A A A
  • 1981 - Brynhildur Elín Kristjánsdóttir
  • 1995 - Alexander Almar Finnbogason
  • 1996 - Margrét Unnur Borgarsdóttir
23.03.2015 - 21:38 | Afmælisrit Dýrfirðingafélagsins 2011 - Bergur Torfason

Salthúsið á Þingeyri

Bergur Torfason.
Bergur Torfason.
« 1 af 3 »

Bergur Torfason, fyrrverandi kaupfélagsstjóri, frá Felli í Dýrafirði

 

Salthúsið á Þingeyri eins og það hefur verið kallað, er elsta húsið á Þingeyri sem nú stendur uppi. Ekki eru allir á eitt sáttir um aldur þess. Sumir telja þetta eitt elsta hús á landinu. Hafi verið reist árið 1732 eða 1734 og væri því nær jafngamalt húsinu á Hofsósi, sem nú er talið elsta hús landsins.

Í bókinni Firðir og fólk 900-1900, sem Kjartan Ólafsson ritaði og gefin var út sem árbók Ferðafélags Íslands 1999 og einnig sem fyrra bindi í byggðasögu Búnaðarsambands Vestfirðinga, Vestfjarðarit I, segir á bls. 143-144.

„Á árum konungs-verslunarinnar síðari, 1774-1787, voru reist átta hús í grend við krambúðina en við lok þess tímabils voru aðeins tvö af gömlu húsunum enn í notkun, pakkhúsið frá 1735 og krambúðin frá 1757. Húsin sem konungsverslunin byggði voru þessi.“ Síðan eru þessi átta hús talin upp og þeim lýst nokkuð. Númer 4 í röðinni er þessi lýsing. „Bjálkabyggt pakkhús reist 1778. 12 x 7,5 metrar að stærð. Í húsinu voru 1787 tvær saltgeymslur. Við austurenda þess var eldiviðarskúr og annar lítill skúr við hinn endann.“
Síðan segir: „Allt sem hér hefur verið sagt um þessi átta hús er byggt á skýrslu frá árinu 1787 en hún fylgir bréfi Ólafs Erlendssonar fyrrum lögsagnara, til stiftamtmanns, dagsett 15. október á því ári og hér var áður vísað til. Af átjándu aldar húsunum á Þingeyri stóðu þrjú lengst, krambúðin frá 1757 sem rifin var 1940, faktorshúsið frá 1775 sem var rifið 1946 og salthúsið frá 1778 sem tekið var niður fyrir fáum árum og er nú í vörslu Þjóðminjasafns Íslands en fyrirhugað er að reisa það að nýju.“

Í riti þessu er greint frá eldra pakkhúsi er var byggt 1735, sem sagt var 11,5 x 6,3 metrar. Ekki er ólíklegt að verið sé að rugla þessum húsum saman, þegar „salthúsið“ er talið vera frá árunum 1732-1734, en stærð þess er önnur.

Salthúsið er plankabyggt. Plankarnir eru 6 tomma þykkir og 11 tommur á breidd. Loft var í húsinu og hátt risþak, eins og sjá má á mynd af Þingeyri frá árinu 1885. (Bls. 149 í Firðir og fólk 900-1900). Að líkindum hefir húsið verið smíðað í Danmörku og viðirnir fluttir tilsniðnir til landsins því að allir plankarnir eru vandlega merktir á samsetningum með rómverskum tölum sem skornar eru í viðinn.

Á tímum konungsverslunarinnar 1774-1787 voru sem áður segir allmörg hús byggð hér á Þingeyri og víðar. Í greinargerð um Salthúsið eftir Hjörleif Stefánsson arkitekt er vikið að því að sami smiður hafi byggt húsin á Hofsósi, Þingeyri og eins í Claushavn og Jakobshavn á Grænlandi.

Eigendur Salthússins voru í upphafi: Konungsverslunin danska frá 1778-1787. Þá kaupir Henrik Henkel, er verið hafði verslunarstjóri frá 1783, eignir hennar. Hann rak hér verslun frá 1788 til dauðadags árið 1817 og auðgaðist vel á henni. Hann var talinn vera frá Kóngsbergi í Noregi. Við andlát hans varð ekkja hans Charlotta Ísfjörð eigandi verslunarinnar en hinn 1. júní 1819 seldi hún Friðriki Svendsen, hálfbróður sínum, Daniel Steenbach, sem kvæntur var mágkonu hennar, Andreas Steenbach bróður Daniels og Christan Steenbach syni Daniels.

