A A A
  • 2000 - Dagur Ernir Steinarsson
  • 2000 - Birna Filippía Steinarsdóttir
01.02.2015 - 08:10 | Hallgrímur Sveinsson

Sálusorgarinn séra Baldur Vilhelmsson í Vatnsfirði

Séra Baldur Vilhelmsson.
Séra Baldur Vilhelmsson.
« 1 af 4 »

Nú þegar sól hefur brugðið sumri hér vestra, þá er að halda til haga þeirri arfleifð sem okkar maður skildi eftir sig hér í fjörðunum. Hann var sálusorgari af þeirri gerð sem séra Árni og þeir Þorbergur lýsa svo meistaralega í bók sinni. Hann notaði símann mikið. Eins og til dæmis Ólafur Thors, sem einnig var meistari á sínu sviði. „Ég heyri betur í þér, góði,“ mun ekki hljóma oftar frá Vatnsfirði.

   Á héraðsfundi Ísafjarðarprófastsdæmis, sem haldinn var á Hrafnseyri fyrir all mörgum árum, var að vanda ýmislegt á dagskrá, svo sem eins og starfsskýrslur sókna, skýrslur frá prestastefnu, kirkjuþingi og leikmannastefnu. Reikningar sókna, kirkjugarða og héraðsnefndar, item tillögur ýmsar, þar á meðal tillögur biskupafundar um endurskoðun prestakalla í prófastsdæminu.

     Skemmst er frá því að segja, að einn maður "átti fundinn" eins og stundum er komist að orði um þá sem brillera á samkomum og mannamótum. Auðvitað síra Baldur í Vatnsfirði í Djúpi, fráfarandi prófastur. Skulu nú nefnd nokkur dæmi um það, þó slíkt sé auðvitað aðeins svipur hjá sjón miðað við að líta manninn tala í eigin persónu.

    
Gamli presturinn skýrði frá því að nú færi hans tími bráðum að koma:

   "Ég fer nú að verða laus úr þessu holdi sem þjáir okkur og

   þjakar, sem betur fer, auk þess er ég slæmur í fæti."

     Rætt var um reikninga sókna og kirkjugarða og hvernig með ætti að fara í sambandi við endurskoðun, birtingu og samþykkt þeirra.

     Sagði þá fráfarandi prófastur:

   "Ég er nú búinn að láta samþykkja þessa reikninga í mörg ár án þess nokkur maður hafi séð þá."

     Síra Baldur sagði frá kristilegum fisksala á Suðureyri:

   "Í gær var ég boðinn í kvöldverð hjá séra Valdimar á Suðureyri, það er að segja, kvöldverðurinn var nú eiginlega á mínum vegum, því við gengum út í fiskbúð og hittum þar fisksalann og hann gaf mér laglega rauðsprettu. Það er gott að það er þó einn kristilegur fisksali til sem gefur fátækum."

     Hjá einum fundarmanna kom fram að Vatnsfjarðarprestakall hefði notið nálægðar skólans í Reykjanesi. Síra Baldur:

   "Það var alveg öfugt. Það fólk sem hér er statt veit þetta vel. Það var skólinn sem naut kallsins. Presturinn hefur hlaupið í skarðið. Þeir voru ekki allir heppilegir kennararnir sem þarna voru. Það er annað mál. Þetta vita allir menn."

     Undir lok fundarins var hinn orðheppni klerkur hættur að standa upp þó hann þyrfti að tjá sig í nokkrum orðum:

   "Ég nenni nú ekki að standa upp lengur, gigtveikur og gamall. Það er náttúrlega ýmislegt sem maður upplifir, sem betur fer."

     Svo mörg voru þau orð. Víst er að mannlífið hér vestra verður ekki það sama eftir að þessi guðsmaður er horfinn af vettvangi.

 

Hallgrímur Sveinsson.

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30