A A A
  • 1920 - Jón Þ Sigurðsson
  • 1940 - Edda Arnholtz
  • 1992 - Ólöf Guðbjörg Jónasdóttir
  • 2006 - Jóhann Króknes Torfason
  • 2006 - Sigríður Króknes Torfadóttir
10.07.2016 - 14:51 | Vestfirska forlagið,Blaðið - Vestfirðir

2016 - Ísafjarðarbær 150 ára

Frá Ísafirði. Ljósm.: BIB
Frá Ísafirði. Ljósm.: BIB
« 1 af 11 »
Í sumar verður 150 ára afmæli Ísafjarðarbæjar fagnað með hátíðarhöldum, dagana 14. til 17. júlí.
Það er vel við hæfi að hápunktur hátíðarhaldanna verður þann 16. júlí 2016, því þá eru einmitt 150 ár síðan íbúar sveitarfélagsins kusu sína fyrstu bæjarstjórn. 
 
Við munum þá fagna því að íbúar hafa sjálfir ráðið málum sínum og kosið sér bæjarstjórn í 150 ár. Kaupstaðarréttindin fengust 26. janúar 1866, en bæjarstjórn var kjörin 16. júlí sama ár. Þar með fékk Skutulsfjarðareyri eða „Tanginn“ kaupstaðarréttindi og bæjarstjórn, en fjórum árum áður hafði orðið aðskilnaður Tangans og Eyrarhrepps. Fram til þess náði Eyrarhreppur yfir allan Skutulsfjörð, þar með talið Hnífsdal og Arnardal. Kaupstaðurinn á Tanganum hlaut nafnið Ísafjarðarkaupstaður.
 
Fimm bæjarfulltrúar voru kjörnir árið 1866, komu þeir saman á fundi þann 13. ágúst sama ár og skrifuðu undir sérstök heit væru þeir kaupmenn en bæjarfulltrúaeið ef svo var ekki. Þeir hittust svo aftur á fundi 24. ágúst til að kjósa bæjargjaldkera og varð það fyrsti fundur bæjarstjórnar Ísafjarðar.
 
Í dag er sveitarfélagið heldur umfangsmeira en það þorp sem stóð á Tanganum árið 1866 og kosningaréttur er nú líka almennari en þá var. Árið 1871 hlotnaðist kaupstaðnum land Eyrar við Skutulsfjörð og hefur sveitarfélagið upp frá því stækkað að flatarmáli í ýmsum skrefum – með samningum, landkaupum og eftir því sem íbúar á aðliggjandi svæðum og þorpum hafa bundist samtökum um framtíð sína og tilveru.
 
Kosið var um sameiningu Eyrarhrepps og Ísafjarðarkaupstaðar árið 1917 og var sameiningin samþykkt af bæjarstjórn, hreppsnefnd og í almennri kosningu en strandaði í sýslunefnd Norður-Ísafjarðarsýslu. Þann 3. október 1971 sameinuðust sveitarfélögin svo loksins aftur, þá undir nafni Ísafjarðarkaupstaðar. Frekari sameiningar urðu svo árið 1996, eða fyrir 20 árum, þegar sameinuðust undir nafni Ísafjarðarbæjar sveitarfélögin Flateyrarhreppur, Ísafjarðarkaupstaður, Mosvallahreppur, Mýrahreppur, Suðureyrarhreppur og Þingeyrarhreppur eftir almennar kosningar þar að lútandi.
 
Að vísu var það öðru sinni árið 1866 sem plássið fékk kaupstaðarréttindi, því þegar lýst var yfir afnámi einokunar 18. ágúst 1786 fékk Skutuls- eða Ísafjörður kaupstaðarréttindi ásamt Reykjavík, Grundarfirði, Akureyri, Eskifirði og Vestmannaeyjum.
 
„Hinn 18. ágúst 1786 kunngerði Danakonungur að einokun yrði afnumin á Íslandi frá og með 1. janúar 1788. Tilskipun um sama efni var gefin út 13. júní 1787 og voru þá sett lög um verslun á Íslandi er gilda skyldu frá 1. janúar 1788. Samkvæmt nýju verslunarlögunum voru stofnaðir sex kaupstaðir og var Ísafjörður einn þeirra. Hinn 24. apríl 1787 mældi Jón Arnórsson sýslumaður út lóð hins nýja kaupstaðar á Skutulsfjarðareyri. Náði hún yfir alla eyrina frá Suðurtanga að Prestabugt en takmarkaðist að ofan við línu er hugsaðist dregin 96 álnum fyrir neðan neðsta fjárhús Eyrarklerks. Á kaupstaðarlóðinni var talið að reisa mætti hús fyrir 30-35 fjölskyldur, auk landrýmis undir nauðsynlega vegi og götur.“ (http://2013.skjaladagur.is/upphaf-skipulagsmala-a-isafirdi/)
 
