2. júlí 2011 - Útfarardagur Hafliða Magnússonar
Foreldrar hans voru Bentína Kristín Jónsdóttir og Magnús Einarsson.
Eftirlifandi sambýliskona Hafliða er Eva Þórarinsdóttir frá Suðureyri, foreldrar hennar voru Þórarinn Brynjólfsson og Guðrún Markúsdóttir.
Systkini Hafliða: sammæðra Elísabet Matthildur Árnadóttir, f. 1924. Alsystkini: Sigríður, f. 1927, Óskar, f. 1933, d. 2010, tvíburasystir Hafliða, Guðlaug Ásta, f. 1935, d. 2007, Ásdís Guðrún, f. 1940, d. 1996.
Hafliði eignaðist tvær dætur, Björk og Sóldögg. Eiginmaður Bjarkar er Magnús B. Óskarsson, börn þeirra eru Soffía Karen og Óskar. Eiginmaður Sóldaggar er Jonatan Hertel, þeirra börn eru Dagur Nikolaj, Apríl Sól og Nína Björk. Eva á tvær dætur, Jónu Vigdísi, eiginmaður hennar er Sigþór Þórarinsson, þau eiga sex syni, og Unu Rós, fyrrverandi eiginmaður hennar er Pétur Einarsson, þau eiga fjögur börn.
Hafliði fæddist á Hergilsey á Breiðafirði, fluttist þaðan 6 ára í Arnarfjörð þar sem fjölskyldan bjó á ýmsum stöðum, síðast á Hóli þar sem foreldrar þeirra systkina ráku kúabú. Hafliði bjó á Bíldudal og í Reykjavík með sambýliskonu sinni og barnsmóður Soffíu Sigurðardóttur, þau slitu samvistum. Lengst af bjó hann á Bíldudal og um tíma með barnsmóður sinni Margréti Þórarinsdóttur. Árið 1998 fluttist hann á Selfoss ásamt Evu sambýliskonu sinni.
Hafliði starfaði m.a. sem sjómaður, við fiskvinnslu, kenndi sjóvinnu, vann við uppbyggingu Mjólkárvirkjunar og við smíðavinnu, á Selfossi vann hann ýmis verkamannastörf, síðast hjá SG-einingahúsum þar sem honum líkaði vel.
En Hafliði var fyrst og fremst rithöfundur, málari og listamaður. Þeim störfum helgaði hann sig alfarið eftir að hann hætti störfum hjá S.G. árið 2002.
Hafliði var félagslyndur og hrókur alls fagnaðar í hópi vina sinna. Hann vann mikið með leikfélaginu á Bíldudal og var formaður þess um tíma. Hann var virkur í verkalýðsfélaginu og var í stjórn verkalýðsfélagsins á Bíldudal. Hann samdi ótal gamanbragi sem fluttir voru við sérstök tækifæri.
Þó nokkur leikrit og söngleikir eftir hann voru fluttir á Bíldudal og víðar. Hann skrifaði fjölmörg ritverk, bækur, greinar og eitt og annað fyrir Vestfirska forlagið. Hann bjó líka til krossgátur fyrir Sunnlenska fréttablaðið á Selfossi. Bæjarins besta á Ísafirði og krossgátublaðið. Hann var sjaldan verklaus þrátt fyrir að vera hættur störfum.
Útför Hafliða Þórðar fór fram frá Bíldudalskirkju í dag, 2. júlí 2011 en áður hafði verið minningarathöfn í Laugardælakirkju við Selfoss.
_______________________________________________________________________________
Minningarorð Hallgríms Sveinssonar
á úfarardegi Hafliða Magnússonar þann 2. júlí 2011.
Merkilegt má það kalla hvað sumum mönnum er margt til lista lagt. Þeir eru teiknarar og málarar, hljóðfæraleikarar, lagasmiðir, rithöfundar, sagnamenn, húmoristar og léttleikamenn, jafnvel kvennamenn. Stundum allt þetta og meira til.
Hafliði Magnússon, alþýðulistamaður frá Bíldudal, var einn af þessum hæfileikamönnum sem leynast ótrúlega víða. Hafliði er fyndnasti höfundur landsins, sagði Oddur Björnsson og Hafliði hefur endurvakið smásöguna, skrifaði Erlendur Jónsson. Ekki er amalegt að geta veifað slíkum umsögnum þegar komið er til Lykla-Péturs, enda allt slíkt trúlega niðurskrifað hjá honum.
Undirritaður kynntist Hafliða fyrst árið 1994 þegar hann vann við endurbyggingu burstabæjar Jóns Sigurðssonar á Hrafnseyri. Þar var verklaginn og duglegur maður á ferð við grjóthleðslur og annað sem við átti, enda vanur erfiðisvinnu til sjós og lands frá blautu barnsbeini. Þeir náðu vel saman við bæjarbygginguna, hann og Elís Kjaran, undir stjórn þess eftirminnilega manns, Auðuns H. Einarssonar, enda svipaðir karakterar um margt. Hafliði, hávaxinn og myndarlegur, enda kallaður Evróputröllið af sumum sérfræðingum, bauð af sér góðan þokka, hógvær maður sem þó vildi halda sínu fram þegar við átti, var líkur sumum persónum Íslendingasagna. Þeir félagar höfðu margt í flimtingum þau þrjú sumur sem bærinn var í byggingu, ekki síst ef fallegar konur komu í heimsókn og voru ekki með gaur með sér eins og Hafliði hafði gjarnan á orði af innlifun sinni.
Hafliði gerðist fljótlega eitt af lárviðarskáldum Vestfirska forlagsins og þakkar forlagið honum nú öll þau skrif af hvers konar tagi, smásögur, skáldsögur, ljóð og viðtöl að ógleymdum öllum græskulausu gamansögunum en í þeim var hann sérfræðingur. Bækur hans, Togarasaga með tilbrigðum og Saltstorkin bros, eru undirstöðurit um gömlu togarajaxlana á síðutogurunum. Þar var Hafliði á heimavelli. Og þá var ekki fúlsað við góðu staupi er komið var í höfn. Karakterar þeir sem Hafliði færði til bókar af þeim góðu skipum heyra nú Íslandssögunni til. En persónusköpunin og frásagnarháttur Arnfirðingsins eru rannsóknarefni sem liggur óbætt hjá garði.
Megi Hafliði Magnússon, listamaður alþýðunnar, fá góða heimkomu.