Þáttur úr sögu Jóns Sigurðssonar
Frá foreldum hans
„Þú vilt gefa allt, Þórdís“
Samtímamaður þeirra Hrafnseyrarhjóna, séra Oddur Sveinsson, sem tók við Hrafnseyrarstað þegar þau fluttust að Steinanesi með Margréti dóttur sinni 1851, lýsir þeim svo: „Þórdís var í meðallagi há, vel vaxin, andlitið frítt og gáfulegt, augun móleit og fjörmikil, kona var hún hæglát og geðgóð, en stjórnsöm á heimili. Góðhjörtuð var frú Þórdís talin og örlát við fátæka.“ „Þú vilt gefa allt, Þórdís“, er mælt að séra Sigurður hafi eitt sinn sagt við konu sína er hún var að gefa fátækum.
„Séra Sigurður var hár maður vexti, þrekinn vel og að öllu hinn karlmannlegasti, iðjumaður mikill. Hann var að vísu ekki sérlega fljótgáfaður eða bráðskarpur, sem menn kalla, en hafði einkar gott minni og greindargáfu og kunni yfir höfuð vel að nota gáfur sínar.“ Lengi framan af starfsárum sínum stundaði séra Sigurður sjóróðra á vorin. Fór hann þá heim um helgar til embættisgjörða. Var hann talinn ágætur sjómaður og aflasæll. Engin ljósmynd er til af þeim hjónum og heldur ekki af Margréti dóttur þeirra.
Hallgrímur Sveinsson.