A A A
  • 1949 - Guðberg Kristján Gunnarsson
  • 1962 - Unnur Cornette Bjarnadóttir
« 1 af 4 »

Monica Mary Mackintosh býr í Hnífsdal og hefur verið enskukennari við Grunnskólann á Ísafirði um langa hríð. Hún er gift Reyni Helgasyni starfsmanni Orkubús Vestfjarða og þau eiga þrjú börn, Tómas, Amy Melissu og Kristófer.

 

Ég er fædd árið 1953 í Brisbane sem er stærsta borgin í Queensland fylki á austurströnd Ástralíu. Þar ólst ég upp fyrstu sjö eða átta árin í stórum systkinahópi. Við vorum sjö systkinin, fjórar stelpur og þrír strákar og aðeins tólf ára aldursmunur á því elsta og yngsta. Svo það var mikið fjör hjá okkur í uppvextinum og enginn skortur á leikfélögum, við vorum náin og lékum okkur mikið saman.  

Í kaþólskum nunnuskóla

Ég byrjaði í skóla þegar ég var fimm ára. Ég man ekki mikið eftir fyrstu skóladögunum en ég held að ég hafi verið vel undirbúin, því eldri systkini mín höfðu lesið fyrir mig og kennt mér ýmislegt áður en ég byrjaði. Ég gekk í kaþólskan nunnuskóla sem St. Jósefssystur ráku – það er sama regla og rak til dæmis St. Jósefsspítala í Hafnarfirði. Skólinn hét Mary Immaculate Convent School. Þarna voru börn upp í áttunda bekk og var skipt í bekki eftir kynjum, þannig að ég var í stelpnabekk. Mér fannst það ekkert skrítið því ég þekkti ekki annað. Við hittum strákana samt í frímínútum. Eldri systkini mín gengu líka í þennan skóla en ekki þau yngstu. Við gengum eiginlega alltaf í einkaskóla og þar þurfti að borga skólagjöld. Ég veit ekki hvernig pabbi og mamma fóru að því að borga fyrir öll þessi börn, því þau voru ekki efnuð. Við stelpurnar fórum líka allar í tónlistarnám og strákarnir æfðu íþróttir og foreldrar okkar þurftu að borga fyrir það allt saman. En einhvern veginn klufu þau það nú samt.

 

 Nunnurnar kenndu okkur tónlist líka, hún var partur af náminu í skólanum. Ég lenti einu sinni í því að gömul og gribbuleg nunna sló með reglustiku á fingurna á mér þegar hún sá að ég hafði ekki æft mig almennilega heima. Það var vont en ég sagði mömmu ekki frá því enda vissi ég auðvitað að ég hefði átt að æfa mig betur. Yfirleitt var ég bara stillt og dugleg stelpa og slapp vel við svona trakteringar en það voru ekki allir jafn heppnir. Það var töluvert heimanám en pabbi og mamma tuðuðu aldrei í okkur út af því. Þau voru samt alltaf reiðubúin að hjálpa okkur við það ef við þurftum aðstoð.Þegar ég var í fimmta bekk fluttum við til Gladstone sem er hafnarborg u.þ.b. 500 km fyrir norðan Brisbane. Pabbi var skólastjóri í ríkisskóla og til þess að fá hærri tekjur þurfti hann að taka að sér stærri skóla sem auðvitað fylgdu fleiri vandamál og meiri vinna. Þetta þýddi yfirleitt að fjölskyldan þurfti að flytja, svo við fluttum nokkrum sinnum og ég gekk í fimm mismunandi grunnskóla sem allir voru kaþólskir einkaskólar. Þetta voru strangir skólar og samband nemenda og kennara mjög ópersónulegt miðað við það sem við þekkjum í dag. Ég þekkti auðvitað ekkert annað, hafði engan samanburð, svo mér fannst þetta bara sjálfsagt þegar ég var lítil. Og ég minnist þess ekki að ég hafi orðið vör við að nemendur væru beittir misrétti eða yrðu fyrir einelti. Ég átti marga vini og hafði auk þess stuðning af systkinum mínum í skólanum og mér leið alltaf vel þar. Tónfræði var kennd á laugardagsmorgnum, reyndar bara tveir tímar í hvert sinn en ég fór semsagt í skólann sex daga vikunnar.

