A A A
  • 1950 - Margrét Guðjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
13.07.2015 - 10:46 | Björn Ingi Bjarnason

80 ára minning Hafliða Magnússonar

Hallgrímur Sveinsson og Hafliði Magnússon á hlaðinu að Brekku í Dýrafirði sumarið 2009. Ljósm.: BIB
Hallgrímur Sveinsson og Hafliði Magnússon á hlaðinu að Brekku í Dýrafirði sumarið 2009. Ljósm.: BIB
« 1 af 3 »

Hafliði Þórður Magnússon, listamaður frá Bíldudal, var fæddur þann 16. júlí 1935 og nú á fimmtudag eru því 80 ár frá fæðingun hans. Hafliði lést þann 25. júní 2011  á heimili sínu á Selfossi.

Hafliði var fæddur í Hergilsey á Breiðafirði. Hann fluttist þaðan 6 ára í Arnarfjörð þar sem fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum en lengst af bjó hann á Bíldudal. Hann bjó einnig um tíma í Reykjavík.

Hafliði starfaði m.a. sem sjómaður og þá mest á síðutogurum, við fiskvinnslu og einnig kenndi hann sjóvinnu. Þá vann hann við uppbyggingu Mjólkárvirkjunar og endurgerð fæðingarbæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri við Arnarfjörð.

Frá árinu 1998 bjó Hafliði síðan á Selfossi ásamt sambýliskonu sinni Evu Þórarinsdóttur frá Suðureyri við Súgandafjörð. Á Selfossi vann hann ýmis störf, síðast hjá SG við trésmíðar þar sem hann lauk hefðbundinni starfsævi árið 2002.

En Hafliði Magnússon var fyrst og fremst rithöfundur, ljóðskáld, söngleikjahöfundur og málari. Þá lagði hann mikla rækt við sagnaþætti af ýmsum toga og flest í því tengdist Bíldudal og Arnarfirði. Hann var svo sannarlega margþættur listamaður og þeim störfum helgaði hann sig alfarið eftir að hann hætti störfum hjá SG. 

Hafliði var félagslyndur og hrókur alls fagnaðar í hópi vina sinna. Hann vann mikið með leikfélaginu Baldri á Bíldudal og var formaður þess um tíma. Hann samdi ótal gamanbragi sem fluttir voru við sérstök tækifæri. Þó nokkur leikrit og söngleikir eftir hann voru fluttir á Bíldudal og víðar um land og einnig erlendis. Hann skrifaði fjölmörg ritverk, bækur og greinar. Hafliði var mikilvirkur máttarstólpi fyrir Vestfirska forlagið á Þingeyri í hinni fjölbreyttu útgáfu þess forlags allt frá stofnun árið 1994 og var með athyglisverð verk í vinnslu er hann féll frá. 

Sem púki og ungur maður á Flateyri við Önundarfjörð vissi ég af Hafliða Magnússyni sem eins hinna vönduðu og kraftmiklu félags- og listamanna á Bíldudal sem stóðu þar fyrir margþættu lista- og menningarlífi svo eftir var tekið í þorpunum á Vestfjörðun og reyndar víðar um land. Leikritin frá Leikfélaginu Baldri, sem þeir fóru með um alla Vestfirði og sýndu, voru ógleymanleg og er ekki hallað á nein leikfélög vestra þegar sagt er að Bílddælingarnir voru öllum fremri. Hljómsveitin Facon á Bíldudal varð til og starfaði í þessari traustu menningarlegu umgjörð sem Arnarfjörðurinn var. Frá þessum tíma fylgdist ég með Hafliða Magnússyni og því sem hann var að gera án þess þó að hitta hann nokkurn tímann í návígi.

Á þessu varð síðan breyting er ég og fjölskyldan fluttum til Stokkseyrar árið 1999 og síðan á Eyrarbakka. Eins og Vestfirðinga er gjarnan háttur á nýjum slóðum krunka þeir sig saman til þátttöku í félags- og menningarlífi. Þeir reyna að blanda þar við innslögum að vestan því ekki eru Vestfirðingar ragir við að kunngjöra sitt upprunastolt og öllu sem því fylgir. Í þessum anda og umgjörð lágu leiðir okkar Hafliða Magnússonar saman í Flóanum. 

Báðir höfðum við Hafliði verk á höndum fyrir Sunnlenska fréttablaðið á Selfossi. Hann sem krossgátuhöfundur og smásagnaritari og ég sem frétta- og greinaskrifari. Með okkur Hafliða varð strax náin og góð vinátta og stóðum við í ýmsu félags- og menningarstarfi og þá oftar en ekki með Vestfirðingum syðra. Meðal þessa varð síðustu árin skemmtilegt samstarf við Vestfirska forlagið á Þingeyri og kynningar á útgáfu þess á Suðurlandi og víðar og samkomuhald vegna verkefnisins.  Þessar samkomur voru vel heppnaðar og fjölsóttar þannig að þær eiga mörg aðsóknarmet slíkra samkoma. Hæfileikar og framganga Hafliða á þessum samkomum voru lykilatriði þessa góða gengis. Nefni ég aðeins til samkomurnar árið 2008 en þá kom út ævisaga Jóns Kr. Ólafssonar söngvara á Bíldudal, „Mélódíur minninganna” sem Hafliði skráði með sínum skemmtilega hætti.

Í lok ágúst árið 2009 fóru nokkrir Hrútavinir af Suðurlandi og fangaverðir á Litla-Hrauni í fræðslu- og skemmtiferð um Vestfirði. Leiðsögumenn vorum við Hafliði hvor á sínu svæði. Gist var að Sólbakka á Flateyri og á Bíldudal. Þessi ferð er rómuð af öllum sem í fóru. Vestfjarðaferðin var einnig hluti af afmælishaldi vegna 10 ár afmælis Hrútavinafélagsins Örvars á Suðurlandi.

Hafliði Magnússon samdi í rúman áratug vikulegar krossgátur fyrir Sunnlenska fréttablaðið sem nutu mikilla vinsælda. Myndtök hans og orðaval í krossgátunum voru með sterka tengingu við líðandi stund samfélagsins í bland við mennigararfleiðina.

Minningarathöfn um Hafliða Magnússon fór fram í Laugardælakirkju við Selfoss fimmtudaginn 30. júní 2011. Kistu Hafliða við þá athöfn báru tveir tengdasynir Hafliða og Evu þeir Magnús B. Óskarsson og Sigþór Þórarinsson, einnig fjórir vinir hans af Suðurlandi; þeir Bjarkar Snorrason, Einar Loftur Högnason, Jóhann Páll Helgason og Björn Ingi Bjarnason. Þessir fjórir voru allir með í Vestfjarðaferðinni góðu sumarið 2009 og hafa ásamt fleirum hitst reglulega í hverjum mánuði síðustu ár í „menningarkakói” í Sunnlenska bókakaffinu á Selfossi í minningu Hafliða.

Hafliði Þórður Magnússon var jarðsunginn frá Bíldudalskirkju laugardaginn 2. júlí 2011. Prestur við athöfnina var hinn góði vinur Hafliða séra Egill Hallgrímsson í Skálholti sem einnig var prestur við minningarathöfnina í Laugardælakirkju. 

Blessuð sé minning Bílddælingsins Hafliða Magnússonar sem bjó síðustu árin á Selfossi.


Björn Ingi Bjarnason á Eyrarbakka

« Apríl »
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30