A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
25.07.2016 - 11:20 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Guðni Ágústsson

Á að sparka þjóðarflugvellinum burt úr höfuðborginni?

Guðni Ágústsson.
Guðni Ágústsson.
« 1 af 2 »

Eftir Guðna Ágústsson

Hvernig má það vera að tveir stjórnmálamenn, sem stoppuðu stutt við í pólitíkinni, skuli ætla að komast upp með þau spjöll að loka neyðarbrautinni á Reykjavíkurflugvelli og þar með að loka leiðinni inn á Landspítalann fyrir sjúkraflugið í vitlausum veðrum og leggja drög að því að koma flugvelli þjóðarinnar í Vatnsmýrinni fyrir kattarnef? Þessa ákvörðun tóku Hanna Birna Kristjánsdóttir, þá innanríkisráðherra, og Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur. Þetta var gert án aðkomu Alþingis og örugglega ekki rætt í ríkisstjórninni, gerendurnir undirrituðu þetta í bakherbergi eftir að annað skjal hafði verið undirritað af þeim með forsætisráðherra árið 2013 um að allt flugvallarmálið væri sett í bið um nokkurra ára skeið. Sem sé – hið fyrra samkomulag var lítilsvirt andartaki síðar.

Hæstiréttur hefur fellt þann dóm að gjörningurinn sé löglegur og eftir honum verði að fara, en það útilokar ekki nýja ákvörðun Alþingis í ljósi afleiðinganna sem hljótast af samningi Hönnu Birnu við Jón Gnarr og niðurstöðu Rögnu-nefndarinnar, ekkert flugvallarstæði annað til staðar í Reykjavík. Hæstaréttardómurinn snerist ekkert um flugvöllinn, mikilvægi hans og flugöryggi heldur um að gjörningurinn stæðist lög. Núverandi innanríkisráðherra með Alþingi á bak við sig getur hrint þessari niðurstöðu og tekið aðra ákvörðun vegna mikilvægra öryggishagsmuna. Sökudólgarnir eru á bak og burt, horfnir úr hinum stóru embættum en Dagur B. Eggertsson borgarstjóri glottir við gaflaðið og braskararnir sem ætla að byggja dýrustu hús og hótel í Vatnsmýrinni strjúka sitt peningaveski og fagna því að flugvöllurinn í heild er kominn á dauðalistann. Þetta gerist þótt þjóðarviljinn hafi verið mældur hvað eftir annað milli 80% og upp í 84%, sem vilja flugvöllinn á þessum stað og í friði. Meiri stuðningur en við nokkuð annað verkefni, samt komast Valsmenn allra flokka upp með að hrekja flugvöllinn á burt.

 

Dauðans alvara

Reykjavíkurflugvöllur er sjúkraflugvöllur allra landmanna og allra þeirra sem veikjast og slasast alvarlega á ferðalögum um landið. Flugvöllurinn hefur verið brú milli höfuðborgarinnar og landsbyggðarinnar, um hann fóru 750 sjúkraflug árið 2015, þar af helmingur farþega í lífshættu og margir upp á líf og dauða. Hvar sem menn búa í landinu gerir flugið og flugvöllurinn það að verkum að á einni klukkustund er hægt að ferðast til höfuðborgarinnar sem allir Íslendingar hafa byggt upp og Vatnsmýrin er lykillinn að því, með flugvellinum stendur eða fellur innanlandsflugið. Spyrja má er Vatnsmýrin hentugt byggingaland fyrir hótel eða íbúðabyggð? Fróðir menn segja mér að hún sé vatnssósa mýri eins og nafnið bendir til, nokkurra metra djúp, og jarðvegur mengaður eftir veru hersins. Gríðarleg jarðvegsskipti yrðu að eiga sér stað, hvað kostar það og hvert skal aka mýrinni/moldinni og hvert verður mölin sótt? Hverjir bíða eftir hinum rándýru íbúðum? Fræðimenn segja að þetta muni lækka grunnvatnsstöðuna í Vatnsmýrinni og Reykjavíkurtjörn kunni að þorna upp?

 

 

Vatnsmýrin er besta flugvallarstæðið

Þrasið um að færa flugvöllinn upp á Hólmsheiði eða út á Löngusker er afskrifað í úttekt Rögnunefndarinnar og sú dæmalausa tillaga um flugvöll í Hvassahrauni í hlaðinu á Keflavík var bábilja og sennilega úr munni borgarstjórans, Dags B. Eggertssonar, sem sat í staðarvalsnefndinni og hlýtur hann að hafa verið gjörsamlega vanhæfur þar. Reykjavíkurflugvöllur er nefnilega merkilegur að því leyti að hann uppfyllir öll skilyrði hvað flug og flugöryggi varðar. Enn fremur er hann varaflugvöllur landsins, fari hann er búið að veikja flugið í landinu og líka til og frá landinu því hann er Keflavík mikilvægur, hann er einn af varaflugvöllum Keflavíkur sem færist þá til Skotlands. Flugmenn segja að allar hugmyndir um styttingu brauta og skerðingu þeirra séu varhugaverðar og það ætti ekki að setja slíkt fram eða ráðast í þær nema eftir nákvæma rannsóknarvinnu.

Með brotthvarfi flugvallarins er stefnt að óafturkræfu tjóni í samgöngumálum landsins og sjúkrakerfi þess. Og miklum skaða fyrir Reykjavík í þjónustu, lífsöryggi og atvinnu kringum flugið sem varð reyndar til með Reykjavíkurflugvelli.

 

Alþingi stungið svefnþorni?

Því miður hefur Alþingi verið stungið svefnþorni í þessu máli þótt góður vilji margra þingmanna hafi staðið til að bjarga flugvellinum. Nú liggur fyrir að neyðarbrautin er á förum nema að tekin verði ný ákvörðun og þá um að bjarga henni og flugvellinum. Ég hvet innanríkisráðherra, Ólöfu Nordal, og alþingismenn til að taka málið upp á sumarþingi og ræða það í aðdraganda alþingiskosninga. Það er hægt með löggjöf að bjarga flugvellinum og það á að gera. Hæstiréttur hefur aðeins fellt dóm um að gjörningur borgarstjórans fyrrverandi og innanríkisráðherrans standist, en enginn bannar þinginu að taka nýja ákvörðun út frá hagsmunum þjóðarinnar, því ekkert flugvallarstæði leysir Reykjavíkurflugvöll af hólmi, það er hin nýja niðurstaða Rögnunefndarinnar. Það er bæði betra og ódýrara að borga Reykjavíkurborg skaðabætur en láta eyðilegginguna ganga fram, hún kostar mörg hundruð milljarða og er óafturkræft tjón sem varðar alla Íslendinga. „Hjartað Í Vatnsmýrinni“ hrópar á hjálp. Myndum breiða pólitíska samstöðu um Reykjavíkurflugvöll. Gerum flugvallarmálið að kosningamáli verði það ekki leyst á sumarþingi.

Höfundur er fv. alþingismaður og ráðherra.

Morgunblaðið laugardagurinn 23. júlí 2016

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31