12. mars 2016 - Sumardrengurinn í Hvammi í Dýrafirði er 70 ára
Sérfræðingur á sviði verslunar og þjónustu
Sigurður Jónsson fæddist í Keflavík 12. mars 1946 og ólst þar upp. Hann var auk þess mörg sumur í sveit í Hvammi í Dýrafirði hjá frændfólki sínu.
Sigurður var í Barnaskóla Keflavíkur og Gagnfræðaskóla Keflavíkur, stundaði nám við Samvinnuskólann að Bifröst í tvö ár og var í 18 mánaða starfsnámi á vegum skólans.
Sigurður var tvö ár bókari hjá Kaupfélagi Skaftfellinga í Vík, starfaði síðan hjá Skipulagsdeild SÍS í Reykjavík, stundaði bók- og starfsnám í Svíþjóð á vegum samvinnuhreyfingarinnar með áherslu á skipulag og rekstur smásöluverslana.
Sigurður var forstöðumaður verslunarráðgjafar SÍS 1972-75, sérfræðingur í smásöluverslun hjá dönsku þróunarstofnuninni Danida í Dar es Salaam í Tansaníu 1975-77, í Nairóbí í Kenía 1977-78 og í Eldoret og Nyeri í Kenía 1980-83. Hann var kaupfélagsstjóri Kaupfélags Ísfirðinga 1978-80, forstöðumaður markaðsráðs samvinnufélaganna 1983-86, markaðsstjóri verslunardeildar SÍS 1986-89, markaðsstjóri Samkorts 1990-91 og markaðsfulltrúi Eurocard á Íslandi 1991-95.
Sigurður var framkvæmdastjóri Kaupmannasamtaka Íslands 1995-99, fyrsti framkvæmdastjóri SVÞ – Samtaka verslunar og þjónustu 1999-2008, og framkvæmdastjóri RR-Skila, félags raf- og rafeindatækjainnflytjenda 2008-15.
Sigurður hefur sinnt ráðgjafar- og nefndarstörfum fyrir viðskiptaráðuneytið, flutt fyrirlestra í Samvinnuskólanum og Háskólanum í Bifröst og annaðist stundakennslu í Verzlunarskóla Íslands.
Sigurður var stjórnarmaður og síðar stjórnarformaður í Norrænni samstarfsnefnd um verslunarmenntun á Íslandi, sat í stjórn og var stjórnarformaður í Starfsfræðslusjóði verslunar- og skrifstofufólks, sat um árabil í stjórn og einnig stjórnarformaður strikamerkjasamtakanna EAN á Íslandi og síðar GS1 Iceland, kom að stofnun Úrvinnslusjóðs og sat þar í stjórn frá upphafi 2003-2008, í stjórn Evrópusamtaka verslunarinnar, Eurocommerce, í Brussel 1997-2008 og stýrði aðild SVÞ að alþjóðlegu samstarfi 1999-2008.
Áhugamál Sigurðar hafa verið ýmis gegnum tíðina en snúast þó flest um útiveru og ferðalög: „Hreyfing og útvera voru nú ekki almennar tómstundir fullorðinna fyrir hálfri öld eða svo. Ég var meðal stofnenda Golfklúbbs Suðurnesja 1963 og á Ísafjarðarárunum sat ég í stjórn og var síðan formaður Golfklúbbs Ísafjarðar. Ég stofnaði gönguklúbb árið 1985 sem hefur farið á hverju sumri í vikulanga göngu víða um landið fram undir þetta. Ég sat í stjórn Kjölbátasambands Íslands í nokkur ár, átti hlut í skútu í Dar es Salaam og lærði þar að sigla, en lauk síðar prófum á Íslandi, stundaði skútusiglingar á leiguskútum í Miðjarðarhafi nokkur sumur en átti svo hlut í stórri skútu á Majorku í nokkur ár. Árið 2007 eignaðist ég svo, ásamt fleirum, hús á Skáni í Svíþjóð og seldi þá skömmu síðar hlut minn í skútunni. Fjölskyldan hefur síðan notið þess að dvelja á Skáni í fríum sínum. Ég hef verið virkur í Sjóstangveiðifélagi Reykjavíkur og tekið þátt í veiðimótum.“
Sigurður hefur hlotið ýmsar viðurkenningar vegna atvinnu sinnar, s.s. gullmerki KÍ og norskra kaupmanna, en einnig fyrir félagsstörf.
Fjölskylda
Eiginkona Sigurðar er Sigurlína Guðnadóttir, f. 19.7. 1948, ferðaráðgjafi. Foreldrar hennar voru Guðni Helgason, f. 27.1. 1920, d. 17.9. 2000, rafvirkjameistari í Reykjavík,og k.h., Ingibjörg Stefánsdóttir, f. 20.8. 1923, d. 10.5. 1998, húsfreyja.Fyrri kona Sigurðar er Anna Skúladóttir, f. 30.10. 1948, leikskólastjóri.
Dætur Sigurðar og Önnu eru Eirný Ósk Sigurðardóttir, f. 3.5. 1973, framkvæmdastjóri í Reykjavík, og Áslaug Dröfn Sigurðardóttir, f. 12.10. 1979, gervahönnuður í Reykjavík en maki hennar er Kolbrún Ósk Skaftadóttir vörustjóri og sonur hennar Felix Skafti Liljuson, f. 2007.
Albróðir Sigurðar var Marinó Þórður Jónsson, f. 24.10. 1943, d. 25.11. 2014, flugmaður í Kópavogi.
Hálfbróðir Sigurðar, samfeðra, var Elíeser Jónsson, f. 20.4. 1926, d. 24.11. 2013, flugmaður og framkvæmdastjóri í Reykjavík.
Hálfbróðir Sigurðar, sammæðra: Hjalti Hjaltason, f. 29.12. 1932, d. 11.8. 2002, vélstjóri í Færeyjum.
Foreldrar Sigurðar voru Jón Valgeir Elíesersson, f. 8.5. 1895, d. 17.11. 1956, bóndi og síðar verkamaður í Keflavík, og s.k.h., Ragnheiður Jónsdóttir, f. 9.9. 1909, d. 19.3. 2000, verslunarmaður í Keflavík.
Morgunblaðið laugardagurinn 12. mars 2016.