A A A
  • 2000 - Dagur Ernir Steinarsson
  • 2000 - Birna Filippía Steinarsdóttir
17.06.2019 - 11:55 | Hallgrímur Sveinsson

Í tilefni 17. júní: Jón Sigurðsson og Ólafur Thors

Jón og Ingibjörg um það leyti sem þau gengu í hjónaband í Dómkirkjunni í Rvk. 4. sept. 1845. Þá hafði Ingibjörg „setið í festum“ í 12 ár. Myndin er merkileg fyrir margra hluta sakir. Þetta er ein allra fyrsta ljósmynd sem tekin var af Íslendingum. Ekki er vitað um neina aðra ljósmynd þar sem Jón situr fyrir með öðrum. Skömmu síðar en myndin var tekin, varð hann alveg hvíthærður, svo nokkuð sé nefnt. Ljósm. ókunnur.
Jón og Ingibjörg um það leyti sem þau gengu í hjónaband í Dómkirkjunni í Rvk. 4. sept. 1845. Þá hafði Ingibjörg „setið í festum“ í 12 ár. Myndin er merkileg fyrir margra hluta sakir. Þetta er ein allra fyrsta ljósmynd sem tekin var af Íslendingum. Ekki er vitað um neina aðra ljósmynd þar sem Jón situr fyrir með öðrum. Skömmu síðar en myndin var tekin, varð hann alveg hvíthærður, svo nokkuð sé nefnt. Ljósm. ókunnur.
« 1 af 2 »

Auk innborinnar glæsimennsku er ótrúlega margt líkt með þessum tveimur þjóðskörungum þegar grannt er skoðað. Matthías Johannessen segir frá því í verki sínu um Ólaf Thors, að engu hafi verið líkara en Ólafur hafi tileinkað sér sumt það í fari Jóns forseta, sem úrslitum réð um mannhylli hans, en þó hafi frekar mátt ætla, að um hefði verið að ræða eðliskosti, en ekki áunna eiginleika.


Hvað sem um það er, getur lýsing Páls Eggerts Ólasonar á Vestfirðingnum Jóni Sigurðssyni einnig átt við um Ólaf Thors að mörgu leyti, sem manna lengst geymdi fjöreggs íslensku þjóðarinnar og Jóns Sigurðssonar:


„Hann var gleðimaður, viðmótsþýður jafnan við hvern sem var, alúðlegur og látlaus og að honum fagnaðarauki. Hann var höfðinglegur í útlátum, skartmaður en þó umfram allt iðjusamur og hamhleypa til vinnu og var atorku hans, starfsemi og afköstum við brugðið.“

Þann 17. júní 1961, þegar minnst var 150 ára afmælis Jóns Sigurðssonar, flutti Ólafur Thors, þá forsætisráðherra í fimmta sinn, ræðu dagsins á Austurvelli. Þá sagði hann meðal annars:

„Sjónarhóll Jóns Sigurðssonar var svo hár, að hann sá yfir fjöll og firnindi, í allar áttir og langt fram í tímann. Honum skildist til fullnustu, að frelsisviðurkenningin ein nægði ekki Íslendingum, svo sem þá var komið högum þjóðarinnar. Þess vegna barðist hann á tvennum vígstöðvum í senn. Út á við fyrir auknu þjóðfrelsi og á heimavígstöðvum gegn fátækt, deyfð, fáfræði og vesaldómi. Hann skildi vel, að það sem á reið var að manna þjóðina og mennta hana á öllum sviðum, vekja metnað hennar og kenna henni að græða óræktaða jörð og berjast við óblíða náttúru eftir nýjum leiðum.“

Svo mörg voru þau orð og miklu fleiri sem ekki er tóm til að birta hér.
(Sjá Frá Bjargtöngum að Djúpi eldri flokkur 1. bindi)

 

 

 

 

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30