Við þessa skóla var yfirleitt heimavist og þar dvöldu krakkar innan af landi sem áttu þess ekki kost að ganga í skóla í nágrenni við heimili sitt. Þau voru börn auðugra foreldra, til dæmis nautgripabænda sem áttu gríðarlega stóra búgarða lengst inni í landi þar sem var mjög langt í næsta skóla. 

Aðstæður voru ekki þannig að þau gætu skilið okkur eftir heima, aldursmunurinn var ekki nægur til að þau elstu gætu passað þau yngstu, allavega fannst pabba og mömmu að þau yrðu að taka okkur með í ökutímana. Og því fór sem fór.

Bróðurleg samkeppni

Síðasti skólinn sem pabbi stýrði hét South Port State High og þar voru yfir tvö þúsund nemendur í 8. – 12. bekk. Það hefur ekki verið einfalt að semja stundatöflur fyrir allan þennan fjölda, fyrir utan allt annað. En hann var góður í því eins og flestu öðru, hann pabbi minn. Hann var mjög klár maður, yfirvegaður og rólegur. Hann átti níu systkini og afi og amma höfðu ekki alveg haft efni á að senda öll börnin í langskólanám, þótt þau væru góðir námsmenn. Þetta var á tímum kreppunnar miklu og lífsbaráttan var hörð, ekki síst fyrir bændur eins og afa og ömmu. Pabbi og bróðir hans vildu báðir fara í læknisfræði en foreldrar þeirra gátu bara sent annan þeirra í svo dýrt nám. Svo þegar þeir luku samræmdum lokaprófum úr framhaldsskóla varð það að samkomulagi að sá þeirra sem stæði sig betur á prófunum, fengi að fara í læknisfræðina.

Eftir prófin voru nöfn 25 þeirra efstu í fylkinu birt opinberlega. Þá kom í ljós að Glen bróðir pabba hafði orðið hæstur en pabbi var númer tuttugu. Reyndar var Glen of ungur til að fara í læknanám þá, svo hann endurtók prófið ári síðar og varð aftur efstur. Það varð því niðurstaðan að Glen fékk góðan námsstyrk og varð læknir en pabbi fór líka í háskóla, byrjaði í lögfræði og tók BA próf en þá voru peningarnir búnir og hann varð að finna sér vinnu. Svo skall stríðið á og ekkert varð úr frekara námi að sinni. En hann gerðist kennari og skólastjóri að ævistarfi og það átti mjög vel við hann. Auk þess að vera skólastjóri vann hann við ýmislegt annað, hann hefur eflaust þurft að hafa allar klær úti til að sjá fyrir þessari stóru fjölskyldu. Ég man t.d. eftir því að hann var að kenna innflytjendum frá Rússlandi ensku á kvöldin í safnaðarheimilinu í Wooloongabba í Brisbane. Hann hafði gaman af því og lærði sjálfur svolítið í rússnesku á þessu. Það var stefna stjórnvalda á þessum

 

tíma að ýta undir innflutning fólks frá Evrópu og þarna voru líka margir innflytjendur frá Ítalíu, Póllandi, Grikklandi og Hollandi, auk Rússanna.

Stórfjölskyldan og vinir

Pabbi átti þrjár systur sem giftust ekki og þær bjuggu allar þrjár áfram í húsi foreldra sinna ásamt einum bróður sínum sem líka var einhleypur. Ég man ekki eftir að hafa hitt föðurafa minn og ömmu, þau voru dáin áður en ég náði að kynnast þeim. En ég heimsótti frændfólk mitt oft og þau voru góð við okkur krakkana. Pabbi var elstur af systkinunum svo þetta var fólk á besta aldri þegar ég var að alast upp.

Við heimsóttum líka móðurafa okkar og ömmu en þau bjuggu samt frekar langt frá okkur svo við fórum til þeirra í sporvagninum. Mamma fór líka oft ein að heimsækja þau eða tók okkur krakkana með sér eitt og eitt í einu. Þau voru orðin öldruð, svo hún hefur kannski ekki viljað leggja það á þau að fá allan skarann í heimsókn í einu og auðvitað kom ekki til greina að við værum að gista þar eða vera í pössun hjá þeim. Sambandið var því allt öðruvísi og fjarlægara en það samband sem ég á við barnabörnin mín hér í Hnífsdal.

