A A A
  • 1950 - Árni Ásbjörn Jónsson
  • 1962 - Siggeir Stefánsson
02.07.2017 - 17:10 | ruv.is,Hallgrímur Sveinsson,Björn Ingi Bjarnason

72 ára kúabóndi í fyrsta sinn til borgarinnar

Guðmundar Ármannssonar, kúabónda á Vaði í Skriðdal. Ljósm.: RUV
Guðmundar Ármannssonar, kúabónda á Vaði í Skriðdal. Ljósm.: RUV

Reykvíkingar ættu að fækka bílum um helming. Þetta er niðurstaða 72 ára gamals kúabónda sem býr austur á Héraði en hann kom í fyrsta skipti til höfuðborgarinnar á þriðjudag, sá nánast ekkert fólk heldur eintóma bíla.

Á þriðjudaginn var gerðist merkisviðburður í lífi Guðmundar Ármannssonar, kúabónda á Vaði í Skriðdal. Eftir morgunmjaltir stökk hann upp í flugvél á Egilsstöðum og fór til Reykjavíkur og heim aftur um kvöldið. Guðmundur er 72 ára síðan október í fyrra og hafði aldrei komið nær höfuðborginni en á Skálafellsjökul en það var á snjósleða fyrir um 20 árum.

Beljuhalinn örlagavaldur

„Þetta var auðvitað áfall að brjóta þetta prinsipp að fara aldrei til Reykjavíkur. Það kom nú ekki til af góðu. Það sló kýr hala í augað á mér rétt um hvítasunnuna og blæddi mikið inn á augað. Svo eyddist það en núna fyrir nokkrum dögum þá kom svona svartur baugur inn á augað og geimrusl inn á sjónina. Þarna voru tveir kostir og hvorugur góður. Annaðhvort að missa sjónina eða fara,“ segir Guðmundur.

„Varla hægt að hafa augun opin“

Aðspurður um hvað hann hafi séð í Reykjavík segir Guðmundur: „Sem betur fer sá ég nú auðvitað lítið því þegar ég kom út af deildinni þá var nú ástandið á sjóninni þannig eftir skoðunina að það var nú varla hægt að hafa augun opin. Það er auðvitað umferðin í Reykjavík. Hún er algjört kaos og maður gat ímyndað sér að þarna væri um helmingi of margir bílar á ferð. Þegar gangandi fólk fer fram úr bílum þá er nú eitthvað að.“ Guðmundur undrast hve fátt fólk hann sá úti við. „Það var eiginlega ekkert af fólki sem maður sá á þessari leið. Og þó ég sæi nú illa þá hefði ég átt að sjá fólk. Þetta voru bara bílar og kannski einn og tveir í hverjum bíl.“

Gefur Reykvíkingum ráð

Guðmundur fór aftur heim með kvöldvélinni eftir að hafa drukkið kaffi hjá mági sínum og konu hans. Hann ekki í neinum vandræðum að ráðleggja Reykvíkingum eftir þessa skömmu dvöl í höfuðborginni. „Fækka bílum um helming til að byrja með. Og dreifa kannski fólkinu meira út úr borginni. Þetta mun ekki ganga upp.“

Bundinn yfir kúnum

Guðmundur sem er 72 ára hefur hefur nokkrum sinnum komið til Akureyrar til að fara til læknis en hefur ekki ferðast mikið eða langt. „Ég hef bara ekki þurft þess. Maður hefur bara verið sjálfum sér nógur þar sem maður er. Ég er með kúabúskap og maður er bundinn yfir því. Og þegar maður hefur ekki afleysingamann þá er þetta bara svona.“ Guðmundur er ekki á því að hann taki upp á því að ferðast meira eftir þetta, hann gaf það út á sínum tíma að hann myndi fara til Reykjavíkur ef hætt yrði við Kárahnúkavirkjun. „Þetta er auðvitað sérstakt að einn beljuhali geti verið svona afdrifaríkur að grípa svona inn í lífsferilinn,“ segir Guðmundur Ármannsson, kúabóndi á Vaði í Skriðdal.

Annar maður steig út úr vélinni - „Að verða óþolandi“

Gréta Ósk Sigurðardóttir er gift Guðmundi en gerir stólpagrín að Reykjavíkurförinni. „Hann var náttúrlega bara drengslegur og heimóttarlegur og mjög varinn og verndaður hér á Vaði á bak við kýrnar. Nú þurfti hann að fara og mér fannst ég senda þennan saklausa dreng frá mér. Þegar hann kom til baka þá var þetta annar maður sem steig út úr vélinni. Hann minnti mig á kvikmyndaleikara, forframaður og harðsvíraður og eiginlega of öruggur með sig. Svona eins og heimsborgari eða leikari, það vantaði bara sólgleraugun. En nú er hann eiginlega að verða óþolandi. Ég bið ykkur að gera ekki of mikið úr þessu því hann er svo grobbinn að það hálfa væri nóg.“



« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31