A A A
  • 1981 - Brynhildur Elín Kristjánsdóttir
  • 1995 - Alexander Almar Finnbogason
  • 1996 - Margrét Unnur Borgarsdóttir
23.09.2017 - 08:47 | Vestfirska forlagið,Morgunblaðið,Hallgrímur Sveinsson,Elfar Logi Hannesson,Björn Ingi Bjarnason

Örn Gíslason - Fæddur 6. febrúar 1939 - Dáinn 15. september 2017 - Minning

Örn Gíslason (1939 - 2017).
Örn Gíslason (1939 - 2017).
Örn Gísla­son fædd­ist í Jóns­húsi á Bíldu­dal 6. fe­brú­ar 1939. Hann lést á sjúkra­hús­inu á Pat­reks­firði 15. sept­em­ber 2017.

For­eldr­ar hans voru Sig­ríður Ágústs­dótt­ir frá Bíldu­dal, f. 23.5. 1914, d. 15.2. 1990, og Gísli Guðmunds­son frá Tálknafirði, f. 13.7. 1908, d. 17.2. 1943. Seinni maður Sig­ríðar er Gunn­ar Þórðar­son, f. 9.8. 1922, hann gekk son­um Sig­ríðar í föðurstað. Bróðir Arn­ar er Ágúst Gísla­son, f. 5.12. 1941.

Þann 3.8. 1963 gift­ist Arn­ar Val­gerði Jón­as­dótt­ur, f. 16.9. 1944.

Dæt­ur þeirra eru:

1) Bríet Arn­ar­dótt­ir, f. 23.4. 1968, eig­inmaður henn­ar er Smári Gests­son og syn­ir þeirra eru a) Örn, f. 21.11. 1987, hann á son­inn Sæþór Ólaf, f. 21.1. 2011, b) Magni, f. 18.1. 1993 c) Val­ur, f. 24.9. 1995.
2) Sig­ríður Arn­ar­dótt­ir, f. 14.9. 1971, eig­inmaður henn­ar er Guðm. Örvar Hall­gríms­son og dæt­ur þeirra eru a) Urður Vala, f. 1.3. 2003 b) Agnes Gígja, f. 12.10. 2005 c) Sunna Bríet, f. 10.12. 2008.
3) Tumi Arn­ar­son, f. 3.10. 1978, dá­inn sama dag.
4) Arna Mar­grét Arn­ar­dótt­ir, f. 16.2. 1986, sam­býl­ismaður henn­ar er Sig­geir Guðna­son og börn þeirra eru a) Jó­hanna Krist­ín, f. 27.6. 2010 b) Snæ­björn Tumi, f. 28.8. 2014.

 

Öddi og Ági bróðir hans ólust upp á Bíldu­dal í faðmi móður sinn­ar og systkina henn­ar. Öll sum­ur var hann í Tálknafirði hjá föðurömmu sinni og afa og Ein­ari föður­bróður. Hann gekk í Barna­skóla Bíldu­dals, var í stúku hjá sr. Jóni Kr. Ísfeld og í héraðsskól­an­um í Reyk­holti í Borg­ar­f­irði.

Sem ung­ur maður vann hann ým­iss störf, m.a. við upp­bygg­ingu Mjólkár­virkj­un­ar, hjá FÍB við vega­eft­ir­lit, lagði vatns­veitu og vann við fisk­vinnslu. Öddi og Vala fluttu til Ólafs­fjarðar og hófu sinn bú­skap þar í skjóli Jak­obs móður­bróður og Álf­heiðar. Þar hóf hann nám í bif­véla­virkj­un við Iðnskól­ann og út­skrifaðist með sveins­próf vorið 1965 og hlaut meist­ara­rétt­indi þrem­ur árum síðar.

Árið 1965 fluttu hjón­in aft­ur til Bíldu­dals. Keyptu þau Sól­heima og hafa búið þar síðan. Öddi rak eigið véla­verk­stæði í mörg ár og gerði við allt sem til féll á Bíldu­dal, jafnt báta, bíla, hræri­vél­ar og allt þar á milli. Hann var um tíma vél­stjóri hjá rækju­vinnsl­unni. Síðustu árin starfaði hann hjá Flug­mála­stjórn á Bíldu­dals­flug­velli, allt þar til hann fór á eft­ir­laun.

Öddi tók virk­an þátt í fé­lags­störf­um á Bíldu­dal, lék mikið með leik­fé­lag­inu Baldri og þá iðulega í aðal­hlut­verki; Skugga-Svein, Lenny í Mýs og menn og fleiri. Öddi var fé­lagi til margra ára í Li­ons, stofnaði björg­un­ar­sveit­ina Kóp ásamt fé­lög­um og var formaður sveit­ar­inn­ar í mörg ár. Einnig var hann slökkviliðsstjóri í ára­tugi og sat í hrepps­nefnd. Hann var í sókn­ar­nefnd í mörg ár og fé­lagi í kirkju­kórn­um.

Útför Arn­ar fer fram frá Bíldu­dals­kirkju í dag, 23. sept­em­ber 2017, og hefst at­höfn­in klukk­an 14.

Morgunblaðið laugardagurinn 23. september 2017.

________________________________________________

 

Minningarorð Elfars Loga Hannessonar

 

Öddi frændi 

Hvert þorp á sína daga sínar einstöku stundir. Sumar stærri en aðrar allavega hjá okkur púkunum. Hápúnktur ársins hjá okkur var ávallt Stóra-jólaballið sem var haldið í félagsheimilinu, leikhúsi staðarins.

