A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
04.12.2016 - 11:57 | Vestfirska forlagið,Fréttatíminn

Af Dýrfirðingum: "Saga afa er saga Kópavogs"

Af Dýrfirðingum: -Saga afa er saga Kópavogs- segir Dýrfirðingurinn Leifur Reynisson, sagnfræðingur.
Af Dýrfirðingum: -Saga afa er saga Kópavogs- segir Dýrfirðingurinn Leifur Reynisson, sagnfræðingur.
« 1 af 5 »

Kópavogur er næst fjölmennasta sveitarfélag landsins, á eftir höfuðborginni. Þar búa nú ríflega 34 þúsund manns og enn stækkar bærinn. Þéttbýlismyndun í bænum á sér hins vegar ekki ýkja langa sögu. Hún hófst á 4. áratug síðustu aldar og kaupstaðarréttindi hlaut Kópavogur ekki fyrr en árið 1955. Þá voru íbúarnir 3783 talsins. Dýrfirðingurinn Leifur Reynisson sagnfræðingur hefur verið að kanna þessa sögu á undanförnum mánuðum og hann speglar hana í gegnum sögu afa síns, Sveins Mósessonar. Leifur hefur nú ritað bókina Landnemar í Kópavogi


„Þessi saga fyrstu áranna í þéttbýlismyndun Kópavogs byggir á minni fjölskyldusögu sem ég hef verið að rannsaka síðustu ár. Sveinn Mósesson úr Dýrafirði, afi minn, var meðal þeirra fyrstu sem byggðu sér hús í Kópavogi þegar þéttbýli tók að myndast þar. Við vorum mjög nánir á sínum tíma þó að langt sé milli kynslóða, hann fæddur 1907 en ég 1971. Ég fékk gamla tímann eiginlega  beint í æð frá honum og held að hann hafi kveikt hjá mér sagnfræðiáhugann. Hann sagði mér til dæmis sögur af Guttóslagnum og þessar sögur heilluðu mig mikið,“ segir Leifur Reynisson.


Önnur bókin um afa 
 
Leifur segir að afi sinn, Sveinn, hafi verið fróður alþýðumaður og þegar kom að því að rannsaka sögu hans fór Leifur í stóran frændgarð sinn til að leita efnis, finna ljósmyndir og safna sendibréfum og alls konar pappírum og taka viðtöl við þá sem mundu gamla tíma. „Þessi bók er verk númer tvö þar sem ég skrifa um afa minn,“ segir Leifur. „Ég hef líka skrifað um fyrstu árin í lífi hans vestur á fjörðum þar sem ég speglaði sögu hans í samfélagsbreytingum á fyrstu áratugum 20. aldar. Ég dró fram mynd af umbreytingu frá bændasamfélagi og yfir í nútímaþjóðfélagið sem þá var að hefja innreið sína.
 
Síðar er afi meðal allra fyrstu frumbyggja Kópavogs þegar hann byggir sér hús þar á árunum 1937-38. Ég fann myndir frá þessum tíma á filmum í gömlum vindlakassa og sá að þær vörpuðu ljósi á þessar breytingar sem ekki hefur verið skrifað mikið um, það hvernig Kópavogur verður til út af ákveðnum félagslegum og sögulegum aðstæðum.“

Kópavogur úr kreppu
 
Leifur nálgast því sögu Kópavogs í gegnum Svein afa sinn og bróður hans, Finnjón Mósesson. Báðir voru þeir málarar sem komu sér upp húsi í Kópavogi. „Þéttbýli í Kópavogi kemur til upp úr kreppunni miklu í upphafi fjórða áratugarins,“ segir Leifur. „Þetta var ótrúlega mikil sveit á þessum árum og þarna var fólk að koma undir sig fótunum sem ekki náði í lóð eða húsnæði í Reykjavík. Þannig féll afi í þann flokk sem var oft kallaður „landshornaflakkararnir á hálsinum“ en þar var vísað til Digraneshálsins, þar sem byggðin byrjaði fyrst.
 
Sögulegur bakgrunnur þéttbýlis í Kópavogi var sá að stjórn hinna vinnandi stétta (sem var við völd 1934-38) ákvað að skipta upp og deila út tveimur ríkisjörðum, Kópavogsjörðinni og Digranesjörðinni. Þetta voru stórar jarðir en ekki sérstaklega merkilegar bújarðir. Uppskiptin voru með tvennum hætti: stærri nýbýli sem voru norðan við núverandi Nýbýlaveg og síðan blettir sem voru sunnan megin Nýbýlavegar og hver þeirra var einn hektari að stærð. Þetta var í raun ein af kreppuráðstöfun stjórnvalda á þessum tíma. Afi fékk einn af þessum hekturum og það fylgdi sú kvöð að viðkomandi varð að rækta sinn hektara upp á tíu árum, en heilsárshús voru ekki leyfð.
 
Á þessum tíma var Kópavogur hluti af Seltjarnarneshreppi og þar vestur frá var mönnum ekki að skapi að íbúar færu að reisa sér íbúðarhús í Kópavogi. Húsnæðishallærið var hins vegar svo mikið að margir freistuðust til þess. Það er síðan ekki fyrr en Kópavogur slitnar frá Seltjarnarnesi og verður hreppur, 1948, að upp koma stórfelld áform um að mynda kaupstað.“

Reiðhjólið nauðsynlegt
 
Leifur segir ljóst að reiðhjólið hafi verið forsenda þess að byggð myndaðist svo snemma í Kópavogi. „Á þessum fyrstu árum var, eðli málsins samkvæmt, enga vinnu að fá í Kópavogi og margir þeirra sem þar byggðu höfðu ekki ráð á bifreiðum á þessum árum og því var reiðhjólið hið mesta þarfaþing. Sú var til dæmis reyndin með afa minn sem sótti vinnu sem málari inn til Reykjavíkur. Þannig að fyrstu árin var bara hjólað þarna á milli.
 
Í upphafi skorti margt í þessum búskap. Vatn urðu menn sér úti um með því að grafa brunn, afi var með vindmyllu til að framleiða rafmagn í lýsingu og hópferðir voru farnar í þvottalaugarnar fyrstu árin. Á stríðsárunum kemur rafmagn í húsin, síðan vatnsveita og skólp og loks skóli í bæinn eftir stríð, 1949. Þessum breytingum og þróun á þjónustu og auknum bæjarbrag lýsi ég í bókinni. Ég sá bara að saga afa og ömmu, Guðdísar Guðmundsdóttur, spannaði eiginlega alveg sögu bæjarfélagsins og þess vegna brá ég á það ráð að tengja þetta svona saman.“


Fréttatíminn 3. desember 2016.
 


« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31