A A A
  • 1935 - Soffía Einarsdóttir
24.10.2016 - 11:33 | Hallgrímur Sveinsson,Vestfirska forlagið

Helle Bjarnason hefur orðið: - Viltu giftast mér?

Hjónin Helle og Ragnar Bjarnason.
Hjónin Helle og Ragnar Bjarnason.

5. grein.

Ragnar kynntist seinni eiginkonu sinni, Helle Bjarnason, á veitingastaðnum Rigo í Árósum þegar hann söng þar með hljómsveit árið 1964. En hvernig atvikaðist það? Hvernig lýsir eiginkonan því?

   „Ég var ekki nema 18 ára og var að koma í fyrsta sinn inn á staðinn með vinkonu minni,“ segir hún. „Það var algjör tilviljun að ég fór þar inn. Hana langaði mikið og suðaði í mér þar til ég lét undan. En bara stutta stund,“ sagði ég ákveðin.

   „Ragnar stóð á sviðinu og kom auga á okkur um leið og við komum inn úr dyragættinni. Ég tók eftir því hvernig hann fylgdi okkur með augunum þar til við settumst. Og þarna stóð hann eins og hæna með annan fótinn á „hæattinum“ á trommunum og söng. Þetta kom mér skringilega fyrir sjónir því að ég var vön því að trommarinn sæti yfirleitt þegar hann spilaði.

Í næsta hléi kom hann hlaupandi til okkar, hlammaði sér niður við hliðina á mér og spurði blátt áfram:

   „Viltu giftast mér?“

   Ég og vinkona mín litum hvor á aðra, vissum ekki hvort hann var að grínast eða meina þetta í alvöru.

    „Ég þarf að hugsa málið dálítið,“ svaraði ég til að segja eitthvað enda algerlega óviðbúin spurningunni.  Áður en hann fór aftur upp á svið til að syngja, bauð hann mér með sér í bíó daginn eftir. Ég þáði það og þannig byrjaði þetta allt saman. Segja má að þetta hafi verið ást við fyrstu sýn hjá okkur. Ragnar höfðaði sterkt til mín. Það var eitthvað við hann sem heillaði mig strax. Þó að það muni 12 árum á okkur hef ég aldrei fundið fyrir neinum aldursmun. Ástin spyr líklega ekki um aldur.“  

                                  (Eðvarð Ingólfsson: Lífssaga Ragga Bjarna, bls. 25. Bókaútg. Æskan 1992)   

  

« Mars »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31