A A A
  • 1966 - Ólafur Kristján Skúlason
11.03.2017 - 08:14 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Þuríður Pálsdóttir söngkona – 90 ára

Þuríður Pálsdóttir.
Þuríður Pálsdóttir.
« 1 af 3 »

Í hópi frumkvöðla í söngkvennastétt

 

Þuríður Pálsdóttir fæddist í Reykjavík að Bergstaðastræti 50, yngsta barn foreldra sinna Kristínar Norðmann og Páls Ísólfssonar. „Ég er alin upp fyrir austan læk, að undanskildum nokkrum misserum í Skerjafirði,“ segir Þuríður í ævisögu sinni, Líf mitt og gleði, sem Jónína Michaelsdóttir skráði og kom út 1986.

 

Þuríður var í sveit sem unglingur á Arnbjargarlæk. „Þessi tvö sumur eru einhver yndislegasti tími sem ég hef lifað,“ segir Þuríður.

Eiginmaður hennar var Örn Guðmundsson viðskiptafræðingur. Móðir Þuríðar, sem var þekktur bridsspilari, sagði henni fyrst frá tilvist hans: „Ég tapaði af því að Árni Matt var með nýjan makker mjög efnilegan.“ Hún gat ekki vitað að einkadóttir hennar ætti eftir að fá þennan efnilega spilamann fyrir „makker í öðru spili og mikilvægara“, segir Þuríður. Hún missti móður sína sextán ára gömul. Mjög kært var með Níní, eins og Þuríður er jafnan kölluð af nákomnu fólki, og bræðrum hennar Nonna (Jóni) og Nenna (Einari) enda á líkum aldri.

 

Þuríður fékk snemma áhuga á söng. „Amma mín og nafna hafði snemma orð á því að ég hefði fallega rödd,“ segir hún. „„Alltaf vill þessi Níní vera að syngja,“ sagði æskuvinkona mín.“

 

Þuríður hefur verið einsöngvari frá 1948. Hún stundaði söng- og tónlistarnám á Ítalíu á sjötta áratugnum hjá Luigi Algergoni og Linu Pagliughi. Hún lauk tónmenntakennaraprófi frá Tónlistarskólanum í Reykjavík 1967 og stundaði nám í píanóleik og óperuleik. Þuríður var í hópi frumkvöðla í söngkvennastétt hér og söng fjölmörg óperuhlutverk, hélt fjölda einsöngstónleika, stjórnaði Árnesingakórnum í Reykjavík og var yfirkennari Söngskólans frá stofnun hans 1973 þar til hún lét af störfum fyrir aldurs sakir.

 

Þuríður var formaður Félags íslenskra einsöngvara um árabil og sat í Þjóðleikhúsráði frá 1978 og varð formaður þess 1983. Hún var varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík 1991 til 1995. Þuríður var sæmd riddarakrossi fálkaorðunnar 1982, Cavalieri dell Ordine Al Merito della Repubblica Italiana 1987; Silfurmerki Félags íslenskra leikara og hlaut einnig viðurkenningu frá Íslensku óperunni fyrir þrjátíu ára starf á óperusviði 1983.

 

Fjölskylda

Þuríður giftist í janúarlok 1946 Erni Guðmundssyni, f. 1921, d. 1987 framkvæmdastjóra. Hann var sonur Guðmundar Finnbogasonar landsbókavarðar, f. 1873, d. 1944 og k.h. Laufeyjar Vilhjálmsdóttur, kennara og húsmóður, f. 1879, d. 1960.

 

Börn Þuríðar og Arnar eru: 1) Kristín, f. 1946, fyrrverandi starfsmaður á Biskupsstofu, gift Hermanni Tönsberg, fyrrverandi framkvæmdastjóra. Þau eiga börnin Einar tónlistarmann, Þuríði lögfræðing, Ingibjörgu, Ernu alþjóðastjórnmálafræðing og Örn myndlistarmann. 2) Guðmundur Páll Arnarson f. 1954, bridskennari. Hann er kvæntur Guðrúnu Guðlaugsdóttur blaðamanni. Hann á soninn Jónas, óperusöngvara í Þýskalandi, og stjúpbörnin Ragnheiði háskólakennara, Ásgerði óperusöngkonu, Móeiði kennara, Kristin og Guðlaug tónlistarmenn og Sigríði Elísabetu, nema í tölvunarfræði. 3) Laufey, f. 1962, kennari. Hún er gift Birni Kristinssyni efnafræðingi. Þau eiga börnin Kristin Örn, mastersnema í verkfræði, og Helgu Sóleyju framhaldsskólanema.

 

Systkini Þuríðar: Jón Norðmann, f. 1923, d. 1993, yfirskoðunarmaður hjá Flugleiðum; Einar, f. 1925, d. 1996, leikari, skólastjóri og fræðimaður; Anna Sigríður, prestur og ráðgjafi, f. 1946, dóttir Páls og síðari konu hans, Sigrúnar Eiríksdóttur, f. 1911, d. 1990. Dætur Sigrúnar og Heinrichs Durr og stjúpsystur Þuríðar: Hjördís, f. 1934, Erla, f. 1935 og Hildegard, f. 1938, d. 2012.

 

Foreldrar Þuríðar voru Páll Ísólfsson, tónskáld og organisti, f. 1893, d. 1974 og Kristín Norðmann píanókennari, f. 1898, d. 1944.

Morgunblaðið 11. mars 2017.




« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30