A A A
26.12.2009 - 17:40 |

18 árg. 2.tbl., okt. 2008

Árshátíð Dýrfirðingafélagsins 18. október

 

Kæru félagar; Vetrarstarf Dýrfirðingafélagsins hefst formlega með árshátíðinni okkar þann 18. október nk. Árshátíðin hefur verið einn af föstum dagskrárliðum félagsins í gegnum árin. Í fyrra svöruðu félagsmenn, vinir og vandamenn, kallinu, fjölmenntu á árshátiðina og gáfu skýr skilaboð um áhuga sinn. Skemmtinefnd félagsins hefur verið að störfum og hefur mikla trú á að Dýrfirðingar hristi af sér efnahagsáhyggjudrungann og skundi í Fóstbræðraheimilið til að eiga þar glaða stund með vinum og ættingjum. Ekki veitir okkur af samveru með góðu og glaðværu fólk á erfiðum tímum. Þar eru auðvitað engir betri en Dýrfirðingar!

 

Eins og áður er það undir ykkur komið, félagsmenn góðir, hvort hægt er að halda árshátið. Við væntum þess að allir taki höndum saman og mæti á árshátiðina. Ennfremur að við hjálpumst að, hringjum í fimm vini og ættingja að vestan, biðjum þá að hringja í aðra fimm og svo koll af kolli.

 

Við erum svo heppin að í félaginu er stór hópur af fólki sem er reiðubúið að starfa fyrir félagið. Skemmtinefndin okkar hefur unnið hratt og vel og skipulagt skemmtun sem ætti að höfða til bæði ungra og aðeins eldri. Að venju mun hinn Dýrfirski glaðværi andi ráða ríkjum og við höfum áfram að leiðarljósi að ,,Maður er manns gaman".

Við hlökkum til að sjá ykkur öll á árshátíðinni!

 

f.h. stjórnar og skemmtinefndar

Bergþóra Valsdóttir

 

Aðalfundurinn 2008


62. aðalfundur Dýrfirðingafélagsins var haldinn 8. maí í safnaðarheimili Fella- og Hólakirkju. Að venju var byrjað á að minnast látinna félaga en síðan tóku við hefðbundin aðalfundarstörf. Kosið var í stjórn, skemmtinefnd og kaffinefnd og eru þær þannig skipaðar starfsárið 2008-2009:

 

Stjórn félagsins:

Bergþóra Valsdóttir, formaður (824-1958, bergtora.vals@gmail.com)

Páll Elíasson, ritari (865-6546, palliel@internet.is)

Margrét Valsdóttir, gjaldkeri (698-2812, mv@islandia.is)

Guðmundur Hermannsson, meðstjórnandi (897-5706)

Jón Gíslason, meðstjórnandi (861-3349)

Ragnheiður Davíðsdóttir, meðstjórnandi (552-6125)

Skoðunarmenn reikninga eru Dýri Guðmundsson og Erla Árnadóttir.

Kaffinefndina skipa Kristján Þórarinn Davíðsson, Nína Þórðardóttir, Þorgerður H. Elíasdóttir, Sólborg Þorláksdóttir, Guðbjörg Bjarnadóttir, Garðar Rafn Kristjánsson, Kristín Lýðsdóttir og Kristinn Valdimarsson.

Skemmtinefndin er skipuð eftirtöldum félögum: Hanna Ástvaldsdóttir, Helgi Ágústsson, Sævar Gunnarsson, Pétur H. Ágústsson, Jónína Pálsdóttir, Guðný Erla Sigurðardóttir og Davíð Davíðsson. Í forföllum þeirra Jónínu og Guðnýjar Erlu hefur Gyða Einarsdóttir starfað með skemmtinefndinni.

Við þökkum fráfarandi nefndarmönnum fyrir vel unnin störf í þágu félagsins, hlökkum til samstarfsins við nýja fulltrúa og bjóðum þá velkomna til starfa. Við hvetjum alla félagsmenn til að koma tillögum, ábendingum og óskum um verkefni, uppákomur, fundi o.fl. á framfæri við stjórnarmenn.

