A A A
  • 1975 - Ţuríđur Steinarsdóttir
  • 1991 - var golfklúbburinn Gláma stofnađur
10.04.2017 - 20:37 | Björn Ingi Bjarnason,Morgunblađiđ,Vestfirska forlagiđ

Ţrjátíu ár í fréttaharki - Sigurjón Jóhann Sigurđsson, fyrrv. ritstjóri BB – 60 ára

« 1 af 2 »
Sigurjón Jóhann Sigurðsson fæddist á Ísafirði 10.4. 1957 þar sem hann ólst upp og býr enn.

Að námi loknu starfaði Sigurjón hjá Íshúsfélagi Ísfirðinga. Síðan tók hann við starfi skrifstofustjóra hjá Vélsmiðjunni Þór á Ísafirði þar sem hann starfaði í níu ár eða þar til hann og skólabróðir hans, Halldór Sveinbjörnsson, stofnuðu blaðið Bæjarins besta. Fyrsta eintakið af því kom út 14.11. 1984, sem auglýsinga- og dagskrárblað, en 1.6. árið eftir var það gert að fréttablaði og fyrsti blaðamaður þess ráðinn. Samhliða stofnuðu þeir Halldór prentsmiðjuna H-prent sem þeir ráku til ársins 2013.

Sigurjón ritstýrði Bæjarins besta og fréttavefnum bb.is, allt þar til hann seldi reksturinn og nýr eigandi tók við 1.8. 2015.

Samhliða útgáfu Bæjarins besta og bb.is, gáfu Sigurjón og Halldór út ferðablaðið Á ferð um Vestfirði sem síðar fékk nafnið Vestfirðir auk þess sem hann hefur sinnt fréttaritarastarfi fyrir Morgunblaðið og mbl.is frá árinu 1985: ,,Þetta var mjög ánægjulegur tími en á köflum einnig mjög erfiður. Ánægjulegur að því leyti að maður kynntist mjög mörgum á þeim ríflega þrjátíu árum sem ég gaf blaðið út en erfiður á þeim tímum þegar mikil áföll skóku samfélagið í fjórðungnum. Í heild er ég þó sáttur við það sem við Halldór náðum að gera í oft mjög erfiðu rekstrarumhverfi.“

Árið 2014 gaf Sigurjón út bókina Húsin í bænum í samstarfi við Sigurð Pétursson sagnfræðing og Bókaútgáfuna Skruddu. Bókin hefur að geyma sögu á annað hundrað húsa á Ísafirði ásamt myndum af húsunum.

Eftir að Sigurjón hætti á BB, stundaði hann íhlaupavinnu um eins árs skeið en frá því í haust hefur hann verið vaktstjóri á vaktstöð Vegagerðarinnar á Ísafirði.

Sigurjón hefur frá barnæsku haft mikinn áhuga á ljósmyndun, er enn að og á orðið mikið safn ljósmynda frá Vestfjörðum og víðar. Þá hefur hann stundað golf í hátt í tvo áratugi þótt aðeins hafi dregið úr iðkuninni síðustu ár: ,,Eiginkonan heldur mér við efnið en golfið er mikið áhugamál hjá henni. Mér veitir heldur ekkert af hreyfingunni og útiverunni.“

Sigurjón verður í Reykjavík á afmælisdaginn og hyggst gera sér dagamun þar ásamt þeim hluta fjölskyldunnar sem þar er: ,,Síðan verður haldið vestur aftur til vinnu yfir páskana. Að þeim loknum verður stutt ferð til Berlínar ásamt vinnufélögum eiginkonunnar en í haust er ráðgerð ferð með hluta af 1957 skólaárganginum til Spánar. Við fórum saman í siglingu með skemmtiferðaskipi um Miðjarðarhafið árið 2007, þegar við vorum fimmtug, og ákváðum að fara aftur að tíu árum liðnum. Nú er komið að því!“

 

Fjölskylda

Eiginkona Sigurjóns er Oddný Bára Birgisdóttir, f. á Ísafirði 4.4. 1958, tækniteiknari hjá Orkubúi Vestfjarða. Foreldrar Oddnýjar Báru eru Birgir Breiðfjörð Valdimarsson, f. í Aðalvík 30.7. 1934, fyrrv. útgerðarmaður og umsjónarmaður Fasteigna Ísafjarðarbæjar, og k.h., María Erla Eiríksdóttir, f. í Keflavík, 16.8. 1936, fyrrverandi verslunarmaður og húsfreyja. Þau eru búsett á Ísafirði.

Börn Sigurjóns og Oddnýjar Báru eru 1) Sæunn Sigríður, f. 21.11. 1977, starfsmaður á leikskóla en hennar maður er Steingrímur Rúnar Guðmundsson, verslunarstjóri Pennans á Ísafirði og dætur þeirra eru Svava Rún, f. 2002, Elma Katrín, f. 2006, og Hildur Lóa, f. 2012; 2) Birgir Örn, f. 1.9. 1981, hönnuður í Reykjavík en börn hans eru Alexander Örn, f. 1998, og Margrét Bára, f. 2006; 3) Kristín Ósk, f. 10.9. 1992, MS í mannauðsstjórnun og starfsmaður í einstaklingsþjónustu Íslandsbanka í Reykjavík en sambýlismaður hennar er Haukur Örn Gunnarsson, flugmaður hjá Icelandair.

Systir Sigurjóns er Sigurða, f. 19.4. 1961, fyrrv. bankastarfsmaður í Reykjavík.

Foreldrar Sigurjóns eru Sigurður Jóhann Jóhannsson, f. í Bolungarvík 12.12. 1934, fyrrv. bankastarfsmaður, og Sæunn Sigríður Sigurjónsdóttir, f. í Hnífsdal 25.6. 1936, fyrrv. bankastarfsmaður. Þau eru búsett í Kópavogi.

Morgunblaðið 10. apríl 2017.

 

 

 

« Apríl »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30