A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
13.08.2016 - 07:17 | Morgunblaðið,Vestfirska forlagið

2,5 milljarðar í námsstyrki - 12,1 milljarður greiddur í dagpeninga

• 38.558 einstaklingar fengu greidda 10,6 milljarða í ökutækjastyrk í fyrra • 12,1 milljarður greiddur í dagpeninga

Launamenn fá greidda ýmsa styrki sem færa þarf inn á skattframtöl. Ef kostnaður er færður á móti þarf launamaðurinn ekki að greiða skatt af upphæðinni. Páll Kolbeins, hagfræðingur hjá embætti Ríkisskattstjóra, fer yfir álagningu einstaklinga árið 2016 í nýútkominni Tíund, blaði embættisins.

Fram kemur í grein Páls að árið 2015 fengu 25.468 manns rúma 2,5 milljarða í styrki vegna náms, rannsókna og vísindastarfa. Hér er um að ræða ýmiskonar endurmenntunar- og starfsmenntunarstyrki sem voru nú 150 milljónum hærri en árið 2014. Á móti styrkjunum var dreginn frá kostnaður upp á tæpa 1,6 milljarða þannig að 955 milljónir voru skattlagðar, sem var um 47 milljónum meira en fyrir ári.

 

Styrkjum fjölgar ört

Þessir styrkir hafa aukist nokkuð á undanförnum árum. Árið 2010 fengu 16.414 manns rúma 1,6 milljarða í styrki til náms, rannsókna- og vísindastarfa en þá höfðu slíkir styrkir minnkað nokkuð í kjölfar hrunsins. Síðan þá hafa styrkirnir aukist um 57,7%. Styrkir að teknu tilliti til frádráttar sem má færa á móti þeim hafa hækkað um 64,7% frá árinu 2010.

Ökutækjastyrkur er greiðsla frá vinnuveitanda til starfsmanna sem nota sína eigin bifreið í þágu vinnuveitandans. Hér er ýmist um að ræða fasta greiðslu eða greiðslu fyrir hvern ekinn kílómetra samkvæmt akstursbók eða akstursskýrslu. Starfsmenn mega draga kostnað frá ökutækjastyrk ef bifreið launþega hefur sannanlega verið notuð í þágu vinnuveitanda. Ferðir til og frá vinnu teljast hins vegar ekki til slíkra nota. Ef kostnaðurinn er lægri en styrkurinn er mismunurinn skattlagður.

 

Lægri greiðslur

Vinnuveitendur greiddu 10,6 milljarða í ökutækjastyrk árið 2015 sem var 97 milljónum minna en árið áður. Frá ökutækjastyrk voru dregnir rúmir 7,4 milljarðar, sem var 113 milljónum meira en árið áður. Skattskyldur ökutækjastyrkur minnkaði því um 209 milljónir.

Alls töldu 38.558 einstaklingar fram ökutækjastyrk, sem var 743 fleiri en í fyrra en 33.532 drógu frá kostnað á móti styrknum sem var 1.185 fleiri en á framtali í fyrra.

Vinnuveitendur geta ýmist greitt kostnað af ferðum starfsmanna gegn framvísun reiknings eða greitt þeim dagpeninga til að standa straum af ferðakostnaði á vegum vinnuveitanda. Dagpeningar hafa aukist nokkuð á undanförnum árum allt frá árinu 2009 en árið 2014 minnkuðu þeir lítillega.

Þeir jukust aftur árið 2015 en þá greiddu vinnuveitendur launamönnum 12,1 milljarð í dagpeninga sem var einum milljarði meira en árið áður. Dagpeningar jukust um 8,7% á milli ára og nú, samkvæmt framtölum 2016, fengu 26.346 framteljendur greidda dagpeninga, þ.e. 788 fleiri en fyrir ári.

 

Kostnaður færður á móti

Á móti dagpeningum má færa ferða- og dvalarkostnað sem launþegi hefur sannanlega greitt vegna ferða á vegum launagreiðanda. Frádráttur er færður á móti bróðurparti greiddra dagpeninga og því er aðeins hluti dagpeninganna skattlagður sem hverjar aðrar launatekjur, segir Páll. Á framtali 2016 færðu 26.227 framteljendur samtals rúma 11,8 milljarða í frádrátt á móti dagpeningum og því voru 303 milljónir skattlagðar sem laun sem var svipað og fyrir ári.

Margs konar styrkir og bætur eru undanþegnar skatti, s.s. barnabætur, ýmsar greiðslur almannatrygginga, greiðslur úr sjúkrasjóðum, happdrættisvinningar og heilsustyrkir, svo eitthvað sé nefnt.


Morgunblaðið 12. áhúst 2016.

 

 

« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31