Sumar þeirra komu hingað upp með togurum. Hugsa sér!
Að lokinni seinni heimsstyrjöld fóru þeir dr. Lúðvíg Guðmundsson, Gísli Kristjánsson, ritstjóri og blaðamennirnir Þorsteinn Jósepsson og Jón Helgason til Þýskalands, ásamt fleiri hugsjónamönnum. Þeir skipulögðu flutning hundraða kvenna til Íslands. Konurnar voru flóttamenn í eigin landi ef svo mætti segja vegna skelfilegra aðstæðna. Og gerðust flestar vinnukonur hjá íslenskum bændum. Margar þeirra urðu húsfreyjur þeirra. Þetta var mikið gæfuspor sem við framkvæmdum með einu pennastriki þó við hefðum engin efni á því. Sumar þeirra komu hingað upp með togurum. Hugsa sér!
Árið 1956 flutti Gunnlaugur Þórðarson lögmaður inn tugi Ungverja á vegum Rauðakrossins og það með einu pennastriki ef svo mætti segja. Þeir voru flóttamenn frá hörmungum í eigin landi. Margir þeirra ílentust. Úrvals fólk.
Í dag eigum við Íslendingar allt til alls. Við hendum helmingnum af þeim mat sem við kaupum. Spurt er hvort við eigum að rétta líknandi hönd til þeirra sem lifa við svo ógnvænlegar aðstæður að engin orð ná yfir það. Flestir íslenskir stjórnmálamenn fara í kringum þetta mál eins og kettir í kringum heitan graut. Þeir þora ekki að nefna neina tölu.
Aðstæður eru nefnilega alveg ómögulegar! Það þarf auðvitað skipulag fram í rauðan dauðann!
Við getum bjargað 500 manns strax í dag með einu pennastriki ef við viljum. Ekki síður en í gamla daga. Spurningin er aðeins: Viljum við það? Hver er munurinn á hundruðum þýskra kvenna sem sultu heilu hungri og sýrlensku fjölskyldunum í dag? Hann er nákvæmlega enginn. Hugsjónamennirnir, sem við leyfðum okkur að nefna hér að ofan, eru allir farnir heim. Hverjir skyldu taka upp merki þeirra?
Hallgrímur Sveinsson.