A A A
  • 1960 - Ragnar Gunnarsson
  • 1993 - Guđbjartur Sigurđur Konráđsson
„Best ađ drífa sig í heyskapinn.“ Teikning Ómar Smári Kristinsson.
„Best ađ drífa sig í heyskapinn.“ Teikning Ómar Smári Kristinsson.
Örstuttur kafli úr bókinni Fyrir miðjum firði eftir Jón Hjartarson, fyrrum fræðslustjóra.
Hispurslaus, sönn og stórskemmtileg bók. Vestfirska forlagið gaf út 2010.
„Eitt sinn á miðjum slætti kemur sendimaður að Litlafjarðarhorni og gengur fyrir Franklín þar sem hann var að hjakka með orfi og ljá á túnskækli heima við bæ og segir að bróðir hans biðji hann að skreppa snöggvast heim að Stórafjarðarhorni, hann þurfi nauðsynlega að finna hann. Ekkert var getið um erindið en skilaboðin skýr svo ekki var um villst til hvers var
ætlast. Franklín leggur frá sér orfið, stingur ljáoddinum í grassvörðinn og leggur af stað, veður Fellsá og Þrúðardalsá á vaði. Veðrið var gott svo blautir fætur sköðuðu ekki. Hann kemur í Stórafjarðarhorn og gengur inn eins og venjulega. Þegar hann opnar eldhúsdyrnar er þar kominn prestur og til stendur að gifta afa og ömmu. Franklín skyldi vera vígsluvottur.

Ekki fara neinar sögur af orðaskiptum nema að fljótlega hefur prestur að lesa giftingarritúalið. Á meðan prestur las stóð amma við eldhúsborð innst í eldhúsinu, afi fram við dyr með aðra hönd á húni, Franklín út við vegg og prestur á miðju gólfi. Um leið og prestur lauk lestrinum og brúðhjónin höfðu játað skilmálana eins og rítúalið gerði ráð fyrir opnaði afi dyrnar með þeim orðum að best væri að drífa sig í heyskapinn, ekki veitti af að nota þerrinn. Eftir stóðu presturinn, Franklín og amma. Dyrnar lokuðust með skelli.

Vandræðaleg þögn grúfði yfir eldhúsinu þangað til amma hvíslar: „Má kannski bjóða þér kaffibolla með prestinum, Franklín minn.“ Þar sem þau sátu þrjú og drukku kaffið sást til afa út um eldhúsgluggann þar sem hann stikaði hraðstígur um flekkinn og rifjaði svo heygusurnar gengu hátt í loft upp í reglubundnum takti. Þegar Franklín hafði lokið við kaffibollann hélt hann til baka. Ekki urðu kveðjur með þeim bræðrum í þetta sinn og nokkur styttingur varð í samskiptunum lengi á eftir.


« Júlí »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30 31