24.02.2015 - 16:56 | Fréttablaðið,BIB
24. feb. 1924 - Stytta af Ingólfi gefin landi og þjóð
Styttan af Ingólfi Arnarsyni var afhjúpuð á Arnarhóli í Reykjavík þann 24. febrúar árið 1924 að viðstöddu miklu fjölmenni. Í fréttum frá þeim tíma er reyndar talað um líkneski en ekki styttu eins og nú tíðkast.
Líkneskið var gert af Einari Jónssyni myndhöggvara en hann var ekki við staddur vígslu þess því hann var staddur í útlöndum.
Það var Iðnaðarmannafélagið í Reykjavík sem kostaði gerð listaverksins og gaf það landi og þjóð. Formaður félagsins, Jón Halldórsson trésmíðameistari frá Vöðlum í Önundarfirði, afhenti landsstjórninni verkið við afhjúpun og Sigurður Eggerz forsætisráðherra þakkaði gjöfina.
Fréttablaðið þriðjudagurinn 24. febrúar 2015