-Vestfirskum sjómönnum í blíðu og stríðu- fagnað víða
Út er komin nýlega hjá Vestfirska forlaginu bókin -Vestfirskir sjómenn í blíðu og stríðu- alþýðusögur í léttum dúr að vestan. Hallgrímur Sveinsson og Bjarni G. Einarsson tóku saman.
Bókin hefur vakið mikla ánægju þeirra sem lesið hafa og er Böðvar Gíslason frá Flateyri einn þeirra en hann býr í Þorlákshöfn. Hann er mikill viskubrunnur; skipa, báta, sjómanna og alls þess er að sjávraútvegi snýr. Hann fagnar mjög þessari útgáfu Vestfirska forlagsins. Böðvar á ræturnar í föðurætt að Höfða í Dýrafirði eins og margir Vestfirðingar vita.
Í kynningu bókarinnar segir:
Vestfirskir sjómenn eru karlar í krapinu og kalla ekki allt ömmu sína. Það má ekki minna vera en þeim sé helguð ein bók í heiðursskyni þar sem eingöngu er slegið á léttari strengi.
„Gamanmál eru nauðsynleg, en að baki þeim býr alvara lífs og dauða. Það vitum við sjómennirnir ef til vill betur en aðrir.“ Svo mælti hinn landsþekkti skipherra, Eiríkur Kristófersson, sem var Vestfirðingur í húð og hár. Jón Sigurðsson kallaði gömlu þjóðsögurnar alþýðusögur. Í bók þessari eru eingöngu vestfirskar alþýðusögur í léttum dúr sem allar hafa birst áður. Sumar margoft.
Hér eru lögmál sagnfræðinnar ekki höfð að leiðarljósi heldur eingöngu skemmtigildið. Margar af þessum frásögnum eru þó dagsannar. Verður ekki farið nánar út í það. Heimildir látnar lönd og leið. Þeir sem hafa gaman af að hlægja ættu að hafa gagn af þessari bók. Vestfirska forlagið vonar að yfir henni sé hægt að brosa, hlægja og jafnvel skella uppúr ef út í það er farið! Næsta bók í þessum flokki verður helguð vestfirskum stjórnmálamönnum.
Vestfirska forlagið 20 ára.