111 ára - Íþróttafélagið Höfrungur á Þingeyri, ekki bara íþróttafélag
Sigmundur Fríðar Þórðarson húsasmíðameistari, formaður Höfrungs skrifar.
Höfrungur á Þingeyri er eitt elsta starfandi íþróttafélag landsins.
Félagið var formlega stofnað 20. desember árið 1904, en varð þó til ári áður. Þá voru menn svo ötulir í sportinu að þeir gleymdu að rita fundargerðina og því var formleg stofnun félagsins ári síðar.
Íþróttastarf á Þingeyri var þó hafið löngu fyrr eða árið 1885 er danskur beykir, Andrés Böken, stóð fyrir skipulögðum íþróttaæfingum á Þingeyri.
Dýrfirðingar hafa líka ávallt verið í mjög góðu formi og ber að þakka það öflugu íþróttastarfi í áraraðir.
Höfrungur er þó ekki bara í sportinu því félagið er stór þáttur í félagslífinu í Dýrafirði. Félagið stendur m.a. fyrir árlegri söngvarakeppni á fæðingardegi frægasta sonar Vestfjarða, Jóns Sigurðssonar. Hefur þetta verið gert í yfir tuttugu skipti. Þetta er því langt á undan svonefndu „idoli.“
Félagið heldur árlegt jólaball sem er með þeim flottari á Vestfjörðum og er ávallt vel sótt.
Fljótlega eftir stofnun Höfrungs var haldin sérstök þrettándagleði og hafa jólin verið rotuð, eins og Vestfirðingar sögðu hér áður og fyrrum á síðasta degi jóla, flesta daga síðan.
Ekki skal gleyma því að Höfrungur hefur sett upp nokkur leikrit og hefur nú stofnað sérstaka Leikdeild Höfrungs. Leikdeildin hefur sett upp þrjú leikverk þrjú ár í röð, sem öll eiga það sameiginlegt að byggjast á sagnaarfi Dýrafjarðar. Fyrsta uppfærslan var Dragedukken sem segir af Andreas Steenbach kaupmanni og ári síðar var sett á svið leikritið Eikin ættar minnar, sem fjallaði um klerkinn og skáldið Ólaf Jónsson á Söndum. Nýjasta sýning Leikdeildar Höfrungs er um margt stórmerkileg og gott ef þetta er ekki í fyrsta sinn sem sett er á leiksvið leikrit sem þetta. Nýja verkið fjallar nefnilega um sögu íþróttafélagsins Höfrungs. Höfundur og leikstjóri allra þessara verka er Elfar Logi Hannesson, leikari frá Bíldudal.
Félagið hefur staðið fyrir skógrækt til margra ára í anda UMFÍ.
Ekki má gleyma sportinu því að íþróttastarf Höfrungs er fjölbreytt og vel sótt. Það má segja að allir bæjarbúar geti fundið eitthvað við sitt hæfi því að félagið hefur staðið fyrir æfingum í hinum ýmsu
boltagreinum, s.s. fótbolta, handbolta, körfubolta, blaki, strandblaki og botsía. Frjálsíþróttir hafa verið stundaðar til margra ára, íþróttir fyrir alla, svo sem ganga, stafganga, víðavangshlaup, óbyggðahlaup, íþrótta- og leikjanámskeið, íþróttaskóli og svona mætti lengi telja. Allt ræðst þetta þó af því hverjir ráðast til starfa það og það árið og hverju viðkomandi hafa mestan áhuga á. Með tilkomu Íþróttamiðstöðvarinnar á Þingeyri, með bæði sundlaug og íþróttahúsi sem vígð var formlega 1997, gjörbreyttist allt félagsstarf og hreinlega varð bylting til batnaðar. Hægt var að setja upp fasta vetrardagskrá og segja má að hér sé komin hin eina sanna félagsmiðstöð allra Dýrfirðinga og fleiri. Það er því margt hægt að nefna sem ekki verður tíundað hér, en allir sem eru á ferð gætu nýtt sér, bæði gestir og heimamenn, jafnt sumar sem vetur. Þó að langt sé um liðið síðan Höfrungur sleit sínum barnsskóm þá er félagið síungt og í raun er ævintýri
Höfrungs rétt að byrja og ef allt gengur eftir mun það verða endalaust.
Allir velkomnir til Þingeyrar.
ÁFRAM HÖFRUNGUR.