A A A
  • 1981 - Berglind Hrönn Hlynsdóttir
28.08.2015 - 08:35 | Morgunblaðið,BIB

Á ballið mætir rjómi bænda á Vestfjörðum

Björn Birkisson og Helga Guðný Kristjánsdóttir, sem búa í Botni í Súgandafirði, hafa borið þungann af undirbúningi Rjómaballs. Ljósm.: Morgunblaðið.
Björn Birkisson og Helga Guðný Kristjánsdóttir, sem búa í Botni í Súgandafirði, hafa borið þungann af undirbúningi Rjómaballs. Ljósm.: Morgunblaðið.
« 1 af 3 »

• Uppskeruhátíð bænda vestra verður á Núpi um helgina - (á helginni)

„Rjómaballið er staðfesting þess að maður sé manns gaman. Mætingin er jafnan góð, en þarna kemur fólk úr sveitum víða á Vestfjörðum, innan úr Ísafjarðardjúpi og sunnan frá Breiðafirði og mætist á miðri leið,“ segir Helga Guðný Kristjánsdóttir í Botni í Súgandafirði. Hún er í undirbúningsnefnd vegna Rjómaballsins, sem er uppskeruhátíð bænda á norðanverðum Vestfjörðum. Það verður haldið að Núpi í Dýrafirði síðasta laugardag í ágúst eins og hefð er fyrir.

 

Slætti ekki lokið

Þótt Rjómaballið góða sé eins konar töðugjöld Vestfjarðabænda er heyskap hjá mörgum þeirra enn ekki lokið. Tíðin hefur verið rysjótt; þurrt og kalt í vor og nú hefur oft legið í rigningu dögum saman. „Hér í Botni er fyrri slætti enn ekki lokið, en vonandi verður september mildur. Þá tekst þetta allt,“ segir Helga.

Upphaflega stóð Mjólkursamlag Ísfirðinga að Rjómaballinu, þangað sem starfsfólki, innleggjendum og fleirum var boðið. Síðar, með breyttum aðstæðum, tók Félag kúabænda á norðanverðum Vestfjörðum við keflinu. Gestir hafa oft verið í kringum 100 talsins.

„Nafngiftin kemur til af því að einhverju sinni var haft á orði að á ballið mætti rjómi bænda á Vestfjörðum. Kona í Önundarfirði sagði af því tilefni að þá mætti kalla þetta Rjómaball. Þar með var nafnið komið og verður ekki breytt úr þessu,“ segir Helga.

Jafnhliða skemmtun er, segir Helga, reynt að minnst afmælisviðburða, til dæmis tengdra mjólkurvinnslu og félagsstarfsemi bænda. Guðni Ágústsson, fyrrverandi landbúnaðarráðherra, er veislustjóri á Rjómaballinu að þessu sinni. Þá er jafnan happdrætti með veglegum vinningum, þar sem fyrirtæki á Ísafirði og vélasölur og önnur slík sem bændur skipta mikið við leggja til góða vinninga. Stefán Jónsson og Guðmundur Hjaltason leika síðan fyrir dansi – og væntanlega verður ekki slegið af fyrr en kominn er tími á að fara heim í morgunmjaltir.

 

 

Morgunblaðið föstudagurinn 28. ágúst 2015.

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30