A A A
03.01.2015 - 09:18 | Bjarni Einarsson,BIB

Ævintýrið hjá Gunnari og Ebeneser hf. 1962

Bjarni G. EInarsson.
Bjarni G. EInarsson.
« 1 af 4 »

Bjarni G. Einarsson:

     

   Haustið 1962 ók ég vöruflutningabíl hjá Gunnar og Ebeneser hf.  Mér finnst ástæða til að segja lítillega frá því ævintýri mínu. Það landskunna fyrirtæki hélt uppi vöruflutningum til Vestfjarða á þann hátt sem ekki gleymist. Þetta voru miklir dugnaðarmenn sem oft þurftu að taka á honum stóra sínum. Þeir höfðu tvo nýja frambyggða vöruflutningabíla af gerðinni Mercedes Bens, og bar Gunnar Pétursson ábyrgð á öðrum bílnum, en Ebeneser Þórarinsson á hinum.Til þess að auka nýtingu þessarra bifreiða tóku þeir sér aðstoðarökumenn þegar líða tók á haustið og færð fór að spillast. Ég hlaut það hlutverk að aka með Ebeneser,en Óskar Hálfdánarson með Gunnari. Við vorum því fjórir bílstjórar á tveim bílum.  Þetta var góður hópur manna sem sáu að bílarnir þurftu ekki næturhvíld og gátu haldið stöðugt áfram þar sem verkefni virtust næg.
   Síðar bættist þriðji bíllinn við þennan hóp af gerðinni Skanía Vabis og var eigandi hans Björn Finnbogason. Hann og bíllinn voru eitt og undrum sætti hversu lítt Bjössi þurfti að sofa. Margir héldu því beinlínis fram að hann æki oft sofandi, en áætlun hélt hann. Flaug fram með bílum sem hann mætti án nokkurra vandræða, og ekki minnist ég þess meðan ég átti þess kost að vera í þessum hópi að nokkuð truflaði ferðalög Skanía Vabis.
   Þetta voru á stundum slarksöm ferðalög og færð ekki sem best. Þá voru helstu hjálpartæki snjóskófla og haki.  Það gekk stundum hægt en munaði þó og í orðabók forustusauðanna voru engar leiðbeiningar um hvernig snúið yrði við, áætlun  var einföld og skýr. Í upphafi ferðar var markið ákveðið og þangað skyldi stefnt. Það þurfti aðeins einn til að aka bifreiðinni þegar hægt var að aka. Þá svaf aðstoðarökumaðurinn svefni hinna réttlátu við hlið hans og ungur maður þarf ekki annað en loka augunum til þess að hvílast. Þó verð ég að geta þess að það voru á þessari leið ákveðin leiðarljós sem gleymast ekki: Svarfhóll í Geiradal, Eyri í Kollafirði, Múli í Kollafirði, að ógleymdum Skálmardal í Skálmarfirði. Í minningunni er þetta einhvernveginn þannig að þarna bjó fólk sem virtist vera í því hlutverki að taka á móti Kónginum hvort sem var á nóttu eða degi. Framreiða máltíð fyrir bílstjórana og sjá þeim fyrir svefnaðstöðu. Við vorum vanir svefnpokum sem við höfðum meðferðis. Við héldum á þeim undir hendinni er gengið var til bæjar. Eftir gómsæta og vel útilátna máltíð var skriðið niður í svefnpokann og steinsofnað, sjaldan lengi, tvo til fjóra tíma. Þá ræsti húsbóndi eða húsmóðir liðið og haldið var af stað, eldhressir og afslappaðir.

