A A A
  • 1954 - Gunnhildur Björk Elíasdóttir
  • 2009 - Katrín Júlía Helgadóttir
15.04.2017 - 06:47 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Björn Ingi Bjarnason

Svefninn er dauðans bróðir

Vögnu Sólveigu Vagnsdóttur, trélistakonu á Þingeyri, hefur dreymt fyrir veðrinu fyrir vestan síðustu fimm vetur Hún segir drauma segja okkur margt, ekki síst um dauðann, sem hún óttast ekki.

Vagna Sólveig Vagnsdóttir er með vott af flensu þegar ég slæ á þráðinn til hennar og er fyrir vikið heima en ekki á elliheimilinu á Þingeyri eins og gjarnan á mánudögum. Spurð hvaða erindi hún eigi þangað er Vagna Sólveig snögg til svars, að vanda. »Það er svona leikskóli fyrir okkur gamla fólkið. Það er nauðsynlegt að passa okkur svo við förum okkur ekki að voða,« segir hún og hlær þessum dillandi hlátri sem margir útvarpshlustendur þekkja svo vel. »Annars er þetta alveg ágætis félagsskapur, þarna á elliheimilinu, alla vega þegar liggur vel á fólkinu. Lífið er svo skrýtið, maður. Við fæðumst sem ósjálfbjarga barn og deyjum sem stórt ósjálfbjarga barn. Þess á milli göngum við á fjallið; erum heillengi að komast á toppinn en þeim mun fljótari niður.«

 

Hún segir manneskjuna alla jafna »toppa« á aldursbilinu 55 til 60 ára. »Lengi vel bíðum við eftir því að tíminn líði en þegar komið er á minn aldur hleypur hann á undan manni,« segir Vagna Sólveig.

 

Hún er orðin rúmlega áttræð og gerir sér grein fyrir því að hún verður ekki eilíf, alltént ekki á þessu tilverustigi. »Íslendingar þurfa að fara að ræða meira um dauðann og lífið. Ég finn að ég lít allt öðruvísi á þetta en aðrir. Þegar ég dey er ástæðulaust fyrir fólk að gráta; það á þvert á móti að gleðjast yfir því að ég sé komin á þann stað sem ég á að vera. Það er gangurinn. Þetta á vitaskuld ekki við um fólk sem deyr fyrir aldur fram en þegar fólk er orðið lúið og jafnvel veikt er léttir að það skuli fá að fara. Hvað segir í vísunni: Skyldi maður verða leiður á því til lengdar að vera til?«

 

Veit að eitthvað tekur við

 

Hún segir þetta alla vega eiga við um fólk sem trúir. Og sjálf efast Vagna Sólveig ekki. »Ég veit að eitthvað tekur við,« segir hún og vitnar í Tómas skáld Guðmundsson máli sínu til stuðnings:

 

Tilvera okkar er undarlegt ferðalag.

 

Við erum gestir og hótel okkar er jörðin.

 

Einir fara og aðrir koma í dag

 

því alltaf bætast nýir hópar í skörðin.

 

Ekki svo að skilja að það sé fararsnið á okkar konu. »Auðvitað getur maður farið hvenær sem er en ég er enn þá þokkaleg til heilsunnar og get gengið úti. Annars er best fyrir okkur gamla fólkið að halda okkur inni á veturna - eins og beljurnar.«

 

Hún hlær.

 

Hafandi sagt það þá hefur veturinn verið óvenjuléttur við Dýrafjörð. »Aldrei slíku vant er enginn snjór, bara í fjallinu, og sól nánast á hverjum einasta degi. Við höfum varla fundið fyrir vetri. Það mætti þess vegna fara að hleypa beljunum út. Og gamla fólkinu.«

 

Annars segir hún Þingeyri búa við mikla veðursæld. »Þegar það er rok í Önundarfirði er bara logn hérna. Samt skilur bara eitt fjall okkur að. Það er heldur engin snjóflóðahætta hér vegna þess að við byggjum ekki á skriðu. Það munar miklu. Ég veit ekki hvort það er tilviljun eða hvort þeir sem settust hér að í upphafi gerðu sér grein fyrir þessu.«

 

Mikilvægt að flokka rusl

 

Talið berst að hlýnun jarðar og Vagna Sólveig er sannfærð um að hún skrifast ekki á okkur mannfólkið. »Það er bara náttúran sem ræður þessu. Af hverju þarf að vera snjór hjá okkur en ekki í Reykjavík? Náttúran ræður því og við mennirnir höfum ekkert um það að segja.«

 

Hún segir loftslagsumræðuna þó af hinu góða og sitthvað gott af henni hlotist. »Það er til dæmis upplagt að flokka rusl. Sjálf geri ég það niður í ekki neitt. Það er allt of miklu hent í sjóinn og það þurfum við að laga. Svo notum við upp til hópa allt of mikið þvottaefni. Það á ekki að gera svona! Okkur ber að ganga vel um Móður jörð, óháð hlýnun.«

 

Veðurfarið hefur raunar ekki komið Vögnu Sólveigu í opna skjöldu undanfarin ár. Hún er nefnilega berdreymin og í fimmta skipti dreymdi hana fyrir veðrinu í vetur síðasta haust. »Mig dreymir venjulega fyrir veðrinu í september og margir geta vitnað um það. Síðast dreymdi mig þrjár kindur. Ein var svört og rosalega stór og táknaði veðrið fram að jólum. Önnur var skræpótt eins og jörðin er núna og í þriðja lagi dreymdi mig lítið hvítt lamb sem var fyrir þeim litla snjó sem þó hefur komið.«

 

