A A A
  • 68 - Valdimar Gestur Hafsteinsson
  • 1979 - Urður Skúladóttir
  • 1989 - Guðmundur Jónsson
21.06.2015 - 11:07 | Lýður Árnason

Vér mótmælum öll, eða hvað?

Lýður Árnason.
Lýður Árnason.

Fleinn þessarar þjóðar kom berlega í ljós á Austurvelli þjóðhátíðardaginn. Hávær mótmæli yfirkeyrðu ræðu forsætisráðherra og Jón Sigurðsson, mótmælandi Íslands, stóð í millum. Eflaust hefur hann hugsað: Hvort er nú meiri óvirðing við lýðveldið, hávaðinn fyrir aftan mig eða ræðan fyrir framan mig?

Að yfirgnæfa hátíðahöld er vissulega óvirðing. En í því felst líka ákveðin yfirlýsing, fratyfirlýsing. Jón Sigurðsson valdi þjóðfundinn sem vettvang enda vöktu mótmæli hans athygli og voru skerpandi. Af sömu ástæðu völdu mótmælendur núsins einmitt þennan dag og þessa stund. 

Jón Sigurðsson taldi þáríkjandi yfirvöld sýna yfirgang og hundsa vilja Íslendinga í eigin landi. Mótmælendur dagsins telja að sama skapi núríkjandi yfirvöld sýna yfirgang og hundsa vilja meirihlutans í eigin landi. Vísast er stjórnarskrármálið þar sem yfirgnæfandi meirihluti þjóðarinnar lagði blessun sína yfir nýjan þjóðarsáttmála í þjóðaratkvæðagreiðslu. Sá þjóðarvilji hefur verið algerlega vanvirtur og málið nú í allt öðrum farvegi en til stóð. 

Jón Sigurðsson taldi þáríkjandi yfirvöld stjórna landinu í þágu Dana, ekki Íslendinga. Mótmælendur dagsins telja að sama skapi núríkjandi yfirvöld stjórna landinu í þágu þrönghagsmuna, ekki heildarhagsmuna. Þetta sést best á því að á sama tíma og stjórnvöld setja lög á verkföll afsala þau sér tugmilljarða tekjum og forgangsraða arði fiskimiðanna til stórútgerðarinnar. 

Jón Sigurðsson taldi þáríkjandi stjórnvöld standa framförum fyrir þrifum og vildi nýja hugsun fyrir Ísland. Mótmælendur dagsins telja að sama skapi stjórnmálamenn á Íslandi fasta í úreltri hugmyndafræði hægrisins og vinstrisins og vilja sjá róttækar stjórnkerfisbreytingar sem færa landið inn í nútímann með virkari þátttöku þegnanna. 

Ræða forsætisráðherra á þjóðhátíðardaginn var lofgjörð til kyrrstöðunnar. Fagurgali um það að við séum á réttri leið. Klukkustundu síðar gellur farsíminn og einhverjum hrósað fyrir frábæra ræðu og spurður í leiðinni hvort menn ætli ekki að standa í lappirnar með makrílfrumvarpið.

Erum við að nenna þessu?

 

Lýður Árnason.

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31