörfum á Flateyri, var m.a. oddviti, hreppstjóri, sýslunefndarmaður og sparisjóðsstjóri. Hann var varaþingmaður Alþýðuflokksins á Vestfjörðum 1959-62 og tók tvívegis sæti á Alþingi.

Hjörtur var gerður að heiðursborgara Flateyrarhrepps árið 1975 og var einn af fjórum heiðursborgurunum hreppsins en hinir þrír voru; Finnur Finnsson, Ásgeir Torfason og Sveinn Gunnlaugsson. 

Hjörtur Hjálmarsson var ágætlega hagorður og nýtti þá gáfu vel til skemmtunar græskulaust.

Af stökum hans er sennilega vísan um týndan og fundinn frægust:

Týndur fannst, en fundinn hvarf,
Að fundnum týndur leita þarf,
en týndist þá og fundinn fer
að finna þann sem týndur er.

Síðustu árin dvaldi Hjörtur á elliheimilinu Barmahlíð á Reykhólum og lést þar 19. nóvember 1993.


« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31