Frá Gladstone fluttum við til Childers í eitt ár en þaðan lá leiðin til Maryborough og þar var ég í sjöunda til tíunda bekk. Þar kynntist ég Leah vinkonu minni. Við urðum mjög nánar og gistum oft heima hjá hvor annarri um helgar. Ég missti samband við hana um tíma en svo hringdi ég í hana þegar ég var í heimsókn í Ástralíu 2009 og fór að heimsækja hana í vesturhluta Queensland. Þá var eins og við hefðum talað saman daginn áður, við tókum upp þráðinn eins og ekkert væri og það var ótrúlega gaman að hitta hana aftur. Eftir það höfum við skrifast á upp á gamla mátann, því hún er ekki á Facebook, svo við skrifum bréf og sendum í pósti. Það getur líka verið skemmtilegt.

Frá Maryborough fluttum við til Southport á Gold Coast og þar gekk ég í Star of the Sea Convent í ellefta og tólfta bekk en bræður mínir fóru í ríkisskólann hjá pabba.

Saga forfeðranna

Pabbi var fæddur 1914 og mamma 1916. Hann var afkomandi þingmanns frá Skotlandi sem hafði verið sendur til Ástralíu til að hafa umsjón með skoskum föngum en Ástralía var fanganýlenda Breta á þessum árum.

Mamma var ættuð frá Birmingham og Cork á Írlandi, afi hennar var af fátæku fólki og hann stal einhverju matarkyns til að hjálpa fjölskyldunni en náðist og var sendur sem fangi til Ástralíu og átti að vera þar í sjö ár. Amma hennar var líka dæmd til fjórtán ára fangavistar í Ástralíu fyrir að þiggja kassa af stolnum eplasafa að gjöf. Þangað voru ekki sendir neinir stórglæpamenn, bara smáþjófar og pólitískir fangar. Þetta hefur auðvitað verið mjög erfitt, fyrst að þvælast alla þessa leið, veltast kannski í tvo til þrjá mánuði á leiðinni í skipi og oft tók í rauninni ekkert við föngunum þegar þeir komu til Ástralíu, því ekki fóru allir í fangelsi heldur voru margir einfaldlega settir út á guð og gaddinn – eða öllu heldur eyðimörkina - og áttu bara að bjarga sér. Langafi kom 1837 en langamma 1823 og þau voru bæði send til Van Diemen‘s Land sem nú heitir Tasmanía og er fyrir sunnan Ástralíu. Einhvern veginn komust þau til Ástralíu og komu sér fyrir í Narrawa en tóku sig upp þaðan með þrjú börn og lögðu af stað með föggur sínar á uxakerru í norðurátt og þvældust óraleið þar til þau komu til Queensland. Þau voru í fjórtán ár á þessu ferðalagi og eignuðust sjö börn á leiðinni en misstu eitt þeirra.

Öllum þessum árum seinna kynntust svo barnabarn þessara fanga og barnabarn þingmannsins frá Skotlandi og gengu í hjónaband í Queensland árið 1942. Þá var mamma ófrísk og pabbi þurfti að fara í herinn og var sendur til Papúa Nýju Gíneu til að gegna herþjónustu. Þar börðust Ástralir við Japani á þeim tíma því Ástralía átti landsvæði þar.

Pabbi var afskaplega rólegur maður og frekar hlédrægur. Mamma var orðin úrkula vonar um að hann kæmi sér að því að biðja hennar svo hún með sitt írska skap, tók af skarið og spurði hann hvort hann ætlaði að giftast sér eða ekki. Og ef ekki, þá sagðist hún bara skyldu giftast einhverjum öðrum náunga sem var að eltast við hana. Hún var mjög falleg ung kona. En hún meinti víst lítið með þessu enda var pabbi fljótur að segja já og þau giftust áður en hann fór til Papúa Nýju Gíneu.

Pabbi veiktist illa í herþjónustunni, fékk malaríu og slæma gigtarsótt sem líklega átti upptök í streptókokkasýkingu.

Pabbi var kaþólskur en mamma tilheyrði ensku biskupakirkjunni. Til að þau gætu gifst þurfti hún að taka kaþólska trú. Ég veit ekki hvort trúin skipti hana miklu máli, kannski gerðist hún bara kaþólsk fyrir hann af því að hún var ástfangin og vildi giftast honum, hún talaði aldrei um það. Hún fór alltaf í messur á sunnudögum og gerði allt sem góðar og gegnar kaþólskar konur áttu að gera.









« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31