Opið bréf úr sveitinni til Guðna Ágústssonar: Áslákur í Skarði og Anna í Hlíð eru hætt að vera saman
Við vitnum til orða þinna í Mogganum um daginn um umferðarruglið í höfuðborginni. Við köllum hana Sæluborg eins og Bjössi á Ósi. Við vitum hvernig staðan er í Nýju Delhí, Peking og Tokyo. Hvarvetna um heimsbyggðina. Burtséð frá allri loftslagsumræðu. Ruglið er alveg nóg án hennar. En spyrja má: Hvað eru country boys að skipta sér af Reykjavíkinni? Svarið er einfalt: Ísland er land okkar allra. Hagsmunir landsbyggðar og borgar eru samtvinnaðir hvað sem hver segir.
Er aldrei komið nóg af steypu, malbiki og sköttum?
Tugir þúsunda of margir bílar aka fram, fram fylking, um götur Reykjavíkur dag hvern. Og bíða og bíða og bíða. Það er kaos, neyðarástand. Þetta vita allir. Borgin er stífluð af mannavöldum, eins og þú nefnir. En ráðið við því skal vera að byggja fleiri stokka og steina úr sementi þar sem þrælahaldi með erlendu verkafólki er haldið uppi, meira malbik, stál og gler. Borgast með himinháum sköttum. Er aldei komið nóg af slíku? Til að þóknast einhverjum sem þurfa að græða meira. En af hverju má ekki fækka bílum á götum okkar sælu borgar með einföldu samkomulagi við bílaeigendur? Snarfækka ökutækjum í umferðinni strax með snjöllum samgöngusáttmála. Þá væri tekið á raunverulegri orsök vandans. Menn tala og tala segir Greta okkar Thunberg en gera ekkert. Jú víst! Meiri steinsteypu, malbik, járn og gler. Það virðist eina svarið.
Menn fái greitt fyrir minni akstur í stað steinsteypu og malbiks
Okkar geggjuðu tillögur hljóða upp á að ríkissjóður borgi mönnum fyrir að minnka akstur einkabíla eða aka þeim alls ekki. Þessir peningar myndu fara beint út í hagkerfið í stað þess að festast í steypu, stáli og malbiki og hvaðeina því tilheyrandi.
Sérfræðingar segja: Umferðarslysin á þessu ári kosta 50-60 milljarða. Umferðartafir munu kosta 15 milljarða. Bygging sprengjuheldra bílakjallara kannski 10 milljarða. Var einhver að tala um bensín, olíu, viðhald og fleira og fleira?
Þjóðhagslegur sparnaður yrði væntanlega gífurlegur af slíkum aðgerðum. Eiga ekki stjórnvöld alltaf að hafa það sem forgangsmál? Almenningur fengi peninga í stað hrikalega kostnaðarsamra umferðarmannvirkja. En viðhald núverandi vega hefði forgang.
Hliðarráðstafanir:
- Ókeypis í strætó fyrir alla. Þá myndu allir fara í strætó! Heldurðu það yrði munur eða sjá stundum örfáa eða engan farþega!
- Borg og ríki í sameiningu hefðu samvinnu um að gera leigubíla eins ódýran og hagkvæman kost og hægt er svo almenningur sjái sér hag í að nota þá. Ekki bara eftir böll!
- Allir sem vettlingi geta valdið út að hjóla.
Annað til íhugunar, Guðni. Við vitum að það þýðir ekki að banna Íslendingum neitt. Það gera landnámsmannagenin. En ætli það fari ekki að styttast í að unga fólkið segi hingað og ekki lengra: Hver fjölskylda fái að aka ákveðinn kílómetrafjölda á ári. Búið á punktum. Flestar fjölskyldur myndu trúlega virða þetta með mórölsku eftirliti ungdómsins. Sjálfsagt munu einhverjir svindla í þessu sem öðru. Það væri vitið meira ef þetta yrði strax á morgun. Allt myndi gjörbreytast. En eldri deildirnar mun sjálfsagt aldrei samþykkja svona vitleysu!
Rúsínurnar í pylsuendanum eru ekki nefndar hér. Hverjar skyldu þær vera, Guðni?
Hér er allt gott að frétta. Tíðarfar hefur verið mjög gott. Flestir vegir færir. Búið að smala. Enn eru þó kindur í fjöllum. Til dæmis 6 ær með lömbum á Urðarhlíð utan Dynjanda. Flestir farnir að taka fé á gjöf. Fiddi á Eyri keypti sér úlpubyrði í kaupfélaginu um daginn. Áslákur í Skarði og Anna í Hlíð eru hætt að vera saman.
Það beiddu allir að heilsa.