Brennivín, gas og súr

Nú víkjum við sögunni að upphafi hennar og nafninu sem hún ber. Það voru tvær vörutegundir sem fastur samningur var um í þessu flutningaverkefni, annar við Áfengisverlun Ríkisins til útsölunnar á Ísafirði og hinn við Ísaga hf,um flutninga á gas og súrflöskum frá og til Ísafjarðar og nágrennis.
   Eitt sinn vorum við staddir á Ísafirði á tveim bílunum og útlit fyrir að hægt yrði að taka helgarfrí minnsta kosti einn sólarhring.  Þá kemur upp sú staða að Áfengisútsalan á Ísafirði yrði brennivínslaus þegar líða tæki á vikuna ef ekki yrði farin aukaferð eftir vínbirgðum. Það verður því að ráði þeirra félaga að Gunnar fari suður í aukaferðina og fái með sér aðstoðarökumann Ebenesers, sem var undirritaður. Þannig að helgarfrí okkar Gunnars var fyrir bí í bili. Gunnar lét sjaldan happ úr hendi sleppa.  Þegar ég kom yfir í bílinn hjá honum var hann langt kominn með að raða í botn bílsins súr og gasflöskum sem hann sagði að myndi verða besta balllest á suðurferðinni.  Við lukum við lestunina og héldum af stað.
 
Sérstaka ullin hjá Þórarni á Höfða

Á Höfða í Dýrafirði bjó þá Þórarinn Sighvatsson og var þá nokkurskonar umboðsmaður dýrfirskra bænda í sambandi við ullarmóttöku og afsetningu. Við höfðum áður komið við á Höfða og tekið ull þegar vel stóð á ferðum og pláss var í bílunum. Ullin var flutt að Álafossi í Mosfellsdal í flestum tilfellum svo þetta var alveg í leiðinni. Við renndum við á Höfða. Þá kom í ljós að Þórarinn var með sérstaklega flokkaða ull sem þurfti að flytjast öll með sama bíl og ef bíllinn væri ekki tómur mundi vera hæpið að pláss yrði nóg í honum. Við vorum með fjórar raðir af súr og gaskútum á botni bílsins og gæti hæð þess varnings verið 80-100 cm og var því nokkuð drjúgur hluti rýmisins. En við vildum láta reyna á hvort ekki væri pláss fyrir ullina og fórum að hlaða bílinn. Það gekk vel enda vaskir menn að ógleymdum Þórarni sem ekki lá á liði sínu frekar en fyrri daginn. Og ullin komst inn en það stóð tæpt. Við kvöddum Þórarinn og hann óskaði okkur góðrar ferðar.
    Segir nú ekkert sérstakt af ferð okkar fyrr en við erum á leið niður Klettshásinn í þokkalegasta veðri. Þá kemur upp í huga okkar beggja svo til á sama augnabliki: Hvert áttum við að fara með ullina? Það hafði gleymst að skrifa farmbréfið og ekki stafur um hvert farmurinn ætti að fara. Þá voru ekki komnir farsímar í bílana en í þeim voru talstöðvar og Þingeyri Radíó eitt virkasta radíó landsins. Gunnar kallar á Þingeyri Radíó og biður séra Stefán, hinn eina sanna, að athuga fyrir sig hjá Þórarni á Höfða hvert ullarfarmurinn ætti að fara. Svar kom innan stundar og var svohljóðandi : „Ullin á að fara til ullarverksmiðju KEA, Akureyri.“ Ég segi nú ekki að við höfum sprungið úr hlátri en við skemmtum okkur vel yfir þessari uppákomu og fórum að hugleiða hvernig við ættum að snúa okkur út úr þessu svo sæmilegt yrði. Aðstoðarökumaðurinn tók nú við akstrinum en Gunnar fór að kanna hvernig best væri að leysa þetta mál og til að byrja með var hugmyndin sú að fá að aflesta ullina í geymsluskúr á Hreðavatni og sinna henni svo síðar í vikunni. Þar sem við vorum í hraðferð sem leysa átti brennivínsþurrð Ísfirðinga, máttum við ekki við  miklum töfum. Þessar hugmyndir ræddum við aftur og fram og vorum ekki að velta því mikið fyrir okkur hver endanleg niðurstaða yrði. Brátt fóru að berast hrotur frá Gunnari og ljóst að hann var sofnaður og svaf vært. Mitt hlutverk var að halda bílnum á veginum  og umfram allt þokkalegum ferðahraða.
 
