Vestfjarðavíkingurinn hefst á morgun
Magnús býst við hörkukeppni í ár um efstu sætin. Stefán Sölvi Pétursson mætir aftur til leiks en hann var meiddur á síðasta ári. Stefán Sölvi hefur verið einn sterkasti aflraunamaður landsins og unnið keppnina um Vestfjarðavíkinginn mörgum sinnum. Hefur hann nú þegar unnið keppnisrétt í Sterkasta manni heims. Hafþór Júlíus Björnsson ætlar ekki að gefa neitt eftir enda á hann titil að verja, en hann vann keppnina í fyrra. Hafþór stefnir að því að ná keppnisrétti í Sterkasta manni heims er hann keppir á móti erlendis um mánaðamótin.
Magnús segir mótið vinsælt hjá aflraunarmönnum. „Víkingurinn er kadillakkinn okkar sem stunda aflraunakeppnir. Þetta er frægasta mótið, skemmtilegt og alltaf er ákveðin bragur á því. Svo skemmir ekki fyrir að okkur er alltaf vel tekið fyrir vestan."
Upplýsingar um dagskrá mótsins má finna á heimasíðunni vöðvafíkn.net.