Rís úr öskunni - nýtt safn um Stein Steinarr
„Hugmyndin að Steinshúsi kviknaði árið 2007 í sumarbústað okkar hjóna sem stendur steinsnar frá gamla samkomuhúsinu,“ segir Þórarinn Magnússon, stjórnarformaður Steinshúss ses.
„Að baki hugmyndinni lágu fyrst og fremst tvær ástæður. Annars vegar var það þessi ljóti nágranni,“ segir Þórarinn og vísar þar til brunarústanna. „Hins vegar voru persónuleg tengsl mín við Stein. Þannig er að faðir minn, Magnús Gunnlaugsson, sem lengi var bóndi og hreppstjóri á Ytra-Ósi í Steingrímsfirði, var skólabróðir Steins á Núpi í Dýrafirði 1925-26. Þeir urðu ágætis kunningjar og Steinn kom stöku sinnum í heimsókn í sveitina til föður míns á stríðsárunum,“ segir Þórarinn og rifjar upp sögur eldri systra sinna þess efnis að Steinn hafi á góðviðrisdögum óskað eftir því að fá að taka í hrífu úti á túni þrátt fyrir visna hönd sína.
Framkvæmdirnar hófust rétt fyrir efnahagshrunið
Að sögn Þórarins tóku eigendur brunarústanna, þ.e. sveitarfélagið, kvenfélagið og ungmennafélagið í sveitinni, strax vel í þá hugmynd að breyta húsinu í safn og fræðimannasetur undir merkjum sjálfseignarstofnunar, en hins vegar tók uppbyggingin lengri tíma en ráð hafði verið fyrir gert enda setti fjármálahrunið strik í reikninginn. „Endurbæturnar hófust í september 2008, aðeins mánuði áður en hundrað ár voru liðin frá fæðingu skáldsins,“ segir Þórarinn og viðurkennir fúslega að á þeim tíma hafi hann ekki haft miklar áhyggjur af því hvort hægt yrði að fjármagna uppbygginguna að fullu. „Í kjölfar hrunsins leitaði ég til vina minna sem og ýmissa fyrrverandi og núverandi samstarfsfélaga um aðstoð, en sjálfur er ég byggingarverkfræðingur. Ég bað þá að vinna í sjálfboðavinnu en lofaði á móti að þetta yrði mjög skemmtilegt ævintýri – sem reyndin hefur orðið,“ segir Þórarinn og tekur fram að samtökin Vinir Steins hafi verið stofnuð til að afla fjár til uppbyggingarinnar.
Safnið opið yfir sumartímann
Aðspurður segir Þórarinn stefnt að því að hafa húsið opið yfir sumarmánuðina og reka þar lítið kaffihús. „Þarna er komin upp flott sýning um Stein bæði á íslensku og ensku sem samanstendur af myndaspjöldum, upptökum með upplestri skáldsins og ýmsum gripum og munum frá tíma skáldsins,“ segir Þórarinn, en höfundur sýningarinnar er Ólafur J. Engilbertsson og sá hann einnig um hönnun ásamt Birni G. Björnssyni. Sýningin er unnin í samvinnu við Vaxtarsamning Vestfjarða, Uppbyggingarsjóð Vestfjarða, Alþingi og Landsbókasafn Íslands – Háskólabókasafn sem varðveitir frumgögn, en Steinshús fær eftirgerðir til afnota á sýningunni.„Á sýningunni er fjallað um helstu æviatriði Steins Steinarr, uppruna skáldsins við Djúp, hreppaflutninga í Saurbæ, fyrstu kynni af skáldskap hjá Stefáni frá Hvítadal, nám þar hjá Jóhannesi úr Kötlum, fyrstu skáldskapartilraunir, námsdvöl að Núpi, lausamennsku í vinnu, útgáfur ljóða, upphaflega gerð Tímans og vatnsins, kynni Steins og Ásthildar Björnsdóttur, ferðalög Steins, áhrif hans á ungskáld, síðustu ár hans og ýmislegt fleira,“ segir Ólafur J. Engilbertsson.
Við opnunarathöfnina eftir viku flytja auk Þórarins og Ólafs ávörp þau Ása Ketilsdóttir, kvæðakona og ábúandi á Laugalandi, Ingibjörg Steinunn Sverrisdóttir landsbókavörður, Kristín Helga Gunnarsdóttir, formaður Rithöfundasambands Íslands, og Össur Skarphéðinsson fyrir hönd Vina Steins.
Loks mun Elfar Logi Hannesson flytja ljóð eftir Stein og KK leika nokkur lög.
Allar nánari upplýsingar um Steinshús má nálgast á vefnum steinnsteinarr.is en þess má geta að allir geta orðið vinir Steins og gengið í samnefnd samtök.
Morgunblaðið sunnudagurinn 9. ágúst 2015.