A A A
  • 1966 - Steinar Ríkarður Jónasson
04.02.2013 - 21:15 | Hallgrímur Sveinsson

Heiður þeim sem heiður ber

Hallgrímur Sveinsson.
Hallgrímur Sveinsson.

Starfsmenn Orkubús Vestfjarða hafa ekki átt sjö dagana sæla að undanförnu. Þar eru margir frábærir starfsmenn sem láta ekki að sér hæða og eru með báða fætur á jörðinni. Siggi Þói hreppstjóri og Líni Hannes rafvirkjameistari á Þingeyri fylla til dæmis þann flokk með sóma. Menn sem leysa þau vandamál sem upp koma þegjandi og hljóðalaust við mjög erfiðar aðstæður. Þeir hafa tvær dieselvélar til ráðstöfunar sem framleiða rafmagn fyrir íbúa í Dýrafirði þegar allt fer á hvolf í aðliggjandi línukerfum. Þessar vélar eru lífæðar samfélagins þegar allt annað bregst.

   Sé ekið frá Hjarðardal í Mýrahreppi í Dýrafirði yfir að Gemlufalli þessa dagana liggur við að manni fallist hendur. Slík var eyðileggingin á raflínum Orkubúsins sem nú ku vera í eigu svokallaðs Landsnets.  Þar höfðu náttúruöflin farið um sveipandi hendi og heilu stauratvístæðurnar splundrast eins og eldspýtur.  Örugglega tugmilljóna tjón og minnir á það þegar voldugir rafmagnsstaurar hreinlega gufuðu upp á Rauðsstöðum í Arnarfirði í gamla daga. Það eru engir aukvisar sem lögðu hönd á plóg við að koma rafmagninu á aftur um daginn í brjáluðu veðri, Orkubúsmenn og kappar miklir frá Landsneti. Hvað sagði ekki Hagalín í Sturlu í Vogum: „Það kostar að vera maður.“  Hreinn sterki frá Bolungarvík, Vignir Dýrfirðingur og Reynir Ísfirðingur, svo aðeins þrír séu nefndir af fjallamönnum Orkubúsins, víla ekki fyrir sér að fara út í sortann og bylinn þegar svo ber undir til að bjarga málum. Þeir eru alltaf á vakt og bakvakt líka eins og gömlu héraðslæknarnir.

   Gárungarnir, sem sífellt eru tilbúnir að fara með léttara hjal sem betur fer, segja að það hafi verið aðal brandarinn í síðustu tveimur nýliðnum rafmagnsleysum í Dýrafirði, að einhverjir góðir sérfræðingar sem fara stundum með himinskautum, hafi látið sér detta í hug að koma upp varaafli fyrir Dýrafjörð í Bolungarvík.  Jafnvel flaug fyrir að flytja ætti dieselvélarnar góðu frá Þingeyri eitthvað út í buskann, því það væri mikið meira öryggi að keyra orkuna frá stórum og kraftmiklum vélum í Bolungarvík og inn á svæðið vestur á bóginn heldur en vera með einhverja smá rokka í gangi í krummaskuðunum.Þetta er náttúrlega alveg stórkostlegt. En hvernig ætti að koma umræddri raforku eftir línum sem væru meira og minna í hengslum og sundurtættum staurum á vesturleiðinni, fylgdi ekki sögunni. Nýjustu fregnir herma svo að þessi tillaga hafi verið dregin til baka sem betur fer.En Dýrfirðingar munu standa vörð um sínar dieselvélar og ekki láta af hendi þó rigni eldi og brennisteini.

« Október »
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31