Smásálin ég átti reyndar oft erfitt sérlega á hápunkti jólaballsins þegar jólasveinarnir komu. Ég var nefnilega hræddur við þá, mamma mátti hafa sig allan við að halda á mér og svona var ég langt fram eftir aldri því þetta voru sko alvöru jólasveinar á Bíldudal.

Þessi jólin átti að gera enn meira því Grýla var búin að boða komu sína og ætlaði að koma með eitthvað af sínum börnum. Nei, ekki þessa rauðu heildur hina sem fáir hafa séð Lepp, Skrepp og Leiðindatuskuna. Ég sá áhyggjusvipinn á mömmu þegar pabbi sagði okkur þessi tíðindi daginn fyrirr ballið. Jesús góður ég mun aldrei geta haldið á drengnum ég verð að biðja Völu að hjálpa mér og helst Kollu líka.

Pabbi, sem einhvurrahluta vegna var vanur að hverfa alltaf á hverju balli áður en þeir rauðu mættu, gerði einsog maðurinn greip frammí fyririr sjálfum sér og bætti við. Og Logi þú þarft að hjálpa okkur. Það verða nefnilega einhverjir að leika þessi Grýlubörn. Jú þú veist að við erum að gera þetta fyrir litlu krakkana. Vá hvað ég var stoltur en samt svo sár. Já, en hérna Grýla, spurði ég. Grýla, hún mætir náttúrulega.

Helga mín týndu nú til lopapeysu og einhverja buxutætlu fyrir strákinn og hann getur svo verið í gúmmítúttunum frá honum Lása. En Logi þú kemur með mér að hitta Grýlu. Ég sat frosinn og man ekki eftir mér fyrr en við erum komnir í annað hús. Þá allt í einu ranka ég við mér hey þetta er nú enginn hellir hingað hef ég oft komið.

Við erum í Sólheimum. Heima hjá Völu, Sirrý frænku og leiksystur minni og uppáhalds frænda Ödda. Heldurðu að þú getir notað þennan púka Grýla mín, sagði pabbi með leikararöddu sinni. Æ, krúttið, sagði Öddi nei ég meina Grýla, hentu honum til mín.

Pabbi sem hlýðir alltaf Ödda enda eru þeir næstum bræður hendir mér í loft upp og ég lendi í mjúku fangi Grýlu. Sem skellirhlær, tekur svo mjúklega utan um mig, hallar höfði sínu að enni mínu. Þessi einlægu augu og brosið og væntumþykjan, mikið sem ég er ríkur púki að eiga svona einstakan frænda. Aftur knúsaði hann mig, mikið sem mér leið vel.

Svo gerðist hann allt í einu alvarlegur á svip, en þessi einstöku augu voru pýreygð og glettinn, og sagði: En þú mátt ekki vera svona þægur á morgun. Vertu heldur einsog pabbi þinn hann er alltaf svo óþekkur enda á hann ekki langt að sækja það greyj tuskan. Haltu bara í pylsfaldinn á mér frændi og gerðu einsog ég segi þér. Ég nikka höfði og fæ að launum hið einlæga bros frá frænda.

Æfingu lokið farðu nú að leika við Sirrý hún er uppá lofti. Hvernig gekk stóra jólaballið? Nú, svona glimrandi vel enda gerði ég allt sem mamma mín, afsakið Öddi frændi sagði mér að gera. Meira að segja þegar hann gaf okkur að borða úr stóra skítuga pottinum sem fannst á moldargólfinu í leikmunageymslunni. Þvo hann sagði frændi þegar einhver nefndi þá vitleysu að kannski væri sniðugt að dusta það helsta úr. Ertu vitlaus hefur þú aldrei komið til Grýlu, nei þetta verður að vera sannfærandi og satt. Og nú var Grýla að skafa úr pottinum og kallaði matur.

Ég vildi sanna mig og gera allt rétt en mikið hafði ég fyrir því að vera fyrstur í röðinni. Frændi brosti og kímdi svona útá hlið því ekki var gott að litlu krakkanir sækju Grýlu brosa. Skreppu skrepptu hérna til mín. Ég steig fram, leit einu sinni til baka á mótleikara mína, reyndi að glotta einsog frændi, ullaði svo til þeirra og stökk uppí fang Grýlu frænda. Fékk óvart knús en var svo snögglega látinn detta á gólfið. Drengstauli ætlar þú að spilla grautnum og velta mér um koll. Vá, þetta var sko ekki röddin hans Ödda frænda þetta var í alvörunni Grýla.

Ég var að leika á móti Grýlu, ég var alvöru leikari og ekki einu sinni hræddur, enda veit ég sko alveg hver þetta er bakvið stóra langa gerfinefnið. Hana réttu mér sleifina strákur ég missti hana útaf þessu knúsi þínu. Ég fann hana fljótt og Grýla skafaði nú duglega úr potti sínum. Bíddu það er eitthvað á sleifinni hennar, mold og eitthvað annað viðmóta kruðerí. Nauts það er ekki séns að ég eigi að borða þetta. Skreppur hvað ertu að fara? Skrepptu hérna. Ég hlýddi greip í pylsfald mömmu, frænda. Opnaðu munninn. Auðvitað gerði ég það og síðan þá hefur ekkert komið mér á óvart í leikhúsinu.

Elsku Öddi frændi, fyrirmynd mín í lífinu og leikhúsinu, takk fyrir allt.

 

Elfar Logi Hannesson

Haukadal í Dýrafirði

 

 

 

 

 

 

« Desember »
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31