26. júní 2015 - Siggi Björns 60 ára
Í dag, 26. júní 2015, er Siggi Björns sextugur, auðvitað sándar þetta ótrúlega og vonlegt að einhverjir muni ekki trúa. Ég hef þekkt Siggi í hálfa öld eða jafnvel lengur og mér er mjög til efs að þetta geti verið rétt.
Ætla samt að óska kallinum til hamingju svona meira til öryggis og láta fylgja með þunnfljótandi æviágrip eins og ég held að það sé:
Hinn alþjóðlegi trúbador, Siggi Björns er fæddur og uppalinn á Flateyri. Litlu sjávarþorpi út við ysta haf. Þar voru hetjur lífsins ekki popparar heldur voru það sjóararnir sem voru hetjur dagsins. Þetta var á þeim árum sem skipin voru úr tré en karlarnir úr stáli, nú hefur þetta allt snúist við og kerlingar af báðum kynjum komnar til sjós.
Leikvöllur púkanna var fjaran, höfnin og beitningaskúrarnir en þeir voru viskubrunnar hvers sjávarþorps. Þjónuðu í senn sem einskonar félagsmálaskólar og mannlífsmiðstöðvar. Siggi byrjaði líkt og aðrir púkar að beita með skólanum til að eiga fyrir bíói og heimsóknum í Allabúðina sem er einhver merkasta verslun sem til hefur verið, enda krakkarnir komnir í föst reiknisviðskipti um 10 ára aldur hjá Alla.
Með Bítlabylgjunni sem reið yfir heimsbyggðina fór ekki hjá því að poppstjörnur samtímans nálguðust frægð og frama hörðustu sjósóknara og Flateyringar eignuðust sína stjörnu þegar Ingólfur R. Björnsson, stóri bróðir Sigga, sló í gegn með hljómsveitinni Geislum frá Akureyri með laginu Skuldir. Oft hefur verið bent á þetta lag sem hugsanlegan þjóðsöng Íslendinga.
Ingólfur hætti í poppinu um það leiti sem litli bróðir hans var að fara í Héraðsskólann að Núpi og gaf honum gítargarminn sinn og kenndi honum öll þrjú gripin sem hann kunni.
Með kunnáttuna að vopni og gítarinn í farteskinu stofnaði Siggi sína fyrstu hljómsveit 15 ára gamall. Þetta var skólahljómsveit sem starfaði á Núpi 1970 – 1972, á sumrin starfaði hann við beitningu á Flateyri og spilaði í partýum um allar trissur, það var trygging fyrir fjörugu partýi ef Siggi var með gítarinn og kvenfólkið sogaðist þar að.
Þegar Siggi var 10 ára lenti hann í því óláni að einn af leikfélögum hans henti í hann steini sem lenti svo illa á honum að mikið mein varð af. Hann var fluttur með sjúkraflugi til Danmerkur þar sem hann gekkst undir aðgerð hjá færustu sérfræðingum þess tíma á norðurlöndunum. Það var einhvern tímann sagt að það væri með fegurðina eins og fjarlægðina, að hún væri í augum þess sem horfði. Eins var með þetta óhapp sem Siggi hefði feginn viljað vera laus við. Púkarnir í plássinu öfunduðu Sigga mjög af því að hafa farið til útlanda og litu á þetta slys sem mikið happ og var fljótlega farið að kalla hann Danskinn og hefur það loðað við hann fram á þennan dag enda hefð fyrir því í þorpinu að hver maður hafi viðurnefni, skírnarnöfnin eru ekki notuð hvunndags.
Eftir að Siggi hleypti heimdraganum og flutti sig um set fór hann að sjálfsögðu til hins hálf danska Stykkishólms. Þar gekk hann til liðs við hljómsveitina Álos sem fyllti öll félagsheimili á Snæfellsnesi og í nærsveitum svo sem á Norðurlandi og Austfjörðum. Álos hét eftir merkri flautu sem þekkt var meðal tónlistarmanna í Grikklandi hinu forna, óhætt er því að fullyrða að tónlist Sigga Björns. standi á nokkuð gömlum merg og hafa margir aðdáendur hans einmitt veitt því eftirtekt á knæpum landsins að iðulega eru einhver gömul lög í bland við nýja efnið.
Eftir veru sína í Stykkishólmi byrjaði Siggi margra ára vertíðarflakk sitt um Ísland þar sem hann stundaði sjómennsku og beitti með sínum fiskilega stíl. Verbúðir á stöðum eins og Patró, Tálknafirði, Sandgerði, Höfn, Akranesi, Garði, Hafnarfirði, Vopnafirði, Bakkafirði og víðar urðu heimili hans á þessum árum og er óhætt að fullyrða að enginn nústarfandi tónlistamaður hafi viðlíka vertíðarreynslu. Íslenskar verbúðir eru musteri drykkju og djamms og oftast var Siggi sá sem hélt fjörinu uppi þrátt fyrir að eiga ekki einusinni gítarræfil á þessum árum. Ávallt var einhver sem var til að leggja til gítar og bús ef Siggi var til í að glamra gömlu lummurnar í partýunum.
