A A A
  • 1950 - Margrét Guđjónsdóttir
  • 1955 - Angantýr Valur Jónasson
22.05.2015 - 15:13 | BIB,Morgunblađiđ

Sérlega krassandi Skjaldborg

Vestfirđingurinn Helga Rakel Rafnsdóttir.
Vestfirđingurinn Helga Rakel Rafnsdóttir.

• Skjaldborgarhátíðin hefst á Patreksfirði í kvöld • 22 myndir á dagskrá

Skjaldborg – hátíð íslenskra heimildarmynda hefst í kvöld á Patreksfirði, stendur yfir hvítasunnuhelgina og er nú haldin í níunda sinn.
Dagskráin er sérlega krassandi í ár og aldrei hafa íslensku myndirnar á hátíðinni verið fjölbreyttari og betri, bæði hvað varðar efnistök og efnisval, að sögn Helgu Rakelar Rafnsdóttur sem er í Skjaldborgarteyminu. „Höfundar sem hafa komið áður koma aftur með myndir og hafa vaxið, dafnað og þroskast. Það er gaman að sjá það,“ segir Helga.

Sextán íslenskar heimildarmyndir verða sýndar og auk þeirra fjögur verk í vinnslu og tvær myndir eftir danska leikstjórann Evu Mulvad sem er annar heiðursgesta hátíðarinnar. The Good Life og Den sidste dans. Hinn heiðursgesturinn er einnig danskur, framleiðandinn Sigrid Dyekjær.

Dyekjær og Mulvad eru meðal stofnenda og eigenda framleiðslufyrirtækisins Danish Documentary sem var stofnað árið 2007 af fimm konum, þar af fjórum leikstjórum, og mun vera leiðandi á heimsvísu á sviði skapandi heimildarmynda. Fyrirtækið hefur framleitt á þriðja tug heimildarmynda og margar sem hlotið hafa fjölda verðlauna. Auk þess að vera framleiðandi er Dyekjær vinsæll fyrirlesari og kennari, kennir m.a. við Danska kvikmyndaskólann, og mun hún taka þátt í umræðum á Skjaldborg um ólíkar fjármögnunarleiðir og stöðu skapandi heimildarmynda.

Mulvad er einn áhugaverðasti leikstjóri Dana og á m.a. að baki heimildarmyndirnar Enemies of Happiness sem hlaut World Cinema Jury Prize á Sundance-kvikmyndahátíðinni 2005 og The Good Life sem valin var besta heimildarmyndin á Karlovy Vary-hátíðinni árið 2010. Myndir hennar þykja fjölbreyttar og einkennast af því hvernig hún beitir aðferðum leikinna mynda á sérlega skapandi hátt við að miðla sögum sínum, eins og segir á vef hátíðarinnar. Mulvad mun fjalla um verk sín og starf leikstjórans í skapandi heimildarmyndum á hátíðinni og sitja fyrir svörum.

The Good Life er opnunarmynd hátíðarinnar, verður sýnd í kvöld kl. 21 í kvikmyndahúsinu sem hátíðin dregur nafn sitt af. Hún segir af mæðgum sem hafa lifað allt sitt líf í vellystingum á portúgölsku strandlengjunni og standa frammi fyrir því að auðæfin eru uppurin og í stað þotulífernis taka við ógreiddir reikningar og stöðugur ótti við að eiga ekki fyrir leigu næsta mánaðar, eins og segir á vef Skjaldborgar. Dóttirin hefur aldrei unnið handtak og neyðist til að finna sér vinnu sem er þrautin þyngri fyrir dekurbarn með auða ferilskrá í miðri fjármálakrísu. Myndinni er lýst sem tragíkómískri sögu um dýrðartíma og fall fjölskyldu sem hafði allt en endaði með ekkert. Helga segir Mulvad nota tónlist í myndinni með sama hætti og gert sé í leiknum kvikmyndum. „Það er mjög gamaldags kvikmyndatónlist og hún leikur sér í rauninni með kvikmyndaformið,“ segir Helga. Frásagnaraðferðir leikstjórans minni um margt á leiknar kvikmyndir.

 

Munu vekja athygli

Helga segir margar íslensku heimildarmyndanna eiga eftir að vekja athygli. Jóhanna: Síðasta orrustan, eftir Björn Brynjúlf Björnsson, sé ein þeirra en hún fjallar um síðustu vikur Jóhönnu Sigurðardóttur í embætti forsætisráðherra, þegar hún reyndi að fá Alþingi til að samþykkja nýja stjórnarskrá, en nýr formaður í hennar flokki lét af þeirri stefnu hennar að knýja málið í gegnum þingið og vildi fresta því til næsta kjörtímabils, eins og því er lýst á vef Skjaldborgar.

„Svo er það Hvað er svona merkilegt við það? eftir Höllu Kristínu Einarsdóttur, framhald af Konur á rauðum sokkum sem fékk mikla athygli og hlaut áhorfendaverðlaun Skjaldborgar, Einarinn, árið 2009,“ segir Helga en sú mynd fjallar um kvennaframboð í íslenskri stjórnmálasögu. Helga nefnir fleiri merkilegar myndir: Latínubóndann eftir Jón Karl Helgason sem fjallar um Tómas R. Einarsson kontrabassaleikara, Finndið eftir Ragnar Hansson sem veitir sýn inn í heim uppistandarans Hugleiks Dagssonar og Stúlkurnar á Kleppjárnsreykjum eftir Ölmu Ómarsdóttur sem fjallar um „ástandið“ svokallaða á tímum hernámsins á Íslandi og hvernig tekið var á því af hálfu yfirvalda.

„Einnig verður sýnd mynd eftir Jóhann Jóhannsson tónlistarmann, End of summer, sem var tekin á Suðurskautslandinu,“ segir Helga og má geta þess að myndin hlaut í byrjun mánaðar AIRBNB Short Film Grand Prize á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni IndieLisboa í Lissabon í Portúgal. End of summer er fyrsta stuttmynd Jóhanns, án tals en með tónlist eftir hann og tekin á svarthvíta super 8 filmu.

 

Samvinna og gestrisni

Ókeypis er inn á allar myndir sem keppa um áhorfendaverðlaun hátíðarinnar, Einarinn, og þeir sem vilja sækja sjávarréttaveislu, plokkfiskboð kvenfélagsins, ball og heiðursgestsdagskrá geta keypt sér armband sem veitir aðgang að þeim viðburðum. Helga segir það samvinnu við heimamenn og gestrisni þeirra að þakka að hægt sé að halda hátíðina. „Þetta er skemmtileg hátíð og margir sem koma aftur og aftur,“ segir hún að lokum.

Dagskrá og frekari upplýsingar um hátíðina má finna á vefsíðu hennar,

www.skjaldborg.com.

 
Morgunblaið 22. maí 2015
« Apríl »
S M Ţ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30