15.10.2008 - 23:26 | bb.is
Rafmagnslaust á Þingeyri í gærkvöldi
Háspennulína, sem liggur frá aðveitustöð Orkubús Vestfjarða í Dýrafirði og yfir á Þingeyri, slitnaði í gærkvöldi og var því rafmagnslaust á Þingeyri til miðnættis á meðan viðgerðum stóð. Ljósavél OV á Þingeyri var gangsett fljótlega eftir að rafmagnið fór af og kom þá rafmagn á hálft þorpið. Halldór Þórólfsson, rafmagnsverkfræðingur hjá OV, segir að ekki hafi verið unnt að koma rafmagni á allt þorpið vegna bilunarinnar sem kom upp á háspennulínunni. Halldór segir að starfsmaður OV sem er á Þingeyri sé í veikindaleyfi og því hafi þurft að kalla út rafvirkja á Þingeyri til að setja ljósavélina í gang. „Háspennulínan er á milli bæjarfélaga og það tekur oft langan tíma að komast að þeim bilunum og gera við," segir Halldór.