190 ár frá fæðingu Dýrfirðingsins Torfa Halldórssonar - 14. febrúar 1823
Torfi Halldórsson sem oft er nefndur faðir Flateyrar fæddist í Arnarnesi við Dýrafjörð hinn 14. febrúar 1823 og ólst þar upp. Foreldrar hans voru Halldór Torfason, bóndi í Arnarnesi, og k.h., Svanfríður Jónsdóttir húsfreyja. Torfi, afi Torfa var sonur Mála-Snæbjarnar.
Eiginkona Torfa var María Júlíana Össurardóttir úr Súgandafirði. Meðal barna þeirra voru Guðrún, húsfreyja í Hólmum, móðir Maríu Jóhannsdóttur, móður Einars Odds Kristjánssonar alþingismanns. Sonur Torfa og Maríu var Ásgeir, faðir Haraldar sem var forstjóri Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, Ragnars læknis og Önundar, fyrrv. forstjóra OLÍS, föður Ragnars, viðskiptafræðings og fyrrv. bankastjóra.
Torfi fór ungur til sjós og var orðinn skipstjóri á þilskipinu Boga og meðeigandi Magnúsar Einarssonar á Hvilft fyrir þrítugt. Hann sigldi til Danmerkur árið 1851 og nam skipstjórnarfræði í Flensborg. Vorið eftir sigldi hann heim á eigin skútu, Lovísu, og settist að á Ísafirði.
Ört vaxandi þilskipaútgerð upp úr miðri 19. öldinni, gat nú sótt mun dýpra en íslenskir sjómenn höfðu gert á opnum bátum um aldaraðir. Menntaðir skipstjórnarmenn urðu því bráðnauðsynlegir við þessar nýju aðstæður.
Að undirlagi annars ungs skipstjóra og athafnamanns, Ásgeirs Ásgeirssonar, og ýmissa þilskipaeigenda, var Torfi fenginn til að veita forstöðu sjómannaskóla haustið 1852. Skólinn var starfræktur á Ísafirði 1852-57 var fyrsti sjómannaskólinn á landinu og fyrsti starfsskóli landsins.
Torfi flutti til Flateyrar 1857, festi kaup á Flateyrareignum ári síðar, stundaði síðan útgerð, landbúskap og verslun á Flateyri um langt árabil, lengst af í samstarfi við Hjálmar Jónsson kaupmann. Eftir að Torfi flutti til Flateyrar tók hann til sín unga pilta á veturna og kenndi þeim skipstjórnarfræði.
Torfi Halldórsson lést 23. september 1906.
Morgunblaðið fimmtudagurinn 14. febrúar 2013.