18.04.2017 - 06:54 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason
Á þriðja þúsund á Aldrei fór ég suður
• Hátíðin „gekk eins og í lygasögu
Um tvö til þrjú þúsund manns voru á tónlistar- og fjölskylduhátíðinni Aldrei fór ég suður yfir páskahátíðina, en Kristján Freyr Halldórsson, rokkstjóri hátíðarinnar, segir hana hafa gengið vonum framar. Hann segir frið og spekt hafa ríkt á tónleikasvæðinu. Hátíðin var nú í annað skipti haldin á nýjum stað, í veiðarfærageymslu rækjuvinnslunnar Kampa.
„Þetta var alveg hryllilega gaman og gekk eins og í lygasögu. Fyrir utan það hvað við, skipuleggjendurnir, erum ánægð höfum við fengið að vita í símtölum frá sjálfboðaliðum, lögreglu og gæslufólki hvað þetta gekk allt vel,“ segir hann.
Kristján Freyr segist ánægður með lögregluna á Ísafirði, hún hafi stuðlað að afslöppuðu andrúmslofti, blandað geði við gestina og því ekki þurft að setja sig í stellingar.
Kristján Freyr segir að öllum líkindum fleiri hafa mætt nú en í fyrra, en auk tónleikagestanna ákvað fjöldi fólks að verja páskunum á Ísafirði.
Meðal tónlistarflytjenda voru KK band, Valdimar og Emmsjé Gauti.