A A A
  • 1958 - Helga Sigurrós Bergsdóttir
  • 1976 - Gunnar Ragnar Hjartarson
  • 1993 - Karín Mist Kjerúlf
12.03.2016 - 20:15 | skutull.is,Vestfirska forlagið

100 ár frá stofnun Alþýðusambands Íslands og Alþýðuflokksins

12. mars 1916 komu tuttugu fulltrúar frá sjö verkalýðsfélögum í Reykjavík og Hafnarfirði saman í Bárubúð í Reykjavík til að stofna samband félaganna sem um leið var stjórnmálaflokkur jafnaðarmanna, Alþýðuflokkurinn. Félögin sem stóðu að stofnun sambandsins voru Verkamannafélagið Dagsbrún, Verkakvennafélagið Framsókn, Hásetafélag Reykjavíkur, Hið íslenska prentarafélag, Bókbindarafélag Íslands, Verkamannafélagð Hlíf og Hásetafélag Hafnarfjarðar. Meðlimir félaganna voru um 1500 á þessum tíma. Árið 1917 gekk Verkalýðsfélagið Baldur á Ísafirði í sambandið.

Árið 1940 var lögum ASÍ breytt og Alþýðuflokkurinn skilinn frá sambandinu til að mynda breiða samstöðu vinnandi manna hvar í flokki sem þeir stæðu. Öll alþýðuflokksfélög gengu úr ASÍ, sem eftir það varð eingöngu verkalýðssamband. Alþýðusamband Íslands er stærsta fjöldahreyfing launafólks á landinu. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um réttindi þeirra. Félagsmenn í ASÍ eru um hundrað þúsund í 5 landssamböndum og 51 aðildarfélögum um land allt. Félagsmenn í aðildarfélögum ASÍ eru starfandi á flestum sviðum samfélagsins, á almennum vinnumarkaði og hjá ríki og sveitarfélögum. Alþýðusambandið berst fyrir bættum kjörum félagsmanna sinna og stendur vörð um hagsmuni þeirra og réttindi.

Fyrstu stjórn Alþýðusambandsins skipuðu Ottó N. Þorláksson forseti, Ólafur Friðriksson varaforseti og Jón Baldvinsson ritari. Haustið 1916 var Jón Baldvinsson prentari kosinn forseti ASÍ og um leið formaður Alþýðuflokksins. Gegndi hann því embætti allt til dauðadags árið 1938. Jón Baldvinsson var Vestirðingur, fæddur og uppalinn á Strandseljum í Ögurhreppi í Ísafjarðardjúpi. Hann komst ungur í prentnám við prentsmiðju Þjóðviljans unga sem Skúli Thoroddsen alþingismaður gaf út á Ísafirði. Þegar Skúli flutti búferlum til Bessastaða og síðar Reykjavíkur með fjölskyldu, blað og prentsmiðju fylgdi Jón Baldvinsson með. Jón var kosinn á Alþingi árið 1920 og var eini þingmaður Alþýðuflokksins á þeim tíma. Hann var framkvæmdastjóri Alþýðubrauðgerðarinnar í Reykjavík frá árinu 1918.

Fjórir forsetar Alþýðusambands Íslands hafa verið Vestfirðingar. Auk Jóns Baldvinssonar eru það Helgi Hannesson frá Dynjanda í Jökulfjörðum, síðar kennari á Ísafirði og formaður Verkamannafélagsins Baldurs á Ísafirði. Hann var forseti ASÍ 1948-1954. Þá tók við Hannibal Valdimarsson kennari, formaður Baldurs og forseti Alþýðusambands Vestfjarða. Hann var forseti ASÍ lengst allra fyrir utan Jón Baldvinsson, frá 1954-1971. Loks má nefna að Benedikt Davíðsson trésmiður varð forseti ASÍ árið 1988, en hann var fæddur og uppalinn á Patreksfirði.
« Janúar »
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31