A A A
11.04.2018 - 10:35 | Vķkingafélagiš į Žingeyri

Uppbygging vķkingatengdrar feršažjónustu į Žingeyri

Nýverið hélt Víkingafélagið á Þingeyri, Félag áhugamanna um víkingaverkefni á söguslóðum Gísla Súrssonar, opinn fund um málefni víkingatengdrar ferðaþjónustu sem og aðalfund félagsins. Víkingafélagið var upphaflega stofnað til að standa vörð um Víkingasvæðið á Þingeyri, en ráðist var í uppbyggingu á því svæði að frumkvæði íbúa Þingeyrar í samstarfi við Atvinnuþróunarfélagið og Ísafjarðarbæ á árunum 2003-2006. Markmiðið verkefnisins var að styrkja atvinnulíf í þorpinu og tengja það við ríka sögu svæðisins, landnámstímann og Gísla sögu Súrssonar. 

Viðhald í höndum sjálfboðaliða sökum fjárskorts
Verkefnið gekk vel framanaf og var fjármagni veitt í uppbyggingu og viðhald svæðisins auk þess sem íbúar unnu að verkefninu í sjálfboðavinnu. Í kjölfar bankahrunsins 2008 gekk erfiðlega að fá fjármagn til viðhalds á svæðinu frá opinberum aðilum og hefur rekstur þess fallið alfarið á Víkingafélagið sem síðustu ár hefur unnið í sjálfboðavinnu við þrif og viðhald. Svæðið er í dag nýtt sem útivistarsvæði fyrir heimamenn jafnt sem erlenda ferðamenn og er m.a. algengt að rútur stoppi þar á leið sinni með erlenda ferðamenn yfir að Dynjanda. 

Nýjum glæðum blásið í verkefnið
Á Íbúaþingi sem haldið var í mars vegna verkefnisins „Öll vötn til Dýrafjarðar“, en það tilheyrir verkefnaröð Byggðastofnunnar um brothættar byggðir, fékk Víkingafélagið aftur byr í seglin þar sem ein af málstofum þingsins vann hugmyndavinnu fyrir víkingatengda ferðaþjónustu á svæðinu. Opni fundurinn sem nýverið var haldinn er því eðliegt framhald þeirrar vinnu en þar kom fram að markmiðið er að Víkingasvæðið verði eitt af einkennum Þingeyrar sem laðar að gesti alls staðar að úr heiminum. Á aðalfundi félagsins var ný stjórn kosin en hana skipa  Borgný Gunnarsdóttir, Ketill Berg Magnússon, Rakel Brynjólfsdóttir, Róbert Daníel Kristjánsson og Sonja Thompson. Varamenn eru Marsibil G Kristjánsdóttir og Níels Friðrik Harbo. 

Skipulagður vinnudagur framundan
Í kjölfar erfiðrar fjárhagsstöðu félagsins síðastliðin ár hafa viðhaldsverkefni tengd svæðinu hlaðist upp og ljóst er að Víkingasvæðið þarfnast umtalsverðar uppliftingar. Á fundi félagsins var lagt til að ráðast í framkvæmdir fyrir Dýrafjarðardaga 2018 og lagt til að skipulagður vinnudagur verði haldinn 9. júní þar sem öllum þeim sem vettlingi geta valdið er boðið að koma og leggja hönd á plóginn. Öllum þeim sem vilja er boðið að taka þátt með leik og gleði að leiðarljósi og verður grillveisla haldin í lok dags fyrir þátttakendur. Vinnudagurinn verður nánar auglýstur síðar. 
 
 
« Febrśar »
S M Ž M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29