Á gamla spítalanum á Þingeyri
"Góðan daginn drengir--það er farið að rjúka á Höfda"
Hann sagði þetta stundum hann Valdi Sól þegar hann kom inn í borðstofun í Gamla Spítalanum á Þingeyri þar sem sátu kostgangararnir hennar Ragnheiðar Stefánsdóttur. Valdi var einn af fastamönnunum, það voru líka lærlingarnir í Vélsmiðju Guðmundar J. Sig. Svo voru lausamenn, vegavinnustrákar sem gistu í Áhaldahúsinu, menn sem unnu í sláturhúsinu á haustin--og hann Lýður Jónsson við borðsendann, fastamaður
Hún Ragnheiður annaðist okkur með sinni einstöku ljúfmennsku og yljandi elskusemi, brosandi. og alúðleg alltaf.
Ung eiginkona, tveggja barna móðir og það þriðja í vændum hafði hún orðið fyrir ógurlegu reiðarslagi. Á skammri stund urðu eignmaður hennar, mágur, bróðir og frændi fórnarlömb villimennsku styrjaldar þegar þeir voru myrtir í vélbyssuárás á Fróða frá Þingeyri. Eftir stóð einstæð móðir með börnin sín, að vísu með öflugan frændgarð til styrktar og alla samúð lítils samfélags en höggið óskaplegt.
Ég undraðist oft það hugrekki, kjark og sálarstyrkleika sem hún Ragnheiður bjó yfir. Raunir sem hún varð að þola gera flest annað lítilvægt.
Hún var hetja.
Blessuð sér minning hennar.
Emil Ragnar Hjartarson frá Flateyri á Facebook-síðu sinni 13. febrúar 2017.