A A A
  • 1954 - Fríður Jónsdóttir
  • 1957 - Sigurður Rúnar Jónsson
17.06.2016 - 07:12 | Vestfirska forlagið,bb.is

17. júní hátíðarhöld á Vestfjörðum

Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ljósm.: BIB
Hrafnseyri við Arnarfjörð. Ljósm.: BIB
« 1 af 6 »
Í dag fagna landsmenn þjóðhátíðardegi okkar Íslendinga, 17. júní.

Í Ísafjarðarbæ verður hátíðardagskrá bæði á Hrafnseyri og á Ísafirði og mikið um dýrðir.

Á Hrafnseyri hefst dagskráin með hátíðarguðsþjónustu klukkan 13 og í kjölfarið verður boðið upp á kaffiveitingar og hátíðarræðu, sem að þessu sinni er flutt af Sigurði Bessasyni 2. varaforseti ASÍ. Þar verður einnig að finna tónlistaratriði og Háskólahátíð sem áður hefur verið fjallað um ásamt því sem bæjarlistarmaður Ísafjarðarbæjar verður útnefndur. 


Á Ísafirði leggur skrúðganga af stað klukkan 13:45 frá Silfurtorgi, þaðan sem gengið verður upp á Eyrartún þar sem hátíðardagskrá hefst klukkan 14, með hátíðarræðu, tónlistaratriðum og ræðu fjallkonunnar. Klukkan 14:30 tekur barnadagskrá við þar sem finna má hoppukastala, andlitsmálun, nammiregn, þrautabraut, ratleik, kassabílarallý auk þess sem börnum er boðið að fara á hestbak. Á Hótel Ísafirði verður ekta kökuhlaðborg til styrkar Skíðafélagi Ísfirðinga á milli 14 og 17. 

Á Suðureyri verður víðavangshlaup Stefnis hlaupið klukkan 11. 

Í Hnífsdal verður styrktarbingó kvenfélagsins Hvatar í félagsheimilinu klukkan 17. 

Í Bolungarvík hefst þjóðhátíðardagskrá klukkan 10 með víðavangshlaupi frá Ráðhúsinu. Fleytukeppni verður í Hólsá klukkan 11, þar sem keppendur mæta með fleytur sínar. Fleytan skal vera heimasmíðuð, hver keppandi má aðeins hafa eina fleytu og hún skal að lágmarki vera 20 cm löng. 
Klukkan 14 hefst skrúðganga frá Ráðhúsinu að Félagsheimilinu þar sem hátíðardagskrá hefst með fjallkonu, söng, hátíðarræðu og atriði úr Kardimommubænum og lýkur formlegri dagskrá með vöfflukaffi. Hljómsveitin Nátttröll verður með útgáfutónleika á Einarshúsi kl. 16 og leikur síðan fyrir dansi í Félagsheimili Bolungarvíkur um kvöldið. 

17.júní. hátíðarhöld Vesturbyggðar fara fram á Bíldudal og hefjast með skrúðgöngu frá blokkinni klukkan 14, þaðan sem gengið verður að Baldurshaga þar sem hátíðardagskrá hefst klukkan 14:30 með hátíðarræðu, ávarpi fjallkonu helgistund og söng karlakórsins Vestra. Í kjölfarið verður svo skemmtun fyrir börnin og happdrætti með glæsilegum vinningum. Á staðnum verður hægt að kaupa pylsur, gos, vöfflur og kaffi. 
Fjölskyldufagnaður í tilefni þjóðhátíðardagsins verður í Bjarkalundi á vegum Lionsdeildarinnar í Reykhólahreppi og Hótel Bjarkalundar. Dagskráin hefst kl. 14 og verður með hefðbundnu sniði; skrúðganga, ávarp fjallkonu, leikir og gaman á tjaldsvæðinu þar sem karamellum verður kastað úr flugvél og síðan kaffihlaðborð að hætti Bjarkalundar. 

Í Strandabyggð verða hátíðarhöld á Hólmavík þar sem börnin geta tekið forskot á sæluna með andlitsmálningu og gasblöðrum í íþróttahúsinu frá 11 til 13, en þá hefst skrúðgangan þaðan að Kaffi Galdri, þar sem Fjallkonan mætir og ávarpar hópinn. Hoppukastalar og hátíðarsælgæti verður þar fyrir börnin og hægt verður að fá sér kökur á Galdri. Einnig verður glæsilegt kaffihlaðborð í Sauðfjársetrinu sem hefst klukkan 14. 
Veðurspá fyrir daginn kveður á um hið ágætasta veður á Vestfjörðum, hita á bilinu 8-12 stigum og þurru að mestu. Það er þó vert að minna á að ekki þarf vind til að senda gasblöðrur veg allrar veraldar, við mikla sorg hinna ungu eigenda. 

Gleðilega þjóðhátíð! 
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31