A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
26.07.2015 - 06:46 | Hallgrímur Sveinsson

Þjónandi prestar í Álftamýrarsókn á fyrri hluta 20. aldar

Séra Jón Kr. Ísfeld og frú.
Séra Jón Kr. Ísfeld og frú.
« 1 af 3 »

Viðtal við Sigurjón G. Jónasson bónda á Lokinhömrum

Úr Mannlífi og sögu fyrir vestan 7. hefti
3. hluti

 

     Séra Kristinn Hóseasson

 

     Árið 1946 vígðist séra Kristinn Hóseasson til Hrafnseyrar og var þar þjónandi prestur í eitt ár. Eiginkona hans var Anna Þorsteinsdóttir.

     "Séra Kristinn kom úteftir og messaði, Sigurjón".

     "Já, já og hann kom meira að segja á jólunum og messaði út í dal".

     "Hvernig fór sú messa fram?".

     "Það var svipað og hjá hinum prestunum. Það var byrjað á söng fyrst, svo kom guðspjallið, þá ræðan og loks söngur. Það voru sungnir tveir sálmar fyrir predikun og einn á eftir."

     "Hvar fór messan fram?".

     "Í stofunni á Hrafnabjörgum. Það var alltaf messað þar þegar prestar komu í dalinn þeirra erinda. Það var settur kassi á borð sem áður segir, hvítur dúkur þar ofan á og kveikt á einu til tveimur kertum. Þetta var bara mjög hátíðlegt."

     "Hvernig var ræðulengd háttað hjá séra Kristni?".

     "Ræðurnar voru nú ekkert mjög langar hjá honum. Það gekk nú nokkuð fljótt fyrir sig hjá séra Kristni".

     "Og söngurinn?".

     "Það voru nú fáir söngkraftar þarna útfrá. Það átti að heita ég sem hafði forystuna og svo söng Kristín Sveinbjörnsdóttir, eiginkona Ragnars á Hrafnabjörgum og mamma, Sigríður Andrésdóttir og Halldóra systir hennar. Þetta var nú söngliðið þarna útfrá. Ég hef alltaf haft gaman af söng og hljóðfæraleik. Ef ég hefði verið að alast upp í dag, er ekkert að efast um hvað ég hefði viljað leggja fyrir mig, en kindurnar og búskapurinn urðu yfirsterkari á sínum tíma".

   Eftir að séra Kristinn hætti störfum hér vestra og fluttist að Heydölum eystra, þjónaði séra Ragnar Benediktsson Hrafnseyrarprestakalli í nokkra mánuði árið 1947. Hann messaði einu sinni í Álftamýrarkirkju.

 

Séra Kári Valsson

 

 Árið 1954 tók séra Kári Valsson, tékkneskur maður að ætterni, við þjónustu í Hrafnseyrarprestakalli og þjónaði því til 1961.

   
"Að lokum er í prestaröðinni hjá okkur, Sigurjón, séra Kári Valsson, sem síðastur presta embættaði í Álftamýrarkirkju. Séra Kári var svolítið sérstakur."

     "Já, manni fannst hann nú ekkert prestlegur, fyrst þegar maður sá hann. En það merkilega var hvað hann talaði góða íslensku. Beygingarnar hjá honum voru nokkuð góðar.

     "Og hvernig voru nú ræðurnar hjá honum?".

     "Manni fannst þær nú léttar á milli, sko. Hann messaði alloft á Álftamýri og kom á hátíðum út í dal og messaði þar. Ég man að hann kom einu sinni sem oftar út í dal og messaði snemma sumars. Þá voru komnir krakkar í sveit og einhverjir voru nú fyrir. Þá vildi séra Kári hafa barnamessu og hann fór út að á með börnin og sagðist ætla að láta ána spila undir. Hún var hljóðfærið. Þau voru þar niðri í dæld við ána. Ég veit nú ekkert hvernig ræðan var þar, en krakkarnir voru ósköp ánægðir þegar þau komu frá honum".

 

Mikill göngugarpur og náttúruskoðari

 

     "Hann var mikill göngugarpur, séra Kári."

