A A A
  • 1997 - Ragnhildur Anna Ólafsdóttir
  • 2000 - Andrea Sif Bragadótir
02.12.2008 - 11:50 | Hallgrímur Sveinsson

Íslenskir sjómenn héldu lífinu í Bretum

Hallgrímur Sveinsson
Hallgrímur Sveinsson
Hinn frjálsi heimur stendur í ævarandi þakkarskuld við Breta fyrir það hversu staðfastir þeir stóðu gegn nazistum og fylgifiskum þeirra í seinni heimsstyrjöldinni. Á ögurstund, 13. maí 1940, í fyrstu ræðu sinni í neðri málstofu breska þingsins, sem nýkjörinn forsætisráðherra þeirra, sagði Winston S. Churchill að hann hefði ekkert að bjóða þeim annað en blóð, þrældóm, svita og tár ef sigur ætti að vinnast á mestu myrkraöflum sögunnar. Þessa sögu þekkja flestir og hvernig Bandaríkjamenn lögðust svo á árarnar með Bretum, Rússum og bandamönnum þeirra í þeim ógnvænlega hildarleik svo sigur vannst að lokum.

Hinu eru sjálfsagt margir búnir að gleyma, ekki síst Bretar sjálfir, að íslenskir sjómenn komu mikið við sögu í þeirri baráttu. Þeir áttu stóran þátt í að halda lífinu í bresku þjóðinni með því að færa henni fisk á borðið svo hundruðum þúsunda tonna skipti á styrjaldarárunum, að vísu gegn greiðslu. Það er spurning hvernig farið hefði ef Bretar hefðu ekki fengið sitt Fish and chips! Íslensku fiskimennirnir sigldu með björgina yfir hættulegasta hafsvæði heims sem þá var, Atlantshafið. Þýsku kafbátarnir skutu hvert íslenska skipið á fætur öðru á mararbotn og gerðu árásir á önnur af algjöru miskunnarleysi. Mannfallið var ógnvænlegt hjá hinni örsmáu þjóð. Blóð, sviti og tár varð þá einnig hlutskipti Íslendinga.

Nú hafa orðið mikil leiðindi í fjármálalegum samskiptum þessara vinaþjóða. Breskir ráðamenn hafa tekið ótrúlega harkalega í tauma gagnvart lítilli þjóð. Og Íslendingar eru með ákveðnar yfirlýsingar sem eftir er að sannreyna. Orð gegn orði. Stóryrði hafa aldrei kunnað góðri lukku að stýra í samskiptum þjóðanna frekar en einstaklinga. Ótrúleg atburðarás sem útheimtir að hið rétta verði dregið fram í dagsljósið.

Íslenskir fjölmiðlar, fulltrúar okkar og allir sem vettlingi geta valdið erlendis, ættu nú að fletta sögubókunum og rifja myndarlega upp fyrir breskum almenningi og öðrum hvernig íslenskir sjómenn lögðu sitt af mörkum til að halda lífinu í Bretum þegar þeir og hinn frjálsi heimur voru á barmi hengiflugsins. Eins og nú háttar samskiptum þessara þjóða er nauðsynlegt að minna breskan almenning á slíkar sögulegar staðreyndir.
« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30