 
 „Við förum til Akureyrar“

Þegar ég var að ljúka klifri upp á Bröttubrekku, þá var Gunnar að losa svefninn og segir stundarhátt: „Við förum til  Akureyrar.“ Við komum að Brekku í Norðurárdal og beygðum í austurátt að Holtavörðuheiði. Gunnar tók nú við stýrinu og taldi sig hafa sofið allt of lengi, en þetta væri nú ekki lengi gert að skreppa þennan krók til Akureyrar og þegar á allt væri litið væri þetta sennilega það skynsamlegasta. Það er nú ef til vill of mikið sagt að við höfum flogið til Akureyrar en hratt fórum við og þegar ég vaknaði var stutt eftir þangað og Gunnar búinn að leysa þau vandamál sem eru samfara því að koma af sér farmi utan skikkanlegs vinnutima, enda gekk það greiðlega að losna við ullina. Okkur var ekkert að vanbúnaði, báðir þokkalega sofnir, reyndar þreyttir og svangir en slíkum smámunum reddað í snarheitum og það var vel fyrir því séð að í bílunum væri ávalt nógur matur sem grípa mætti til þegar langt var á milli hafna. Við  héldum því þegar af stað, stefnan var sett á Reykjavík. Sú ferð gekk þrautalaust og nokkru áður en við ókum inn í bæinn tók Gunnar við stjórninni  og ók viðstöðulaust að porti Ísaga á Ártúnshöfða. Það var engu líkara en þeir Ísagamenn væru að bíða eftir að Gunnar & Ebeneser hf skiluðu af sér þessum farmi. Þetta var laust eftir hádegi á sunnudegi. Kirkjuklukknahljómur ómaði um borgina og ekki nokkur vafi á því að messa skyldi nokkuð víða. Það renndi lyftari upp að bílnum ásamt nokkrum mönnum og gashylkin streymdu úr honum eins og hendi væri veifað. Við þökkuðum fljóta og frábæra afgreiðslu, kvöddum og fórum.

„Rétt að skella okkur í laugina áður en við gerum einhverja vitleysu“
 
Við höfðum herbergi á Hrísateig 1 þar sem við höfðum samastað þegar við vorum staddir í Reykjavík. Þangað fórum við og lögðum bílnum. Í næsta nágrenni er Laugardalslaugin. Gunnar segir eftir nokkra umhugsun: „Ég held að rétt sé að við skellum okkur í laugina áður en  við gerum einhverja vitleysu og hugsum síðan málið.“ Og það gerðum við.
Eftir frábæra sundlaugarferð og gufubað röltum við heim á Hrísateig 1 og settumst niður og fórum að ræða framhaldsáætlun ferðarinnar. Við þurfum að vera komnir niður á Vöruflutningamiðstöð kl. 6000 í fyrramálið til þess að athuga hvort nokkuð bíður þar af áríðandi vörum sem þurfi að komast vestur áður en við förum að hlaða víninu í bílinn en það getum við farið að gera um sjöleytið segir Gunnar. Þetta eru fastir punktar og ekki komið kvöld, heil nótt framundan og ekkert  vit í að eyða heilli nótt í að sofa. Hann fer í símann og ræðir þar við einhvern, sem síðar kom í ljós að var veitingamaður á Hótel Sögu. Hann kemur úr símanum og segir: „Nú ætla ég að bjóða þér í grísaveislu á Hótel Sögu og það er sko alvöruveisla þar sem tímanum er ekki eytt í allskonar uppákomur og rugl sem tekur kanske tvo þrjá  tima. Þarna verður étið eins og við getum í okkur látið og þarna þarf ekki samkvæmisklæðnað. Ertu ekki til í þetta?“ „Jú“, segi ég. „þá förum við og drífum þetta af. Og veislan sú er mér enn í minni, grillaðir svínaskankar með allskonar meðlæti og blákalt fjallavatn til drykkjar sannkölluð „Skátastemmning.“