     "Já, já, hann gekk alla leiðina innanfrá Hrafnseyri þegar hann kom úteftir. Og svo gekk hann á beit í fjörunni, sérstaklega þegar hann kom út á Bjargafjöruna. Þar fór hann í sölin fyrir framan Bjargaána og stakk í vasa sinn og kom með heim að Hrafnabjörgum. Hann var mikill náttúruskoðari."

     "Stoppaði hann yfirleitt eitthvað þegar hann kom úteftir?".

     "Alltaf að vetrinum. Þá gisti hann."

     "En hinir prestarnir?".

     "Þeir gerðu það líka. Þetta eru það langar leiðir og stuttur tími í skammdeginu til ferðalaga í dagsbirtu. Þeir voru yfirleitt ekki komnir fyrr en langt var liðið á dag og messan var ekki fyrr en um kvöldið sama dag og þeir komu."

     "Voru ekki messurnar á Álftamýri alltaf klukkan tvö?".

     "Jú, það var yfirleitt"

     "Séra Kári tónaði eitthvað?".

     "Já, en hann var nú ekki mikill tónari. En við reyndum að syngja eins og ég hef lýst hér að framan, án orgelleiks."

 

  Alltaf betra að hlusta á prestana standandi

 

     "Var séra Kári frekar einfari?".

     "Já, hann var það. Fór sínar eigin götur, að því er mér sýndist. En hann var almennilegheita maður og prúðmenni. Einu sinni kom hann og var þá líklega þreyttur þegar hann kom að innan. Þá sat hann og flutti messuna þannig.

      En næst þegar hann kom, þá var nú Ragnar á Björgum búinn að setja upp trékassann á stofuborðið sem ræðupúlt og hvíta dúkinn yfir og sagði honum að sér fyndist nú alltaf betra að hlusta á prestana standandi. Séra Kári lét sér það að kenningu verða!"

     "Þessar heimaguðsþjónustur, eða skemmri guðsþjónustur hafa verið svolítið sérstakar."

     "Já, þær voru það. En þetta var nú yfirleitt stutt. Ræðurnar hjá séra Kára voru nú yfirleitt frekar stuttar. En við skildum hann mjög vel eins og ég nefndi áður."

     "Hverjir voru sóknarnefndarformenn á þessu tímabili sem við höfum rætt um?".

     "Jóhanna Gísladóttir á Álftamýri var lengi sóknarnefndarformaður og svo tók Þórður Njálsson við. Eftir að hann flutti úr Stapadal tók Ragnar Guðmundsson á Björgum við. Sonur hans, Guðmundur, tók svo við formennskunni af föður sínum minnir mig og vorum við Sigríður systir hans með honum í síðustu sóknarnefndinni sem starfaði í Álftamýrarsókn, en sóknin var formlega sameinuð Hrafnseyrarsókn upp úr 1970."

 

 Síðasta athöfnin í Álftamýrarkirkju

 

     "Hver var síðasta athöfnin í Álftamýrarkirkju?".

     "Það mun hafa verið þegar faðir minn var jarðsunginn 1957. Eftir það voru engar guðsþjónustur í kirkjunni og reyndar hefur ekki verið jarðsett í Álftamýrarkirkjugarði síðan þá"

     "Hvenær var kirkjan svo ofan tekin?".

     "Það mun hafa verið 1967. Séra Sigurbjörn biskup kom og vísiteraði Við fórum inneftir, við Guðmundur Ragnarsson. Karl Sigurbjörnsson, núverandi biskup, var þá með föður sínum sem ritari. Sigurbjörn biskup gaf það út að betra væri að kirkjan væri rifin en hún fyki út í veður og vind, en turninn hafði fokið af kirkjunni nokkru áður. Aðalsteinn á Laugabóli fékk svo leyfi biskups til að rífa kirkjuna og ætlaði að nota úr henni viðina, líklega í fjárhús. Þeir urðu honum því miður að litlum notum. Í ofsaveðri sem gerði í nóvember þá um haustið, sá Aðalsteinn á eftir öllum viðnum sem var í stafla á hlaðinu á Laugabóli, út í buskann."

     "Hvað varð um kirkjugripina?".

     "Sýslumaður og hreppstjóri sóttu þá úteftir og þeim var flestum komið fyrir á Byggðasafninu á Ísafirði. Nokkrir þeirra eru nú til sýnis á Hrafnseyri."

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31