Er Andreas andaðist 1824 var hann líklegast einn eigandi og þá tók við versluninni sonur hans Niels M. Steenbach, sem gafst upp á rekstrinum 1830 og þá verður Charlotta Ísfjörð aftur eigandi. Árið 1836 hinn 7. mars seldi hún P.C.  Knudtzon stórkaupmanni verslunina, en hann seldi hana 1838 Hans Edvard Thomsen, sem séð hafði um reksturinn allt frá árinu 1836 og giftur var Kristjönu D. Knudsen (sem Jónas Hallgrímssson bað en fékk neitun). Hann rak verslunina í 30 ár þótt hann byggi hér aðeins í 4 ár. Hinn 11. desember 1866 seldi hann svo verslunina Nielsi Christian Gram, sem rak hér verslun í 30 ár, en hann lést 30. sept. 1898. Þá kaupir hana danskt verslunarhlutafélag sem bræðurnir Adolphs Enke í Danmörku áttu og nefndist verslunin þá N.Chr, Grams Handel A/S. En 1906 kaupir Milljónafélagið í Viðey Þingeyrartorfuna. Það varð gjaldþrota 1914 og keyptu þá Proppébræður verslunina og ráku til ársins 1927. Hinn 23. maí 1927 er stofnað í Reykjavík hlutafélagið Dofri hf. sem kaupir verslunina.

En 1930 kaupir Kaupfélag Dýrfirðinga þau hús sem Dofri kaupir ekki, þar á meðal salthúsið. Kaupfélag Dýrfirðinga átti húsið þar til það var afhent Húsafriðun ríkisins til varðveislu 1994, samkvæmt greinargerð sem Hjörleifur Stefánsson gerði um það og sögu þess. Það var síðan fengið Ísafarðarbæ til umráða. Það var friðað samkvæmt aldursákvæði 1. mgr. Þjóðminjalaga nr. 88/1989.

Húsið var „tekið niður“ 1994 og viðirnir settir í geymslu og til viðgerðar. Viðgerðir hafa dregist sökum fjárskorts. En árið 1998 hóf Guðmundur Óli Kristinsson frá Dröngum og menn hans, vinnu við endurbætur á viðunum, sem geymdir voru í Bólu á Þingeyri. Hægt miðaði áfram en árið 2008 er sagt frá því á Þingeyrarvefnum að endurbætur á salthúsinu gangi vel. Og í nóvember 2008 samþykkir Umhverfisnefnd Ísafjarðarbæjar að húsið skuli endurreist á upprunalegum stað. Verkið er unnið á vegum Ísafjarðarbæjar, með tilstyrk frá Húsafriðunarnefnd ríkisins.

Sumarið 2009 var húsið svo reist á grunni sem Kristín Auður Elíasdóttir hlóð úr hellugrjóti af Dynjandisheiði. Að uppsetningu unnu Guðmundur Óli Kristinsson og Sigmundur Fr. Þórðarson og menn þeirra. Á vef bb.is er haft eftir Guðmundi Óla, hinn 27. júlí 2009: „Verkið hefur gengið hægar en ég bjóst við. Við náðum húsinu saman með því að toga þetta og teygja.“ Smíðað var alveg nýtt þak með skarsúð og sama risi og var á því áður, úr breiðum borðum. Húsið var tjöruborið hátt og lágt.

Kristín Auður Elíasdóttir hóf sumarið 2010 að hlaða lága veggi úr hellugrjóti sem mynda gang framan við húsið. Framkvæmdum er ekki lokið. Ekki er mér ljóst til hvers á að nýta húsið í framtíðinni. Ekki var lagt fyrir rafmagni í húsið né fyrir vatni inn eða út, áður en grunnur var lagður. Mikils er um vert að húsinu verði fundið verðugt verkefni en standi ekki autt og ónotað.

Bergur Torfason

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31