Bjarni missir nöglina

   Við vorum komnir í rúmin um tíu leytið og sofnuðum strax. Við Vöruflutningamiðstöðina vorum við nokkru fyrir kl.6000 og farnir að  fást við vínið uppúr sjö. Um 7.30 er Gunnar kallaður í símann og þar var um það að ræða að Ebeneser er óvinnufær á Ísafirði vegna bakmeiðsla sem höfðu verið að að hrjá hann undanfarið og lýstu sér þannig að hryggjarsúla hans læstist með miklum kvölum og hann varð óvinnufær um stundarsakir. Nú hafði talast svo til á milli þeirra félaga að Flugfélagið Ernir myndi fara í loftið kl.8000 áleiðis til Reykjavíkur og flúga síðan strax aftur til baka. Gunnar yrði að senda aðstoðar ökumanninn með fluginu norður til þess að bjarga málinu í bili. Bíllinn var lestaður á sunnudagsköldið og beið brottfarar. Frá þessu var gengið við flugfélagið að það tæki þennan mann með norður. Ég var settur upp í leigubíl og ekið var út á flugvöll. Það var Hörður Guðmundsson sem var á flugvélinni að þessu sinni, hún var tilbúin til brottfarar og Hörður kom út að bílnum til okkar og spurði hvort ég væri með nokkurn farangur. Ég sagðist vera með bakpoka og svefnpoka og rétti honum, var stíginn út úr aftursæti bílsins og skellti hurðinni aftur með vinstri hendi en fann til verulegs sársauka í hægri  hendi. Og hún var föst við bílinn. Ég opnaði hurðina, hendin losnaði og úr henni spýttist blóð sem ekki var auðvelt að stöðva. Hörður varð þess strax var að eitthvað hefði skeð, snéri til baka og tók nú málið í sínar hendur. Hann náði til að byrja með í salernisrúllu og hugðist vefja hendina með pappír. En þegar hann gáði betur að segir hann: „Þetta gengur ekki. Upp á slysavarðstofu,“ segir hann við leigubílstjórann og við fórum inn í bílinn og brunuðum af stað. Hörður talaði við einhvern í  síma sem hann var með og lýsti aðstæðum. Þegar við komum að slysavarðstofunni, beið þar vagn á hjólum og við hann tveir menn sem hjálpuðu þeim slasaða að leggjast útaf á vagninn. Brunað var síðan inn í húsið með flugmanninn í broddi fylkingar, inn á stofu þar sem læknir og aðstoðarmaður tóku á móti okkur. Gert var að fingrinum, nöglin hafði klofnað og fremsti köggullinn mölbrotnað. Ég reis upp af dánarbeði og við Hörður gengum brosandi út, settumst upp í leigubílinn sem ók okkur á flugvöllinn. Við flugum  vestur tveir í flugvélinni og allt gekk vel .
Hörður skutlaði mér heim til Ebenesers og það var greinilegt að hann var sárlasinn, en brosti og sagði mér að þetta myndi lagast þegar liði á daginn. Við vorum komnir af stað frá Ísafirði nokkru fyrir hádegi og ferðin gekk tiltölulega vel suður. Að öðru leyti en því að við fengum sjúkrabíl á móti okkur frá Borgarnesi sem tók við Ebeneser og ók honum til Reykjavíkur. Ég hélt áfram för og kom að Vöruflutningamiðstöðinni nokkru eftir miðnætti, bakkaði bílnum að hólfinu okkar, stöðvaði hreyfilinn, lagðist útaf og steinsofnaði. Svaf til nærri sex og vaknaði við að starfsmenn voru að mæta til vinnu.
 
Bjarni G. Einarsson 
Þingeyri
« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31