A A A
  • 1911 - fæddist Matthías Guðmundsson
25.09.2014 - 21:30 | Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

Hvernig væri að færa hádegisfréttirnar til hálf tvö?

RUV við Efstaleiti í Reykjavík.
RUV við Efstaleiti í Reykjavík.

„Andskotans svívirða er þetta! Að láta fullfríska menn vera að spila á grammófón fyrir þjóðina í útvarpinu allan daginn. Það væri nær að láta þá moka skít.“

Svo mælti vestfirski bóndinn Jóhannes Davíðsson í Neðri-Hjarðardal í Dýrafirði á sinni tíð. Það hefur líklega verið um svipað leyti sem hann sýndi þá framsýni að bera fram tillögu á Búnaðarþingi um hjúskaparmiðlun bænda. Sú tillaga var auðvitað ekki samþykkt. Bændur máttu ekkert vera að því að líta upp frá skítmokstrinum til að skoða eða hugsa um kvenfólk!

   Þetta er sagt hér til gamans, en öllu gamni fylgir nokkur alvara sem kunnugt er. Í þessu tilfelli er alvaran sú að í dag er ekki nokkur leið að henda reiður á öllu því ágæta fólki sem fæst við það í Efstaleiti að spila á grammófóna fyrir þjóðina. Og blaðrar og blaðrar dag út og dag inn. Það er auðvitað algjör nauðsyn að leika alls konar tónlist fyrir þjóðina. Þar er ótal margt vel gert og sumt stórkostlegt. Og blaðrið er ágætt í hófi en getur tekið út yfir allan þjófabálk. En það virðast ráðamenn þarna á hæðinni ekki skilja. Og svo í framhjáhlaupi: Til hvers þarf að vera með þrjá-fjóra menn að blaðra í kringum knattspyrnuleiki og slíkt, þegar áhugamenn sjá þetta allt sjálfir í sjónvarpinu? Þetta voru þeir einir við hljóðnemann Sigurður Sigurðsson, Hemmi Gunn og Rauða ljónið og þurfti þar engu við að bæta.

       En þetta er nú ekkert. Það sem við vildum sagt hafa er að Segulbandasafnið, sem geymir allar þjóðargersemarnar bæði úr víðvarpi og sjónvarpi, er í mikilli hættu. Í miðju Biblíustríði dagsins heyrðust ramakvein úr Efstaleiti: Þessi gagnagrunnur allrar þjóðarinnar liggur undir skemmdum og mun eyðileggjast meira og minna ef ekkert er að gert. Mogginn hefur eftir þeim góða manni sem sér um Segulbandasafnið að hann sé með fjall fyrir framan sig af spólum, plötum, kassettum og diskum. Og tvær teskeiðar í höndunum! Hann er að reyna  bjarga menningarverðmætum þjóðarinnar sem annars verða meira og minna ónýt. Svo er að skilja á starfsmönnum að mikil hætta sé á að hluti af þessari þjóðargersemi glatist vegna vangár og vanhirðu. En það er  kannski með þetta eins og annað hjá okkur: Það ber enginn ábyrgð.

   Nú vita allir að stór hluti af dagskrá Rúv í dag er sóttur í Segulbandasafnið. Það er því bara óskiljanlegt að aðeins sé einn starfsmaður þar að verki af öllum þeim hundruðum sem vinna við þessa þjóðarstofnun. En blaðrið blívur. Við sveitamennirnir leggjum til að svo sem eins og sex góðir menn af báðum kynjum verði teknir úr blaðrinu og settir í það með manninum með teskeiðarnar að bjarga Segulbandasafninu. Auk þess leggjum við til að Ríkissjónvarpið dragi stórlega úr  ameríska ruslinu. Ýmislegt gott kemur frá Hollywood, en sumt af því er drasl sem ekki er mönnum bjóðandi. Notum fjármuni sem þannig sparast í margumrætt Segulbandasafn.    

   Þessa dagana tíðkast miskunnarlausar breytingar á dagskránni á Rás 1  sem mörgum sýnist mest vera breytinganna vegna. Örfá dæmi: Morgunútgáfan kl. 06:30 hét fyrir nokkrum dögum Árla dags, þar á undan Sumarglugginn, þá Morgunglugginn o.s.frv. Samfélagið í nærmynd sem var kl. 11:oo heitir nú Samfélagið og er fluttur til kl. 13:00. Síðasta lag fyrir fréttir missir algjörlega marks sem síðasta lag fyrir tilkynningar. Algjört skilningsleysi á hefðum. Goðgá. Þátturinn Sagnaslóð er felldur niður fyrirvaralaust. Stjórnandi Morgunleikfiminnar til áratuga kveður hlustendur og heldur að þátturinn verði tekinn af dagskrá. Misskilningur. Meðal annarra orða: Væri ekki rétt að færa hádegisfréttirnar til klukkan hálf tvö? Það mundi mörgum ábyggilega þykja nokkuð sniðugt. Nei annars. Þetta er bara djók!

   Með þessari vel meintu, málefnalegu gagnrýni, óskum við  því blessaða fólki sem tekið hefur við keflinu á Efstaleiti gæfu og gengis. Þetta er glæsilegt og vel gefið fólk sem hefur alla burði til að láta gott af sér leiða og standa sig í vinnunni. En menn þurfa að passa sig á að vera ekki að hlaupa út og suður með dagskrárliði sem þjóðin hefur alist upp með. Breytingar á dagskrá eru vandmeðfarnar. Það þarf að bera þær undir hlustendur og fá álit þeirra fyrirfram. Ekki eftirá. Og þurfa svo að lúffa þegar allir sjá að röng stefna er tekin. Það er ekki í anda hinna gömlu góðu útvarpsmanna sem skópu hefðirnar á sínum tíma.

Að lokum: Björgum Segulbandasafninu!

 

Hallgrímur Sveinsson og Bjarni Georg Einarsson

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30