A A A
13.03.2016 - 20:48 | Vestfirska forlagið

Saga dagsins: Að halda fé til beitar

Það eru allir sauðalitirnir í fénu á Brekku hjá frú Guðrúnu Steinþórsdóttur. Ljósm. H. S.
Það eru allir sauðalitirnir í fénu á Brekku hjá frú Guðrúnu Steinþórsdóttur. Ljósm. H. S.

Sú saga gengur fjöllum hærra hér vestra þessa dagana, að þeir félagarnir, léttadrengurinn á Brekku og Miðbæjarkallinn, haldi nú fénu stíft til beitar. Ekki er það vegna þess að þeir séu svona heytæpir, heldur eru þeir að þessu til að halda við fornum venjum. Er það ekki bara virðingarvert? Þetta urðu menn að gera í gamla daga til að lifa af. Sem betur fer liðin tíð að mestu. Láta þeir smalarnir vanalega út þegar sól er komin á loft og halda fénu til beitar fram á Brekkudal og Haukadal. Hafa þeir með sér stunguskófluna og moka ofan af þegar þannig háttar til. Þetta er stundum kalsamt segja þeir kumpánar, en kaffibrúsinn bjargar miklu. Það var einnig svo hjá kaffibrúsaköllunum. Beitin hefur stundum sparað þeim 2-3 hneppi á dag og munar um minna.

   Við seljum ekki þessa sögu dýrar en við keyptum hana. Hitt er annað að ef sagan er skemmtileg þá er hún sönn sögðu þeir gömlu. Svo skal því haldið til haga að þeir í Keldudal sögðu í gamla daga að húsvist væri á við hálfa gjöf.

« September »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30