 

Átthagi - sælureitur í Dýrafirði


Rekstur Átthaga, bústaðar Dýrfirðingafélagsins í landi Hvamms í Dýrafirði, hefur gengið vonum framar í sumar. Sómamennirnir Davíð frá Bakka og Bergur frá Felli sáu um að gera allt klárt og opnuðu bústaðinn. Framlag þeirra er ómetanlegt og kunnum við þeim hjartans þakkir fyrir. Við viljum líka þakka Ólafíu Sigurjónsdóttur og starfsfólki Esso skálans fyrir alla þeirra aðstoð. Án slíkra velgjörðarmanna í Dýrafirði væri erfitt að halda úti rekstri Átthaga og erum við þeim öllum afskaplega þakklát.

Átthagi var leigður út í 13 vikur í sumar. Stefnt er að því að útleigan standi undir rekstri og lágmarks viðhaldi. Það er því mjög mikilvægt að bústaðurinn sé vel nýttur og leigutekjurnar skili sér að fullu. Þannig aukum við líkurnar á því að áfram verði hægt að bjóða félagsmönnum dvöl í sælureitnum í Átthaga. Leigutímabilið er yfirleitt frá 1. júní og fram í september, eða eins og veður leyfa.Við hvetjum ykkur til að hafa þetta í huga þegar þið skipuleggið sumarfríið á næsta ári!

Stjórn félagsins metur það þannig að tímabært sé að huga að lítilsháttar breytingum innanhúss í Átthaga. Hér með er auglýst eftir félagsmönnum sem eru reiðubúnir að starfa með stjórninni að undirbúningi og framkvæmd slíkra breytinga. Áhugasamir eru beðnir að hafa samband við Bergþóru í síma 824-1958 eða á netfanginu bergtora.vals@gmail.com

 

Hverjir eru á myndinni?

 

Margir eiga sjálfsagt í fórum sínum gamlar myndir, sumar hverjar af fólki sem ekki er vitað deili á. Við höfum fengið ábendingar um að félagsmenn myndu fagna tækifæri til að hittast og skoða saman myndirnar sínar. Við í stjórn félagsins viljum gjarnan stuðla að því að þetta verði mögulegt.

 

Við gerum það að tillögu okkar að við hefjum leikinn á einfaldan máta og hittumst með gamlar myndir laugardaginn 1. nóvember kl. 10:30 - 12:30 í fundarsal Norræna hússins að Sturlugötu 5, 101 Reykjavík. Hægt er að kaupa kaffi í kaffistofu Norræna hússins.

 

Árshátíð Dýrfirðingafélagsins 18. október í Fóstbræðraheimilinu, Langholtsvegi 109-111, Reykjavík


Húsið opnar kl. 19:00.

Borðhald hefst stundvíslega kl. 20:00

Í ár verður matseðillinn á þessa leið:

Sitrus marineraðir sjávarréttir, reyktur lax með piparrótarsósu,nautacarpaccio með parmesan og ruccola.

Ofnsteiktur svínakambur með sveppasósu

og lambalæri með piparsósu, steikt grænmetisblanda, kartöflugratin, ferskt salat og brauð

Kaffi og konfekt

 

Minni Dýrafjarðar verður flutt að venju, gleði og söngur eins og Dýrfirðingum einum er lagið. Hljómsveitin Hafrót leikur fyrir dansi. Veislustjóri verður Magnús Guðjónsson, fyrrum kaupfélagsstjóri. Miðaverð kr. 5.900,-

Sala aðgöngumiða verður í Fóstbræðraheimilinu laugardaginn 11. okt. kl. 12:00 - 14:00 og fimmtudaginn 16. okt. kl. 18:00 - 20:00. Hægt er að taka frá sæti og borð, fyrstur kemur fyrstur fær ! Þeir sem vilja tryggja sér miða en komast ekki á forsöluna geta haft samband við Hönnu í síma 567-6323.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30