Hún segir drauma geta verið vísbendingu um margt í þessum heimi, ekki síst dauðann. »Svefninn er dauðans bróðir, er gjarnan sagt. Það þýðir að svefninn virkar á svipaðan hátt og dauðinn. Við erum ekki efnisverur í draumum okkar; það tekur enginn á manni. Og hvað ef mig dreymir þig? Er þig þá líka að dreyma mig? Svona er hægt að velta þessu fyrir sér, fram og til baka. Líkaminn er auðvitað bara hylki sem lýkur á endanum sínu hlutverki en sálin heldur áfram.«

 

Finnur fyrir framliðnum

 

Vagna Sólveig kveðst líka finna fyrir fólki sem yfirgefið hefur þetta tilverustig; meira að segja fólki sem hún sá aldrei í lifanda lífi. »Fólk er á svo mörgum tilverustigum. Það getur verið fullt af fólki, jafnvel heilu samfélögin, í kringum okkur án þess að við skynjum það. Og það skynji okkur.«

 

Talið berst að veraldlegri málum, eins og viðhorfinu til eldri borgara þessa lands. »Ég hef ekki undan neinu að kvarta en það eru ekki allir eins og ég. Það er skárra hér en ég held að maturinn sem eldri borgurum er boðið upp á í Reykjavík sé óttalegt rusl; sama með aumingja sjúklingana á spítölunum. Ég lá einu sinni í viku á Landspítalanum í Fossvogi og gat ekki með nokkru móti komið matnum þar niður. Þegar ég bað um annað kom eitthvað enn þá verra sem ég kann ekki einu sinn að nefna á nafn. Það endaði með því að ég fékk mér bara samloku. Sjúkrahús þessa lands eru eins og frystihús og maturinn kemur á færibandinu.«

 

Mikil völd fjölmiðla

 

>Vagna Sólveig hefur verið dugleg að láta í sér heyra gegnum tíðina; hringir reglulega í Útvarp Sögu og Bylgjuna, auk þess að vera fastagestur í Næturvaktinni á Rás 2, og miðlar sinni sýn á lífið og tilveruna. »Það er mikið rifrildi um Útvarp Sögu en á heildina litið er umræðan þar í góðu lagi,« segir Vagna Sólveig en segir suma þó mega vanda orð sín betur, sérstaklega í garð fólks sem glímir við veikindi eða er í yfirþyngd. Taki þeir til sín sem vilja!

 

Vagna Sólveig fylgist grannt með þjóðmálunum og þykir fjölmiðlar þessa lands ganga fullharkalega fram gagnvart Alþingi. »Þeir eru hræðilegir í sambandi við þessar skoðanakannanir; menn fá aldrei vinnufrið í þinginu. Nýja ríkisstjórnin er nýtekin við og fjölmiðlar eru strax farnir að ýta undir þingrof, þar sem tveir af stjórnarflokkunum mælast með svo lítið fylgi í könnunum. Þetta nær ekki nokkurri átt. Það eru fjölmiðlar sem ráða því hverjir eru við völd á Íslandi, sérstaklega ljósvakamiðlarnir.«

 

>Hún fylgist mikið með útsendingum frá þinginu og kallar eftir fólki sem sópar meira að. »Þegar fólk tekur sæti á Alþingi er því kennt hvernig það á að haga sér. Mér finnst það óþarfi; þingmenn eiga að ráða hvað þeim finnst og hvað þeir segja, svo lengi sem þeir meiða ekki aðra. Annars verður aldrei hægt að hafa þing sem allir eru sammála um. Til þess eru skoðanir fólks of ólíkar. Að mínu mati eru stærstu mistök stjórnmálamanna þau að lofa of miklu. Menn eiga ekki að segja: Ég lofa að gera þetta! Heldur: Ég skal reyna eftir bestu getu að gera þetta! Það er raunhæfara og þannig valda menn ekki eins miklum vonbrigðum. Það hafa margir rekið sig á það, þegar þeir koma inn á þing, að þeir ráða ekki eins miklu og þeir héldu. Stjórnmál snúast að miklu leyti um málamiðlanir.«

 

Sigmundur Davíð ber af

 

Þá segir hún allt of mikinn tíma fara í að deila um keisarans skegg á Alþingi, undir liðnum »fundarstjórn forseta«. »Það eru allt of fáir á þingi sem fólk hlustar á og væri Alþingi fyrirtæki væri búið að segja ansi mörgum upp störfum. Þeir þurfa að vísu að svara fyrir störf sín á fjögurra ára fresti - en fjögur ár er langur tími.«

 

>Vögnu Sólveigu þykir einn maður bera af öðrum í þinginu - Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Framsóknar. »Hann er eini maðurinn sem stendur með þjóðinni og er tilbúinn að vinna fyrir hana. Það hefur margsýnt sig. Sumir eru lengi að snúa sér við, aðrir fljótir. Hann reyndist hins vegar öðrum stjórnmálamönnum erfiður meðan hann var forsætisráðherra, vildi til dæmis aflétta leynd af leynigögnum vinstristjórnar Steingríms og Jóhönnu, og menn vildu koma honum frá. Þess vegna var farið að skoða þessi peningamál hans. Gleymum því ekki að þeir sem stungu hann í bakið áttu líka peninga. Við þurfum að koma Sigmundi Davíð inn næst sem forsætisráðherra og best væri auðvitað að flokkur hans fengi hreinan meirihluta. Í sögulegu samhengi er það þó ekki líklegt. Annars væri allra best að fá mann eins og Donald Trump. Hann er að gera rétt og stendur við það sem hann segir.«

 

Morgunblaðið 15. apríl 2017.

 

 

« Nóvember »
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30