Þrátt fyrir allt þetta partýglamur með sukki og kvennafari gleymdist öll hugsun um tónlist og allar alvarlegar pælingar voru löngu sigldar í strand. Að vísu lá leið hans oft til Flateyrar á sumrum þar sem hann spilaði með ýmsum hljómsveitum en þekktust er þó vafalítið hin geðþekka Æfing sem samanstóð af Danna sveitó, Árna strút, Nonna halló og Rápa rafvirkja (Kristján Jóhannesson, Árni Benediktsson, Jón Ingiberg Guðmundsson og Ásbjörn Björgvinsson hvalatemjari)
Það var svo í ársbyrjun 1983 að drengurinn sneri við blaðinu og gaf sukkið og allt svínarí verbúðanna upp á bátinn. Hann fór heim til Flateyrar til að ná áttum og gerðist þar togarasjómaður. Pilturinn helgaði sig algjörlega þorpslífinu og föndraði við að festa það á myndbönd en árið 1985 varð vendipunktur á ferli hans. Þá kom í heimsókn mikill vinur hans, Pétur Blöndal Gíslason sem var á hljómleikaferðalagi með sjálfan kónginn, Bubba Morthens. Sveitapilturinn fékk að fylgjast með kónginum á nokkrum tónleikum og það fæddist hugmynd. Gerðu þetta, þú getur þetta sagði Bubbi Morthens
Siggi ákvað að reyna sig með gítarinn og Bubbi hjálpaði honum af stað með hugmyndina, að troða upp með kassagítar og skemmta fólki. En hvar átti að byrja. Guðbjartur Jónsson æskuvinur Sigga gat ekki séð að þetta væri neitt til að setja fyrir sig heldur setti á fót pöpp á Flateyri og Siggi skemmti þar. Allar götur síðan hefur Vagninn á Flateyri verið einhver þekktasta og kraftmesta krá landsbyggðarinnar. Það gefur auga ljós að þetta er krá er langt á undan sinni framtíð. Vegur Sigga sem trúbadors óx hröðum skrefum og loks kom að því að hann hitaði upp fyrir Bubba sjálfan á tónleikum á Borginni og eftir það lá leiðin inná pöbba höfuðborgarinnar. 1998 hætti þessi spilandi sjóari á togaranum og hefur tónlistin verið hans starf síðan. Það voru margir til að styðja Sigga í .þessu og þar var fremstur Petur Gisla, sem óþreytandi var á að segja honum að það væri ekkert mál að sitja frammi fyrir fullum sal af fólki og spila á gítar, þó er ekki vitað til þess að jarlinn kunni eitt einasta gítargrip og hvað þá að hann haldi laglínu. En þetta hreif.
Árið eftir spilaði Danskurinn á heimavelli þegar hann fékk djopp í Kaupmannahöfn og upphófst með því nýtt vertíðarævintýri og nú var gjörvöll heimsbyggðin undir. Þetta ár spilaði hann meðal annars í Noregi, Danmörku, Ástralíu og Nýja Sjálandi. Frá þessum tíma hefur hann troðið upp í öllum heimsálfum nema Suðurskautslandinu en þar er 90% af öllum ís sem til er í veröldinni og því ekkert pláss fyrir listamenn. Sumarið 1990 fékk þessi heimshornaflakkari óvænt starf sem sýningargripur á Borgundarhólmi og þar hefur hann verið öll sumur síðan og lengst af spilað á sama pöppnum og þjónar þar sem segull á ferðafólk. Nú er svo komið að mikill fjöldi fólks skipuleggur sumarleyfi sín eftir því hvenær hann er að spila á þessari merku sögueyju.
Siggi hefur nú fasta búsetu í Berlín og sinnir starfi sínu þaðan, flakkar um fjölmörg lönd og yfir höfin sjö og flytur fólki alla mögulega tónlist og ómögulega í bland. Þar sem Siggi mætir og lemur slaggígjuna og þenur munnhörpuna verður engin svikin af stemmingunni sem hann framkallar öllum betur.
Á þessum skrykkjótta og skrýtna ferli hefur Siggi gefið út fjölda geisladiska ýmist einn eða með öðrum. Hátindur útgáfunnar er að sjálfsögðu viðhafnardiskur með hljómsveitinni Æfingu frá Flateyri, á diskinum er stiklað á stóru um fyrstu 45 ár bandsins. Siggi spilaði fyrst með Æfingu á Páskaballi 1970. Síðan eru liðin mörg ár.
Ef einhverjum er nóg boðið við þennan lestur, er það bara gott á hann. Sá vægir sem veit ekki meira.
Guðmundur Jón Sigurðsson
Hveravöllum