A A A
  • 1981 - Brynhildur Elín Kristjánsdóttir
  • 1995 - Alexander Almar Finnbogason
  • 1996 - Margrét Unnur Borgarsdóttir
Sigurður Pétursson.
Sigurður Pétursson.
Hugmyndir um jarðgöng milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar og áfram yfir í Barðastrandarsýslu hafa lengi verið til umræðu og fyrir mörgum árum tókst að koma á samgönguáætlun fyrri hluta þeirrar framkvæmdar, jarðgöngum milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar. Dýrafjarðargöng koma í staðinn fyrir einn hæsta og hrikalegasta fjallveg landsins, Hrafnseyrarheiði, og stytta leiðina milli Ísafjarðar og Patreksfjarðar um nálægt 30 kílómetra. Þessi mikilvæga samgöngubót hefur æ ofan í æ orðið fyrir niðurskurðarhnífi framkvæmdavaldsins og verið frestað og færð afturfyrir aðrar samgöngubætur. Á meðan hefur svæðið allt liðið fyrir.

Á síðasta ári gerðist það að ríkisstjórnin sem nýlega hafði tekið við völdum, tók af skarið og ákvað að flýta gerð Dýrafjarðarganga um tvö ár, frá því sem áætlað var. Þannig áttu framkvæmdir að hefjast eigi síðar en árið 2010 og göngin verða tilbúin árið 2012. Flestir fögnuðu þessari ákvörðun og trúðu því að nú hefði sest í valdastóla fólk sem stæði við orð sín gagnvart Vestfirðingum. Ég er einn af þeim sem treysta því að svo sé.

Lengi hafa Vestfirðingar barist fyrir tryggum og öruggum samgöngum milli byggðarlaga í fjórðungnum. Meðan samgöngur á sjó voru hagkvæmasti og fljótlegasti kostur til flutninga og ferðalaga áttu Vestfirðir sitt blómaskeið með beinum samgöngum milli verslunarhafna og erlendra viðskiptaborga í Danmörku, Þýskalandi, Englandi og á Spáni. Eftir því sem ferðir fólks og flutningar færðust meir á vegakerfi landsins urðu vestfirsku fjöllin meiri faratálmi, hvort heldur farið er um háar heiðar eða meðfram bröttum hlíðum. Vestfirðir drógust afturúr öðrum landshlutum. Og þeirri þróun hefur ekki verið snúið við, þrátt fyrir áralangt pot og puð.

Ýmislegt hefur auðvitað áunnist á síðustu árum og áratugum og ber þar hæst Vestfjarðagöngin sem tengdu saman Ísafjörð og firðina í vestursýslunni. Göngin ollu byltingu á öllum sviðum mannlífsins. Fæstir vilja hugsa þá hugsun til enda hvernig umhorfs væri hér um slóðir ef ekki hefði komið þessi samgöngubót fyrir 12 árum síðan. Nú eru hafnar framkvæmdir við göng milli Hnífsdals og Bolungarvíkur sem gera mun tvo stærstu bæi Vestfjarða að einu búsetusvæði með öruggum samgöngum allt árið. Samgöngum sem sóma 21. öldinni.

Stærsti þröskuldur í samskiptum Vestfirðinga síðustu áratugi hefur verið samgönguleysi milli Ísafjarðarssýslu og Barðastrandarsýslu. Brattir, háir og snjóþungir fjallvegir voru ruddir milli fjarða á fimmta og sjötta áratugnum og þóttu mikil samgöngubót þá. Síðan eru liðnir fimm áratugir og framfarir í vegamálum orðið gríðarlegar í öllum landshlutum, nema hér. Milli Ísafjarðar og Barðastrandarsýslu er enn farið um hálfrar aldar gamla vegi sem ekki eru opnir nema fimm mánuði á ári, þegar vel vorar.

Nú ríður á að Vestfirðingar standi saman um að framkvæmdir við Dýrafjarðargöng gangi eftir einsog ákveðið hefur verið. Sveitarstjórnir á Vestfjörðum, Fjórðungssamband Vestfirðinga og þingmenn kjördæmisins hafa stutt þessa áætlun og hvergi hafa sést merki um að þessir aðilar hafi í hyggju að skipta um skoðun eða beygja af leið. Það er ekki ætlun þess sem þetta ritar og það er ekki ætlun þingmanna Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi. Hér má enginn hika, því þá gæti allt tapast. Beitum frekar afli okkar í þá átt að flýta göngunum enn meir, svo að hægt verði að aka til Hrafnseyrar við Arnarfjörð um ný göng á 200 ára afmæli Jóns Sigurðssonar 17. júní árið 2011. Það væri þjóðargjöf sem sæmdi minningu þjóðfrelsishetjunnar.

Sigurður Pétursson, bæjarfulltrúi Ísafjarðarbæ.
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31