Þórður Viggó Guðnason - Fæddur 24. maí 1917 - Dáinn 18. jan. 2017 - Minning
Foreldrar hans voru Guðni Vilhjálmur Bjarnason, vélsmiður, f. 13. ágúst 1891, d. 22. nóvember 1918, og Mikkalína Sturludóttir, húsfreyja, f. 21. september 1894, d. 20. júlí 1982. Stjúpfaðir Þórðar var Óskar Jónsson, sjómaður og útgerðarmaður frá Fjallaskaga í Dýrafirði, f. 16. nóvember 1897, d. 6. maí 1971. Alsystir Þórðar var Ólafía Verónika, f. 15. apríl 1914, d. 23. desember 1989, og hálfsystur Anna Jens´s, f. 17. ágúst 1921, d. 2. mars 2016, og Margrét Jensína, f. 21. júlí 1931, Óskarsdætur.
Þann 30. desember 1950 kvæntist Þórður Ragnheiði Tryggvadóttur, deildarstjóra, f. 26. mars 1929. Foreldrar hennar voru Tryggvi Jónsson frá Fjallaskaga í Dýrafirði, f. 18. maí 1895, d. 10. nóvember 1971, og Margrét Eggertsdóttir frá Kleifum í Seyðisfirði, f. 28. desember 1897, d. 17. október 1991.
Börn Þórðar og Ragnheiðar eru:
1) Tryggvi Þórðarson, vatnavistfræðingur. Dóttir hans og Kristínar Pétursdóttur, kennara, f. 22. desember 1952, er Dagbjört, upplýsinga- og bókasafnsfræðingur, f. 19. júní 1979. Maki Dagbjartar er Bjarni Helgason, grafískur hönnuður, f. 9. apríl 1977, og eiga þau tvö börn. Maki Tryggva er Helga Ingibjörg Guðmundsdóttir, sjúkraþjálfari, f. 9. ágúst 1954. Þeirra börn eru: Þórður, háskólanemi, f. 17. ágúst 1991, og Jóhanna Sólveig, háskólanemi, f. 25. júlí 1993.
2) Lína Margrét, viðskiptafræðingur, f. 22. maí 1955. Maki Línu var Sigtryggur Jónsson, viðskiptafræðingur, f. 9. júní 1954, d. 24. apríl 2010. Börn þeirra eru: a) Kristín, lögfræðingur, f. 15. júlí 1978. Maki hennar er Timothy Pellittiere, lögfræðingur, f. 30. ágúst 1973. Þau eiga eitt barn. Fyrir átti hún eitt barn og hann fjögur. b) Þórður, stjórnmálafræðingur, f. 25. febrúar 1980. Maki hans er Tara Flynn, hugbúnaðarverkfræðingur, f. 5. ágúst 1978. Þau eiga þrjú börn. c) Ragnheiður, líffræðingur og verkefnastjóri, f. 19. mars 1981. Maki hennar er Cory Allen Bussey, lánamiðlari, f. 17. ágúst 1977. Þau eiga tvö börn.
Þórður ólst upp á Þingeyri.
Fjórtán ára flutti hann til Hafnarfjarðar með fjölskyldu sinni. Hann lærði rennismíði í Hamri hf. og lauk meistaraprófi frá Iðnskólanum í Reykjavík. Hann vann hjá Rafha í Hafnarfirði og stofnaði vélsmiðjuna Hrímni þar í bæ með Bror Westerlund. Hann vann einnig um árabil sem verkstjóri á verkstæði sænska frystihússins.
Árið 1952 byggði hann verkstæðishús á Álfhólsvegi 22 í Kópavogi og rak þar vélsmiðju Þórðar Guðnasonar allt þar til hann lét af störfum 88 ára. Auk almennra verkefna við málmsmíði vann hann þar að ýmiss konar framleiðslu auk innbrennslu og herslu stáls. Um skeið rak hann einnig nælonhúðunarfyrirtæki á sama stað. Vesturendi verkstæðishússins varð heimili fjölskyldunnar allt frá 1954.
Eftir að Þórður hætti störfum fluttu þau hjónin á Skógarsel 43 í Reykjavík.
Útförin fer fram frá Kópavogskirkju í dag, 1. febrúar 2017, klukkan 13.
________________________________________________________________
Minningarorð:
Helga I. Guðmundsdóttir
Þann 18. janúar kvaddi tengdafaðir minn, Þórður Guðnason, tæplega 100 ára að aldri og trúi ég að hann hafi orðið hvíldinni feginn eftir langa ævi. Þrátt fyrir háan aldur fannst mér hann aldrei gamall maður fyrr en síðustu tvö árin sem hann lifði.
Þórður var meðalmaður á hæð, glæsilegur, svipfallegur, dökkur yfirlitum og hafði rólyndislegt yfirbragð. Hann var alla tíð grannur og spengilegur og var mikið snyrtimenni jafnt með sjálfan sig og umhverfi sitt.
Hann hafði einstakt jafnaðargeð og aldrei sá ég hann skipta skapi. Við áttum samleið hátt í fjóra áratugi og bar aldrei skugga á samskipti okkar enda var erfitt að láta sér ekki lynda við Þórð.
Þegar ég kynntist Þórði rak hann fyrirtæki sitt, Vélsmiðju Þórðar Guðnasonar, sem sambyggð var heimili fjölskyldunnar í Kópavogi. Alla tíð man ég hann sívinnandi með brennandi áhuga á verkefnum sínum og oft held ég hann hafi verið feginn að hafa heimilið svona nálægt, því þá var hægt að vinna dálítið lengur frameftir.
Hann var svo heppinn að geta starfað til 88 ára aldurs og jafnvel þá var hann ekki alveg tilbúinn til þess að hætta að vinna.
Þótt hann ynni mikið var Þórður á undan sinni samtíð að því leyti að hann tók alltaf þátt í heimilisstörfum og eldamennsku á heimilinu, sem þótti óvenjulegt á þeim tíma. Þóttist ég heppin að eignast mann sem hafði haft svona fyrirmynd í æsku sinni.
Þau hjón, hann og Ragnheiður áttu unaðsreit við Gíslholtsvatn í Holtum þar sem þau nutu þess bæði að stunda skógrækt af mikilli ástríðu. Þar fékk hann útrás fyrir náttúrubarnið í sér og undi sér hvergi betur en þar við að planta trjám og sinna gróðri meðan heilsan leyfði. Einnig þar var vinnusemin og snyrtimennskan í fyrirrúmi og bar sumarbústaðurinn og umhverfi hans þess glöggt vitni.
Það var alltaf fallegt samband milli tengdaforeldra minna, Þórðar og Ragnheiðar, þótt þau væru ólík í eðli sínu, hún mikil félagsvera en hann sjálfum sér nógur og líkaði alltaf vel að vera einyrki. Þau voru afar samhent og gagnkvæm væntumþykja var augljós.
Sýndi það sig best þegar Þórður þurfti að flytjast á hjúkrunarheimili fyrir ári síðan hve erfitt Ragnheiði fannst að geta ekki annast hann sjálf.
Ég kveð tengdaföður minn með virðingu og þakklæti.
Helga I. Guðmundsdóttir.
Morgunblaðið miðvikudagurinn 1. febrúar 2017.