„Árið 1816 missti svo Ísafjörður kaupstaðarréttindi sín. Þess í stað var Grundarfjörður gerður að eina kaupstaðnum á Vesturlandi og Vestfjörðum en Grundarfjörður hafði misst sín réttindi sem slíkur níu árum áður. Ástæða þess að Ísafjörður missti réttindi sín hefur vafalítið verið sú að efnahagslegar forsendur skorti til þess að staðurinn gæti risið undir nafni. Íbúar, árið 1800, voru aðeins nokkrir tugir og árið 1835 voru þeir enn aðeins 37. Þrátt fyrir að kaupstaðarréttindin væru tekin af Ísafirði árið 1816 hafði margt verið reynt til að hvetja almenning, einkum hina betur stæðu, til búsetu á staðnum. Þannig var því heitið í lögunum frá 1787 að íbúar skyldu fá ókeypis borgarabréf til atvinnureksturs, ókeypis byggingarlóð ásamt byggingarstyrk og undanþágu frá opinberum skatti í 20 ár. Ísafjörður fékk svo ekki aftur kaupstaðarréttindi fyrr en 1866 en 26. janúar það ár var gefin út tilskipun þar að lútandi. Þá voru íbúar orðnir rúmlega 200 og útgerð hafði aukist gífurlega. Þilskipin voru, er hér var komið sögu, orðin mörg á Vestfjörðum og naut Ísafjörður, sem eini kaupstaður kjálkans, góðs af þeirri þróun. Síðan þá hefur staðurinn vaxið og nú er hann óumdeilanlega miðstöð Vestfjarða.“ (DV, 29.07.1982)
 
Að fengnum kaupstaðarréttindum árið 1866 hélt íbúum svo stöðugt áfram að fjölga. Árið 1922 var svo komið að íbúar voru orðnir 2020. Bæjarstjórnin greip þá til þess ráðs að auglýsa í landsblöðum auglýsingu þar sem utanhéraðsmönnum var ráðið frá því að flytjast til bæjarins. Það kom þó ekki í veg fyrir að íbúum héldi áfram að fjölga og náði sú fjölgun eins konar hápunkti árið 1945 þegar íbúar urðu 2919, en fækkaði eilítið upp frá því. Meiri fjöldi varð reyndar miklu síðar með togaravæðingunni og sameiningum sveitarfélaga.
 
Nafnið Ísafjörður átti forðum við um allt Ísafjarðardjúpið en festist síðan við eyrina í Skutulsfirði þegar útvegur og verslun upphófst þar. Innst í Ísafjarðardjúpi er hins vegar fjörður sem enn heldur fornu nafni Ísafjarðardjúps, Ísafjörður, og veldur þetta gjarnan nokkrum heilabrotum hjá erlendu ferðafólki. Á 19. öldinni voru aftur á móti iðulega kallaðir Ísfirðingar allir þeir sem bjuggu í Ísafjarðarsýslu, þannig var Jón Sigurðsson frá Hrafnseyri þingmaður Ísfirðinga.
 
Árið 1966 voru mikil hátíðarhöld á Ísafirði vegna 100 ára afmælis kaupstaðarins. Gefin var út bók og vegleg dagskrá hátíðarhaldanna. Haldinn var eftirminnilegur dansleikur við Landsbankann og verður sá gjörningur nú endurtekinn okkur öllum til skemmtunar. Sérstök hátíðarnefnd hefur verið að störfum frá því í september í tengslum við afmælishátíðina. Gerum við ráð fyrir að fjölbreytt dagskrá leyfi öllum að njóta sín á afmælinu. Dagskráin teygir sig nokkuð um sveitarfélagið þó svo að megin hátíðarhöldin verði í Skutulsfirði.
 
Íbúar sveitarfélagsins allir eru að sjálfsögðu afmælisbörnin og eiga að skemmta sér eins og þeir eigi heiminn. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, mun heiðra okkur með nærveru sinni og þá er öllum fyrrverandi bæjastjórum Ísafjarðarbæjar sérstaklega boðið til hátíðarhaldanna. Vinabær okkar Kaufering frá nágrenni München í Bæjaralandi, mun einnig heimsækja okkur á afmælinu og taka þátt í skemmtilegum viðburðum dagana 11.-15. júlí.
 
Í dagskrárkverinu sem gefið var út árið 1966 má finna þessi orð:
 
Það er bjart yfir bænum okkar á þessu afmælissumri. Mikil gróska ríkir í atvinnulífinu og með fólkinu býr framfarahugur.
 
Ég finn það á íbúum og atvinnulífi að þessi orð eiga nú loksins við aftur eftir langt hlé. Eftir þrjátíu ára Þorra, sem við höfum mátt þreyja, er nú allt að lifna við. Sá kraftur sem jafnan hefur verið í íbúunum getur nú fundið sér farveg í sjávarútvegi, fiskeldi, ferðaþjónustu og tengdum iðnaði. Menning, listir og íþróttir verða okkar hjartsláttur sem fyrr og hjálpa okkur að mála bæinn rauðan, grænan, bláan og gulan. Sameinuð stöndum við og sundruð við föllum.
 
Það er von mín að í aðdragandanum, nú eins og árið 1966, taki íbúar höndum saman og snyrti umhverfi sitt eins og frekast er unnt, með málningu, garðáhöldum eða hverju sem hentar. Gjarnan má rétta nágrönnum og sveitarfélaginu hjálparhönd eftir því sem sem tök eru á – við eigum jú öll sveitarfélagið okkar saman.

Blaðið Vestfirðir 2. júlí 2016.
 
 
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31