A A A
« 1 af 2 »


BRÆÐUR MÍNIR

 

Albræður mínir voru Ingimar og Finnur Eydal. Ég var okkar yngstur, þremur árum yngri en Finnur. Þeir hafa komið við sögu öðru hverju hér að framan og reyndar einnig síðar, en hér ætla ég að fjalla um tónlistarferil þeirra. Báðir hófu þeir tónlistarnám á barnsaldri. Ingimar var við nám í klassískum píanóleik og það voru óneitanlega vonbrigði fyrir kennara hans þegar hann „datt í djassinn“ eins og það var orðað. Finnur lærði líka á píanó, en hann mun hafa verið um tíu eða ellefu ára þegar hann fann gamalt klarínett uppi á háalofti hjá afa okkar og ömmu. Það mun hafa verið í eigu Birgis föðurbróður míns, sem spilaði í Lúðrasveit Akureyrar. Það vantaði að vísu á það munnstykkið, en Finnur gafst ekki upp og tókst að bæta úr og var þá komið nothæft hljóðfæri. Hann hóf nám í tónlistarskóla Akureyrar og síðar í Reykjavík, m.a. hjá Agli Jónssyni og Gunnari Egilssyni. Finnur mun hafa verið þrettán ára gamall þegar hann kom fyrst fram sem klarínettleikari. Tónlist liggur oft í ættum. Indriði afi minn í móðurætt spilaði á harmoniku á dansleikjum á Austurlandi. Ingimar afi minn í föðurætt var stundum trallari á böllum í Eyjafirðinum, en þegar engin harmonikka var fyrir hendi var einfaldlega trallað undir dansinum. Ég var á unglingsárunum þegar stjarna bræðra minna tók að rísa á tónlistarsviðinu. Þeir fóru fyrir vinsælli danshljómsveit á Akureyri. Brátt bættist við góður liðsauki, söngkonan Helena Eyjólfsdóttir, sem síðar giftist Finni bróður mínum. Kona Ingimars, Ásta Sigurðardóttir, sá oft um textagerð, ásamt Kristjáni, skáldi frá Djúpalæk.

Á þessum árum hóf Óðinn Valdimarsson að syngja með hljómsveitinni og varð fljótt vinsæll hjá þjóðinni. Ásamt því að syngja hóf Óðinn prentnám, en vinna í prentsmiðjunni hófst kl. 7:15. Það hentaði Óðni ákaflega illa, enda var hann oft að skemmta langt fram eftir kvöldi. Var þá gerður samningur við Óðin um að hann mætti mæta til vinnu kl. 9.00. Gekk það í fyrstu vel, en fljótlega kom að því að honum tókst ekki að mæta fyrr en kl. 11.00. Hann gaf þá skýringu að hann hefði verið í sjötugsafmæli frænku sinnar kvöldið áður. Verkstjóranum fannst þessi skýring ósennileg enda var ekki vitað um neitt sjötugsafmæli daginn áður og spurði hvort hann hefði enga aðra skýringu. „Æ, mér datt bara ekkert betra í hug,“ svaraði Óðinn sem varð ekki langlífur í prentverkinu.

 

Einhverju sinni vorum við sem oftar norður á Akureyri um jól og áramót. Kvöldið fyrir gamlársdag fékk ég heimsókn góðra vina og við ákváðum að taka smá forskot á áramótin og lyfta glösum. Fór þetta þannig að áramótavínið kláraðist. Gamlársdagur var á sunnudegi og útlit var fyrir að við yrðum að sitja þurrbrjósta um áramótin. Þá datt mér í hug að athuga hvort Ingimar bróðir minn kynni að eiga einhverja lögg. Þannig var í spilamennskunni að það kom fyrir að kúnnar sem voru að skemmta sér vildu launa honum með því að senda honum dýrindis vín upp á senu. Ingimar var stakur bindindismaður og því söfnuðust þessar gjafir upp hjá honum. Ég leita sem sagt til Ingimars og jú hann átti lögg eins og sagt var. Hann reyndist eiga flösku af dýrindis koníaki, en um einn þriðja vantaði á að flaskan væri full. Hann sagði að það stafaði af því að hann væri vanur að þvo málningarpensla upp úr koníakinu. Ég þáði að fá að láni það sem eftir var. Þegar ég fór á ég að hafa sagt „Svo skila ég þessu í formi terpentínu til að hreinsa penslana."

Ég get fullyrt að hljómsveit bræðra minna ásamt Helenu Eyjólfsdóttur, Vilhjálmi Vilhjálmssyni og Þorvaldi Halldórssyni var eitt það besta á þessu sviði tónlistar á þeim tíma. Báðir bræður mínir gerðu tónlist og kennslu að ævistarfi. Ingimar lést árið 1992, Þá 56 ára gamall, eftir baráttu við krabbamein. Finnur lést 1996, 56 ára gamall eftir langa sjúkdómslegu.



« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30